Hungur og matarlyst – ekki sami hluturinn
Hungur er þegar líkamann vantar fæðu til að uppfylla næringar- og orkuþörf sína, á meðan matarlyst er huglæg löngunin í mat. Hungur segir yfirleitt til sín nokkrum klukkutímum eftir að þú borðaðir síðast en tímalengdin er mismunandi eftir því hvað þú borðaðir stóra máltíð, hversu langt er um liðið og hvað þú varst að gera í millitíðinni.
Hungur gerir því oftar vart við sig þegar glúkósinn í blóðinu (blóðsykurinn) er í lágmarki. Því má segja að hungur sé vörn líkamans gegn því að hann skorti fæðu, og þar með næringu og orku.
Matarlyst eru hins vegar viðbrögð líkamans við til dæmis ilmi af mat eða við að sjá eitthvað matarkyns sem er girnilegt eða í uppáhaldi. Það er matarlystin sem lætur augu þín verða stærri en magann ef svo má að orði komast.
Matarlyst er nátengd hegðun okkar, auk þess að taka við skilaboðum frá meltingarvegi, heila og fituvef.
Aukin matarlyst eða þessi tilfinning að þú þurfir að borða allt sem er innan seilingar er sprottin af lífefnafræði líkamans eða vegna tilfinninga sem þú tengir við mat en einnig er það sálrænt, til dæmis borða margir af því að þeim leiðist eða þegar þeir eru daprir.
Þegar við íhugum þessa auknu matarlyst þá heyrir þú yfirleitt ekki að einhver sé „sjúkur í brokkólí!“ Nei, löngunin er venjulega í mikið unnin mat sem inniheldur mikið af unnum sykri og lélegri fitu.
Matarlystin er það sem stjórnar löngunum og eru það viðbrögð okkar við fæðu sem stýrir þessum áhrifum, matarlyst getur aukist og minnkað háð því hvað bragð þér líkar, hvað er í boði hverju sinni, hvernig heilsan og andleg líðan er.
Matarlyst getur einnig aukist og minnkað í tengslum við hormóna og streitu.
Það er sagt að best sé að borða þangað til maður er næstum saddur eða jafnvel örlítið svangur ennþá og það felst ákveðinn sannleikur í þessari setningu. Til að skynja þetta og bregðast við með því að hætta að borða þegar nóg er komið þarf einbeitingin að snúast um máltíðina sem verið er að borða. Ekki lestur, sjónvarpsáhorf eða annað sem tekur burt athyglina.
Flest fólk er of-nært, ef svo má að orði komast, þegar náttúruleg mettunar tilfinning þeirra gerir vart við sig. Í okkar erilsama heimi þá borða margir þegar þeir eru utan við sig, á hlaupum og að gera eitthvað annað en að borða. Margir hafa hreinlega misst getuna til að hlusta á líkamann þegar hann er að gefa merki um að hann sé búinn að fá nóg að borða.
Mettunartilfinning eða sedda er einnig háð hugsunum okkar, líðan og tilfinningalegum tengslum við mat.
Það skiptir líka miklu máli hvernig mat við borðum. Sem dæmi, léleg fita til að mynda úr djúpsteiktum mat (kjúklingabitar, franskar kartöflur) getur skilið þann sem borðar þetta eftir mettan og orkumikinn (því fita er mjög mettandi og orkurík), en næringarlegt gildi máltíðarinnar er sama sem ekkert.
Það er mikilvægt fyrir heilsuna að hugsa um næringargildi þeirrar fæðu sem snædd er.
Sem dæmi, avókadó er ríkt af fitu og það mjög hollri fitu en það er einnig ríkt af 19 öðrum mikilvægum vítamínum og steinefnum. Avokadó er þar af leiðandi dæmi um holla fæðu með hátt næringargildi.
Efnaskipti líkamans er annar þáttur sem hefur áhrif á hungur. „Efnaskipti“ útskýrð á ofur einfaldan hátt er hversu hratt líkaminn vinnur orku úr matnum. Skjaldkirtillinn stjórnar efnaskiptum líkamans.
Skjaldkirtilinn er kirtill sem er staðsettur rétt við neðsta hluta hálssins framanvert. Hormónin sem hann framleiðir stýra grunnorkuþörf líkamans það er, hversu mikilli orku líkaminn eyðir í hvíld. Einnig skipta vöðvamassi og hormónar máli þegar kemur að hraða í efnaskiptum líkamans. Aukin brennsla eða hröð brennsla í tengslum við líkamsáreynslu og íþróttaiðkun leiðir oft af sér aukið hungur.
Því meiri vöðvamassa sem þú hefur þeim mun hraðari er brennslan því vöðvafrumur þurfa meiri orku en fitufrumur.
Fræðilega séð eru þeir sem hafa meiri vöðvamassa með meiri matarlyst eða ættu að hafa. En vegna hormóna í líkamanum sem tengjast insúlíni, leptin og ghrelin sem og andlegum þáttum að þá er þetta alls ekki alltaf þannig.
Heilinn eltir ekki tilfinninguna um fullan maga, heldur eltir hann merkin um mettun sem þýðir að þú hafir borðað.
Heilinn móttekur merki frá mörgum mismunandi hormónum um það hvort hann þurfi mat eða ekki.
Þegar fitu eða próteina hefur verið neytt eru merki um mettun send til heila, sem og hormónin og insúlín og leptin sem senda boð til heilans um að fæðu hafi verið neytt.
Þessi boð eiga upphaf sitt í dópamínframleiðandi taugaendum í heiladyngjubotni. Þetta breytir dópamín losun til þeirrar stöðvar í heilanum sem hefur með „viðurkenningu“ að gera, stöðin sem stýrir löngun í fæðu.
Dópamínið sendir merki um viðurkenningu en of lítið af dópamíni í heila hefur verið tengt við ofát.
Stjórnun og hæfileikinn til að hafa sjálfstjórn þegar kemur að matarlyst hefur verið umtalsefni margra umræða síðastliðinn áratug eða svo.
Heiladyngjubotn er aðal-stjórnunar líffærið fyrir matarlyst mannsins. Leptin, hormónið sem framleitt er af fitufrumum sendir hins vegar neikvæða svörun þegar kemur að því að við eigum að hætta að borða.
Aukin matarlyst hefur verið tengd við ójafnvægi í hormónum, geðsjúkdómum og auðvitað streitu.
Gott væri ef allir gætu haft góða stjórn á matarlyst sinni og hungurtilfinningu en eins og staðan er í dag þá eiga of margir í vandræðum með að greina á milli raunverulegrar mettunartilfinningar og tilfinningalegra áhrifa, og að síðustu eru það hormónatengdir þættir sem einnig hafa áhrif á matarlyst.
Tökum sem dæmi konur sem fá fyrirtíðaspennu. Þær sem hafa gengið í gegnum það og eru að ganga í gegnum það þekkja þessa sjúklegu löngun sem vaknar í sykur þegar blæðingar nálgast.
Í dag er allskyns misskilningur og rangfærslur í gangi varðandi notkun á lyfjum sem eiga að draga úr matarlyst og einnig varðandi gervisætuefni. Mörg lyf sem eiga að draga úr matarlyst hafa áhrif á miðtaugakerfið og sum þessara lyfja hefur þurft að taka af markaði vegna slæmra aukaverkana á hjartakerfið.
Með því að nota lyf til að bæla niður matarlyst getur þú verið að missa af þeim skilaboðum sem að líkaminn er að senda þér. Það er nefnilega ástæða fyrir því að þú færð aukna matarlyst. Ástæðan gæti verið tengd næringu, efnaskiptum eða tilfinningum en það er mikilvægt að læra að þekkja merki líkamans til að geta leyst úr þeim merkjum sem hann er að senda þér.
Nýjar rannsóknir hafa sýnt fram á að gerfisætuefni geta í raun örvað matarlyst, aukið löngun í kolvetni og jafnvel örvað fitusöfnun, en allt þetta getur leitt til þyngdaraukningar.
Fita og prótein í mat senda tiltölulega fljót skilaboð frá munni til mettunarstöðva í heilanum, á meðan fæða með gervisætuefnum notar ekki þessar sömu boðleiðir sem þýðir að meiri hætta er á að of mikið sé borðað.
Löngun í mat og stjórnun á matarlyst eru flóknir þættir og það er mikilvægt að huga að tilfinningalegum tengslum við löngun í mat en einnig að fylgjast vel með því hvort þú ert að borða vegna hungurs eða matarlystar.
Heimild: foodmatters.tv/content/hunger