Hvað er gyllinæð?
Gyllinæð er tilkomin vegna þess að bláæðar í endaþarmi víkka út og það myndast æðahnútar.
Innri gyllinæð:
kallast æðahnútar á bláæðum sem liggja inn í endaþarminum. Þeir valda sjaldnast sársauka en sjúklingur hefur það á tilfinningunni að endaþarmurinn sé fullur og hann þurfi losa hægðir. Þessir æðahnútar geta sigið út um endaþarmsopið og finnst sjúklingi þá ýmist eins og eitthvað sé klemmt í endaþarminum eða hann finnur ekkert nema sársaukalausan hnúð við endaþarmsopið þegar það er þrifið. Oft fara þessir æðahnútar til baka sjálfir eða hægt er að ýta þeim vandræðalaust inn aftur. Í sumum tilfellum myndast þó blóðstorka í gyllinæð, hún verður sársaukafull og oft fylgir kláði og erfiðara er að fá hnútana til ganga inn í endaþarmin aftur. Þá skapast hætta á að blæði frá gyllinæðinni og verður sjúklingur var við það sem ferskt blóð í hægðum eða á pappír þegar endaþarmurinn er þrifinn.
Ytri gyllinæð:
kallast æðahnútar á bláæðum í húðinni við endaþarmsopið. Þeim fylgir oft kláði og óþægindi og algengt er að þeir blæði sérstaklega þegar endaþarmurinn er þrifinn.
Hvað veldur gyllinæð?
Helsti orsakavaldur gyllinæðar er vegna rembings við hægðalosun og fylgir því oft harðlífi eða ef einstaklingur situr lengi við að reyna að losa hægðir. Það sem gerist þegar við losum hægðir er að það slaknar á endaþarmsvöðvunum og bláæðar í endaþarmi fyllast af blóði og þenjast út. Þetta eykur álag á æðaveggina og ef álagið er mikið eða langvarandi gefur æðaveggurinn sig og æðahnútar myndast.
Gyllinæð er mjög algengur sjúkdómur, þó eru sumir í meiri áhættu en aðrir.
Það eru:
- Ófrískar konur
- Of feitir einstaklingar
- Þeir sem standa langtímum saman
- Þeir sem lyfta oft þungum hlutum
- Þeir sem hafa fjölskyldusögu um gyllinæð
Hver eru einkenni gyllinæðar?
Gyllinæð getur verið til staðar í langan tíma án þess að sjúklingur finni fyrir nokkrum einkennum.
Helstu einkenni eru:
- Óþægindi og sársauki í endaþarmi
- Kláði í endaþarmi
- Þreifanlegur hnútur í eða við endaþarm
- Hægðalosunarþörf sem verður vegna fyrirferðar í endaþarminum
- Fersk blæðingar frá endaþarmi, sést ýmist á pappír þegar endaþarmurinn er þrifinn eða utan á hægðum.
Hver er meðferðin við gyllinæð?
Algengasta orsök gyllinæðar er hægðatregða og því þarf ekki alltaf á lyfjameðferð að halda til að lækna gyllinæð. Oft nægir að leiðrétta hægðatregðuna. Hægðatregðu má laga með því að:
- Auka trefjaneyslu, en trefjar auka umfang hægða og hraða ferð þeirra í gegnum þarmana. Mikið er af trefjum í grænmeti, ávöxtum og grófu korni.
- Drekka mikið af vökva, a.m.k. 8 glös af vatni á dag. Ef vökvaneysla er ekki aukin í samræmi við aukna trefjaneyslu gera trefjarnar illt verra og auka enn frekar á hægðatregðuna.
- Forðast trefjasnauða, hitaeiningaríka fæðu.
- Regluleg hreyfing er nauðsynleg því hreyfing eykur þarmahreyfingar.
- Hægðalyf sem auka umfang hægða gagnast oft vel, en rétt er að forðast annarskonar hægðalyf nema í sértökum tilvikum.
- Mikilvægt er að fara eins fljótt á klósett og hægt er þegar viðkomandi finnur fyrir hægðaþörf, hægðirnar verða þurrari og harðari því lengur sem þær bíða.
Til að minnka sársauka og óþægindi:
- Setjast í volgt bað 2–4 sinnum á dag, ekki lengur en 15–20 mínútur í senn.
- Þrífa endaþarminn eftir hægðir með blautum klútum, t.d. eins og notaðir eru fyrir ungabörn og alls ekki nudda. Einnig er hægt að fara í sturtu til að þrífa endaþarminn.
- Nota ísbakstra í 15–20 mínútur í senn, mikilvægt er að vefja ísinn eða kælipokann í mjúkt klæði svo kuldinn leggist ekki beint á húðina.
- Verkjastillandi lyf s.s. parasetamól eða ibufen hjálpa. Forðist lyf sem innihalda codein því þau auka á hægðatregðuna. Einnig eru til endaþarmsstílar og krem sem lina verki og minnka kláða.
Ef einkenni lagast ekki eru æðahnútarnir fjarlægðir, það er ýmist gert með því að læknir smeygir gúmmíbandi utan um æðahnútinn. Við það stöðvast blóðstreymi til svæðisins og hann dettur af (rubber band ligation), einnig er hægt að sprauta efnum inn í æðahnútinn (sclerotherapy) eða frysta æðahnútinn (cryosurgery) og hefur það sambærileg áhrif. Þessar aðferðir þarfnast ekki innlagnar á sjúkrahús.
Í erfiðustu tilfellunum getur verið nauðsynlegt að fjarlægja gyllinæð með skurðaðgerð.
Eftir þessar aðgerðir getur í einstaka tilfellum orðið eftir lítill húðflipi sem getur valdið kláða og óþægindum og er þá einfallt að fjarlægja hann.
Hvernig greinir læknirinn sjúkóminn?
Ef blæðingar frá endaþarmi verður vart og ekki er um að ræða sprungu í endaþarmsopinu sem blæðir úr er mikilvægt að leita til læknis. Gyllinæð má greina með skoðun á endaþarmi og þreifingu en í sumum tilfellum þarf þó að gera speglun á endaþarmi og jafnvel ristli til að útiloka aðra sjúkdóma.
Batahorfur
Flest alla er auðvelt að lækna af gyllinæð, en endurkomutíðni sjúkdómsins er há og því er mjög mikilvægt að sjúklingur fylgi öllum leiðbeiningum nákvæmlega til að fyrirbyggja að sjúkdómurinn taki sig upp.
Hverjir eru fylgikvillar gyllinæðar?
Blæðingar.
Ef ástandið er viðvarandi geta blæðingar leitt til járnskortsblóðleysis.
Sýkingar á endaþarmssvæðinu ef æðahnútur opnast.
Heimild: doktor.is