Hvað er svona merkilegt við það að vera hlaupari ?
Á persónulegu nótunum !
Fyrir um hálfri mannsævi og fyrr þóttu hlaup svo sannarlega ekki merkileg og eiginlega bara mjög hallærisleg! Það kom ekki fyrir að ég kæmist í gegnum eina af mínum daglegu hlaupaæfingum án þess að heyra hrópað á eftir mér, 1-2-1-2, hlegið hátt og pískrað.
Mér var samt alveg nákvæmlega sama, ég var ekki í mikilli tilvistarkreppu og þurfti ekki að sýna mig eða sanna fyrir einum eða neinum. Ég var að hlaupa og æfa vel fyrir mig til að láta drauma mína rætast. Aðallega draum um að komast á skólastyrk til Bandaríkjanna, keppa á stóru háskólamótunum þar og afla mér góðrar menntunar. Á þessum árum var ég í gagnfræðaskóla – strax með skýra framtíðarsýn ! Brátt varð ég líka alveg hinn ágætasti hlaupari sem líka gat hlaupið á eftir bolta og var því eftirsótt í knattspyrnuliðið mitt í Mosfellsbænum, en það heillaði mig ekki nógu mikið, Bandaríkin voru mitt markmið. Á framhaldsskólaárunum hljóp ég stundum úr skólanum, Menntaskólanum við Sund og heim upp í Mosfellsbæ, en núverandi aðstoðarforstjóri Ölgerðarinnar, tók töskurnar fyrir mig heim. Takk fyrir hjálpina Pétur ! Þetta brölt mitt þótti það merkilegt að skrifað var um þetta hátterni í Tirnu, árbók útskriftarárgangs Menntaskólans við Sund, árið 1990. Markmiðið náðist, 6 ár í Bandaríkjunum, fínn árangur í hlaupunum og gott nám í höfn.
Brautryðjendur
Þeir sem eiga álíka langan hlaupaferli að baki þekkja þessi hróp og köll af eigin raun en það er með þetta eins og svo margt að þetta fer að fara inn um annað eyrað og út um hitt – sem betur fer. Þessir sömu geta eflaust tekið undir það að í dag er gaman að vera brautryðjandi í hlaupageiranum og ég leyfi mér að segja, vera í hópi þeirra sem hafa lagt sitt pund á vogarskálarnar til að gera hlaup á Íslandi að því sem þau eru í dag !
Hlaup sem lífstíll
Hlaupaæfingar, keppnir og hlaupaferðir til erlendra stórborga eru í dag stór hluti af lífstíll fjölmargra einstaklinga, para, jafnvel heilu fjölskyldnanna og síðast en ekki síst vinahópanna. Pör sem hlaupa fara saman í stórborgahlaupin til dæmis Boston, París, Berlín og New York og búa til rómantískar ferðir í kringum þessa viðburði. Þetta hefði þótt óhugsandi þó ekki sé litið lengra en til áranna rétt fyrir hrun þegar allir kappkostuðu að toppa hvern annan með vitleysunni. Hlaupin voru að verða vinsæl þá, það má ekki líta fram hjá þeirri staðreynd, en það sem skiptir meira máli er að hlaupin héldu velli og í dag eyða margir fjármunum frekar í góða hlaupa- og heilsubótarferð heldur en stressandi innkaupaferðir í einkaþotu með gull í tönnum.
Heilsubætandi áhrif
Hlaupin, eru hin ágætasta heilsubót, í þau þarf lágmarksbúnað sem eru góðir skór og það sem ekki skemmir fyrir, hlaupin geta verið gæðatími para og jafnvel fjölskyldunnar, gæðatími sem oft er vandfundinn. Foreldrar geta hlaupið með ungbörn í þar til gerðum kerrum og er það mjög hentugt í alla staði.
Þeir sem hafa tileinkað sér hlaup sem hluta af sínum lífsstíl telja þau allra meina bót - fyrir líkama og sál - hefur það nokkuð til síns máls og meira að segja er það sannreynt með rannsóknum. Þá er átt við áhrif hlaupa og annarrar krefjandi líkams áreynslu sem leiðir til framleiðsla líkamans á vellíðunarhormóninu endorfín sem upp á enskuna er oft nefnt „runners high“ sem er örugglega heilsusamlegasta, mest ávanabindandi, ódýrasta og minnst skaðlega ávanabindandi fíkniefnið sem þekkist.
Hlaupaæfingar geta verið góð leið til að grennast en gott er að hafa á bak við eyrað að ef þú ætlar að nota lengri æfingarnar þínar t.d. 50-70 mín hlaup sem fitubrennsluæfingu að þá virkar það ekki nema að hluta ef þú tekur drykki aðra en vatn með þér til að drekka á leiðinni.
Eru hlaupin alltaf jákvæð ?
Þó svo að hlaup séu fyrir nánast alla og á öllum aldri þá er það mín skoðun að á sumum um tímabil lífsins eru hlaup að mínu mati ekki það sem málið ætti að snúast um og er meðganga þar á meðal. Auðvitað er þetta einstaklingsbundið eins og allt, við erum jú öll einstök, en hlaup valda álagi á grindina og mjóbakið og því er það áleitin spurning hvort að hlaup og meðganga eigi bara ekki samleið.
Einhverjir sem eru andsnúnir hlaupum og hlaupamenningunni almennt segja gjarnan að hlauparar séu alltaf meiddir, haltir og með harðsperrur. Auðvitað meiðast hlauparar, þeirra meiðsli eru bara af öðrum toga en golfmeiðslin, tennis olnboginn og áverkarnir sem koma í „oldboys“ innanhúss boltanum.
Tenging við ferðaþjónustuna
Óplægður akur er hlaupatengd ferðaþjónusta hér á Íslandi, en reyndar þá eru teikn á lofti um að þetta sé að byrja af alvöru hér á næstunni. Þetta er góð viðskiptahugmynd sem fara þarf vel með og skipuleggja gaumgæfilega með þeim sem þekkja hið harðgera land okkar og þær hættur sem leynast á hálendinu, kringum jökla, fossa og straumharðar ár.
Hlaupið til góðs
Hlaup til styrktar góðum málefnum eru af hinu góða. Sem dæmi má nefna Hlaupið til góðs í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, „Á meðan fæturnir bera mig“, Krabbameinshlaupið, Hjartadagshlaupið, Kvennahlaupið og fjölmörg önnur hlaup á svipuðum nótum. Slíkir viðburðir draga að fólk, vekja athygli á málstaðnum og gefa jafnvel einhvern fjárhagsleganhagnað.
Hlaupandi Íslendingar sem landkynning
Íslendingar eru farnir að taka þátt í helstu maraþonum heimsborganna og víða, einnig í ofurhlaupum og heimsleikum öldunga og líffæraþega. Þarna koma íslenskir hlauparar inn sem góð landkynning ef þeir eru nægjanlega vel merktir Íslandi það er nefnilega þannig að þegar fólk erlendis heyrir nafnið Ísland eða af einhverjum frá Íslandi þá leggja þeir oft við hlustir.
Spurningunni er því auðsvarað, það er ekkert merkilegt við það að vera hlaupari e það er hins vegar merkilegt margt sem hlauparar taka sér fyrir hendur, sér og öðrum til ánægju og yndisauka
Fríða Rún Þórðardóttir
Næringarfræðingur og hlaupari til 30 ára