Fara í efni

Hvað á að taka með á fæðingardeildina?

Hvað þarf að muna?
Hvað á að taka með á fæðingardeildina?

Hvað þarf að muna?

Fyrst og fremst þarf að muna eftir mæðraskránni sem fyllt hefur verið inn í alla meðgönguna. Geymdu hana á vísum stað, gjarnan nálægt símanum því þú þarft að hringja í fæðingardeildina og boða komu þína þangað.

Það er góð hugmynd að vera búin að pakka niður í litla tösku því helsta sem þú þarft, með dálitlum fyrirvara. Þar er helst að nefna snyrtivörur, varasalva og eitthvað frískandi til að narta í og drekka í fæðingunni, inniskó og slopp og þótt þú fáir fatnað til að nota á sjúkrahúsinu þarftu hrein föt til að fara heim í.

Hver á að koma með?

Sumum konum finnst best að fæða einar – aðrar vilja hafa marga með sér. Þú ræður þessu fyrst og fremst. Gerðu upp við þig hvað þú vilt og segðu fjölskyldu þinni frá því. Sumar taka meira að segja stálpuð börn sín með. Þetta er smekksatriði – en hugsaðu þinn gang. Ekki er rétt að hafa með of ung börn því þau hafa takmarkaðan skilning á því sem er að gerast, verða stundum hrædd og bregst oft þolinmæðin. Athugaðu að þeir sem þú tekur með virki ekki truflandi á fæðinguna. Hafðu einnig í huga að oft er lítið pláss inni á fæðingarstofunni svo ekki er pláss fyrir fleiri en 4-6 þar inni.

Hvað þarf að taka með?

Fatnaður

Ekki reikna með að komast alveg strax í fötin sem þú notaðir fyrir meðgöngu – taktu heldur með eitthvað sem teygist og er þægilegt. Það er líka hentugt að hafa með brjóstagjafahaldara til að þurfa ekki sífellt að vera að fara í og úr brjóstahaldaranum. Mörgum konum finnst líka gott að vera í eigin náttfötum eða nota gammosíur innan undir spítalaskyrturnar.

Nuddolía

Ef þú átt einhverja uppáhalds nuddolíu er líka gott að taka hana með.

Tónlist

Ef þér finnst gott að hlusta á tónlist – taktu þá nokkra af uppáhalds geisladiskunum þínum með. Það hefur komið í ljós að ef þú hlustar á tónlist, sem þú ert hrifin af, hefur það slakandi og róandi áhrif og þú finnur ekki eins mikið fyrir sársauka.

Lesefni

Það getur verið gott að hafa eitthvað að glugga í í sængurlegunni og ef þú getur ekki sjálf lesið í fæðingunni þá getur fylginautur þinn lesið fyrir þig ef þú vilt.

Óskalisti

Þú gætir gert lista yfir óskir þinar varðandi fæðinguna. Viltu hafa daufa lýsingu? Viltu strax fá barnið til þín á magann? Viltu verkjadeyfingu eða ekki? Viltu hafa marga eða fáa í kringum ykkur? Skrifaðu þetta niður svo að ljósmóðirin hafi upplýsingar um hvers þú óskar – einnig þegar þú ert of uppgefin eða upptekin af fæðingunni.

Lyf

Yfirleitt er konum ráðið frá því að neyta lyfja á meðgöngunni, en á því eru undantekningar. Ef þú þarft að taka einhver lyf skaltu hafa þau meðferðis til að læknirinn og ljósmóðirin geti haft þau til hliðsjónar við fæðinguna.

Hvað hefur þú meðferðis fyrir barnið?

Ef þú vilt ekki taka ungbarnadótið með þér strax á fæðingardeildina, er samt ekkert vitlaust að vera búin að pakka því niður í tösku svo að hægt sé að koma því til þín fyrir heimferðina. Þetta þarftu: bleiur, nærfatnað, einn alklæðnað, t.d. peysu og galla, litla húfu, sokka og yfirhöfn, auk kerrupoka eða teppis. Öruggast er að flytja barnið heim í ungbarnabílstól sem er festur í bílinn með öryggisbelti. Fylgið leiðbeiningum framleiðanda um notkun hans. Burðarrúm eru ekki nærri því eins öruggur kostur þar sem barnið er ekki fest í það og rúmið ekki fest í bílinn.

Sími – símapeningar

Eftir fæðinguna vilja flestir deila gleðitíðindunum með öðrum. Farsímar eru ekki leyfðir á sjúkrahúsum. Þetta bann var sett vegna þess að símarnir geta truflað viðkvæman rafbúnað á sjúkrahúsunum. Því er ráðlegt að hafa með mynt í símann. Á flestum sjúkrahúsum er hægt að fá síma inn á fæðingarstofuna. Mundu því eftir símapeningum.