Hvað er iðraólga (ristilkrampar)
Iðraólga (ristilkrampar; e. Irritable Bowel Syndrome eða IBS) á sér stað við truflun á starfsemi ristils og smáþarma á þann hátt að í stað þess að dragast reglubundið saman og flytja þannig fæðuna taktfast áfram þá verða samdrættir á mismunandi stöðum ristils og smáþarma samtímis. Þessar truflanir koma oftast í kjölfar máltíða. Afleiðingar þessara óreglulegu samdrátta eru þær að fæðan berst treglegar niður meltingarveginn og frásog vatns truflast með þeim afleiðingum að hægðirnar verða harðar en geta einnig stundum orðið linar eða jafnvel að þunnum niðurgangi.
Hverjir fá iðraólgu ?
Iðraólga byrja yfirleitt hjá ungu fólki og hrjáir að jafnaði 15-20% fullorðinna en flestir eru á aldrinum 20-50 ára. Konur eru í meiri áhættu svo og þeir sem lifa við mikla streitu.
Hver er orsökin ?
Ekki er hægt að leggja fram eina skýringu á orsökum iðraólgu en talið er að þarmar og ristill séu óeðlilega viðkvæm fyrir þáttum sem örva meltingun eins og mat og lofti í meltingarfærum. Mikil streita og spenna eru oft sameiginleg einkenni þeirra sem fá iðraólgu auk þess sem sum lyf geti hæglega valdið dæmigerðum einkennum. Annað sem oft veldur krampa í ristli eru mjólkursykuróþol og glútenóþol, magasár og þarmabólga s.s. sáraristilbólga (colitis ulcerosa), svæðisgarnakvef (crohns sjúkdómur), eða sníkjudýr eða ormar. Konur hafa oft mestu óþægindin stuttu fyrir blæðingar sem tengir sjúkdóminn einnig við hormónakerfi líkamans.
Einkenni iðraólgu.
Kviðverkir og almenn óþægindi, ásamt uppblásnum kvið, vindgangi og þenslutilfinningu eru helstu einkennin sem oft léttir á við það að losa hægðir og vind sem er skiljanlegt. Hægðalosun verður gjarnan oftar en einu sinni á dag og geta hægðir verið breytilegar, ýmist niðurgangur eða hægðatregða. Ógleði er einnig nokkuð algeng, sem og eymsli í endaþarmi eða í baki. Sumir fá höfuðverk og upplifa mikla þreytu, einbeitingarskort, jafnvel áhyggjur, kvíða og hræðslu. Óþægindi eru oft mikil stuttu eftir máltíðir og vegna þess að ósjálfráða taugakerfið stjórnar að hluta til hreyfingum meltingarfæranna getur streita haft veruleg áhrif á alla starfsemi maga, þarma og ristils.
Greining læknis og lyfjameðferð.
Saga sjúklings um einkenni er stór hluti greiningarferlisins en ristil- eða endaþarmsspeglun svo og röntgenmynd af ristli er notað til að útiloka aðra sjúkdóma. Ástæður þessarar einkenna eru aðeins starfslegar og vanalega finnast engar vefjabreytingar, því er ekki talið að sjúkdómurinn auki hættu vefrænum sjúkdómum í meltingarfærum, né sárum, blæðingum, eða krabbameini.
Ef blæðingar frá meltingarvegi fylgja einkennum, eða sótthiti, þyngdartap og langvarandi verkir, þarf að skoða þau einkenni sérstaklega. Lyfjameðferð er stundum niðurstaðan í erfiðum tilfellum og þar sem streita virðist stundum vera megin orsökin þarf að vinna úr andlegum og streitutengdum þáttum fyrst og fremst með hjálp fagaðila og samtalsmeðferðar og ná tökum á streitunni og komast að undirrót kvíða sé hann til staðar. Stundum er þó lyfjameðferð tengd andlegum þáttum eina úrræðið þar til líðanin batnar.
Lyf sem mögulega geta hjálpað eru lyf sem slá á krampana og einnig hægðalyf sé hægðatregða til staðar. Margir nýta sér að leggja heita bakstra eða hitapoka á kviðinn séu verkir miklir og getur það slegið á. Hins vegar er ljóst að lang áhrifaríkasta, náttúrulegasta og um leið ódýrasta meðferðin er heilsusamlegur lífstíll, gott skipulag á máltíðum og meðvitund um það hvaða fæðutegundir ber að varast, hvaða fæðutegundir þarf að nota í hófi og jafnvel það hvernig fæðutegundir passa mis vel saman.
Meðferð.
Meðferðin byggir á niðurstöðum greiningar og getur snúið að mataræði eða andlegum þáttum eða bæði. Gott er að skrá niður með tímasetningum allt sem er borðað og drukkið, og bætið við skráningu á einkennum og klukkan hvað þau koma fram. Þannig má fá góða heildarsýn á mataræðið og mögulega komast að því hvaða fæðutegundir valda óþægindum og undir hvaða kringumstæðum.
Næg vatnsdrykkja er mikilvæg fyrir alla en miðað skal við að drekka 1-2 l af vatni á dag. Varðandi magn þess vökva sem hver og einn skal drekka er einnig hægt að miða við að þvagið sé ljósleitt á litinn en ekki dökkt þegar líða fer á morguninn en fyrsta þvag er oftast dökkt á litinn eftir nóttina.
Nokkrar fæðutegundir og drykkir tengjast gjarnan einkennum meira en aðrar og ekki óalgengari drykkur en kaffi með mjólk getur verið megin orsök óþægindanna. Einnig geta grænmetistegundir eins og blómkál, spergilkál (brokkál) og baunir aukið loftmyndun í meltingarveginum. Að lokum er vert að draga úr sykurneyslu og notkun á sterkum kryddum, halda áfengisneyslu í lágmarki sem og fituneyslu en margir tengja einnig mikla neyslu á súkkulaði við einkenni.
Regla á máltíðum er enn annar mikilvægur þáttur það er nefnilega ekki nóg að vita hvað á að borða heldur þurfa máltíðir að vera skipulagðar á 2-3 klst fresti yfir daginn sem þýðir að á bilinu 4-6 máltíðir og millibitar eru borðaðir.
Nægar trefjar í fæðunni hvetja starfsemi þarmanna en gæta verður að nægri vökvaneyslu samhliða neyslu á trefjaríku fæði. Þeir sem ekki borða mikið af trefjum ættu að miða við að auka trefjaneysluna smám saman til að venja meltingarveginn við. Nauðsynlegt er að auka vatnsdrykkjuna samhliða þar sem trefjar draga í sig vökva í meltingarveginum. Ef of lítill vökvi er til staðar er að auki hætta á hægðatregðu . Helstu trefjagjafarnir eru heilt korn, fræ til dæmis sólkjarna- og hörfræ, morgunkorn eins og hafra- og bygggrautur, Cheerios, Byggi, Branflögur, múslí og All Bran, grænmeti og ávextir. Gott er að hafa fjölbreytta uppsprettu trefja á matseðli dagsins sem ætti að veita á bilinu 20-25 g af trefjum. Dæmi um það hvernig uppfylla má slíkt magn fer hér á eftir en aðeins eru tilgreindar þær matvörur sem innihalda trefjar, annar matur og álegg bætist við, alls eru þetta 22 g af trefjum.
Morgunverður: 1 skál af hafragraut með 1 msk af rúsínum og 1 msk af sólkjarnafræjum.
Millibiti: Appelsína eða 2 mandarínur
Hádegisverður: 2 sn gróft brauð* með agúrku og tómötum
Millibiti: Banani eða 2 stk kíví
Kvöldverður: Hýðishrísgrjón 100 g og ferskt salat 100 g
Millibiti: Epli eða pera
*Brauð með 6 g af trefjum eða meira í 100 g, td. Lífskorn, Eyrarbrauð, Fittybrauð, Hjartabrauð.
Samantekt:
Margir mismunandi þættir koma við sögu í heilbrigði líkamans og vellíðan einstaklingsins en eins og með svo margt eru það þættir tengdir reglusemi, mataræði, hugarfari, hreyfingu og lífsstíl.
Fríða Rún Þórðardóttir, Næringarfræðingur, næringarráðgjafi, íþróttanæringarfræðingur.
Magnús Jóhannsson, Læknir