Hvaða áhrif hefur súkkulaði á líkamann?
Við elskum súkkulaði, það er sannað mál. En hvað gerir súkkulaði okkar líkama?
Súkkulaði er gert úr kakóbaunum sem vaxa í fræpokum á kakótrénu, Theobroma cacao, en gríska orðið „theobroma“ má útleggja sem „fæða guðanna“. Súkkulaði hefur verið til í þúsundir ára, en áður fyrr var þess einkum neytt í fljótandi formi súkkulaðidrykkjar. Það var ekki fyrr en um miðja nítjándu öld, þegar tókst að vinna kakósmjör úr kakóbaunum, að farið var að framleiða súkkulaði á föstu formi, eins og við þekkjum það í dag. Kakósmjör er eitt mikilvægasta innihaldsefni súkkulaðis, auk malaðra kakóbauna, sykurs og bragðefna, en í ljóst súkkulaði er einnig notað mjólkurduft, og er slíkt súkkulaði nefnt mjólkursúkkulaði eða rjómasúkkulaði.
Fyrstu áhrif súkkulaðineyslu eru þau að meltingarfærin brjóta efnasambönd í súkkulaðinu niður í frásoganlegar einingar sem eru síðan frásogaðar í frumum smáþarma til flutnings í blóðrás. Þetta má kalla hefðbundin áhrif fæðuneyslu á líkamann, hann byrjar alltaf að melta fæðuna og frásoga úr henni næringarefni og önnur efni.
Súkkulaði er mjög orkuríkt og yfir 30% af innihaldi þess er fita. Rúmlega helmingur af fitunni í súkkulaði er mettuð, en rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl neyslu mettaðrar fitu við hjarta- og æðasjúkdóma og þess vegna má álykta að óhófleg súkkulaðineysla sé varasöm. Meðal eiginleika fitunnar í súkkulaði (sem kemur að miklu leyti frá kakósmjöri) er að bræðslumark hennar liggur rétt undir venjulegum líkamshita. Súkkulaði helst þess vegna á föstu formi við stofuhita, en bráðnar í munni. Þessum eiginleika hefur verið eignað að töluverðu leyti hin gómsætu og aðlaðandi áhrif súkkulaðis, ásamt sætu bragði frá sykri, sem er 40-50% af innihaldi súkkulaðis. Þetta mikla sykurinnihald á sinn þátt í hve orkuþétt súkkulaði er, á kostnað næringarþéttleika, auk þess að eiga þátt í myndun tannskemmda.
Þrátt fyrir þetta inniheldur súkkulaði ýmis vítamín og steinefni. Dökkt súkkulaði er ágætis uppspretta járns, magnesíums og kopars og inniheldur einnig eitthvað af B-vítamínum. Í ljóst súkkulaði bætast svo þau næringarefni sem mjólk er rík af, svo sem kalk og meira af B-vítamínum, en það rýrist hins vegar af járni, þar sem mjólk er lélegur járngjafi.
Auk þekktra næringarefna inniheldur súkkulaði hátt í 300 önnur efnasambönd, sem eiga flest uppruna sinn í kakóbauninni og hafa margs konar virkni og áhrif, sem eru einungis að litlu leyti þekkt í dag. Meðal þessara efna má nefna koffín og þeóbrómín (e. theobromine), sem tilheyra bæði flokki metýlxanþína (e. methylxanthines). Koffín er vel þekkt örvandi efni, meðal annars úr kaffi, sem örvar taugakerfið og dregur úr áhrifum þreytu, en magn þess í súkkulaði getur verið umtalsvert. Þetta á þó sérstaklega við um dökkt súkkulaði, en koffínið á rætur að rekja til kakóplöntunnar. Þeóbrómín er skylt koffíni og hefur einnig áhrif til örvunar, en það örvar vöðva og víkkun æða. Sagan segir að Astekar til forna hafi notað þetta efni sem nokkurs konar náttúrulega útgáfu af stinningarlyfinu Viagra.
Súkkulaði inniheldur fleiri efni sem hafa áhrif á líkamann, eins og „ástarlyfið“ tryptófan, en það er amínósýra sem er notuð í framleiðslu á taugaboðefninu serótónín, en í háum styrk getur það kallað fram gleðitilfinningu og jafnvel ofsagleði. Annað efni í súkkulaði, fenýletýlamín, getur örvað gleðistöðvar í heilanum og aukið tilfinningar á borð við aðlöðun og kynferðislega spennu. Það ber þó að hafa í huga að mörg önnur matvæli innihalda þessi efni og þau eru aðeins í litlu magni í súkkulaði. Vísindamenn telja því ólíklegt að súkkulaðineysla framkalli þessi áhrif sem nefnd eru hér að ofan.
Meðal annarra athyglisverðra efna í súkkulaði er anandamíð, en það er taugaboðefni sem hefur áhrif á sömu heilastöðvar og virka efnið í kannabisplöntunni. Þetta efni er einnig í litlum styrk í súkkulaði og neysla þess þyrfti að vera nokkur kílógrömm á dag til að hafa áhrif á eðlilegan styrk anandamíðs í heila. Á móti kemur að súkkulaði inniheldur tvö önnur efnasambönd sem virðast hægja á niðurbroti anandamíðs, og þessi efni gætu hugsanlega framlengt áhrif anandamíðs í heilanum.
Það sem hins vegar hefur vakið mesta umræðu um súkkulaði og mögulega hollustu þess erufjölfenólar. Þetta er fjölbreyttur hópur efna, sem er víða til staðar í jurtaríkinu og fæst því fyrst og fremst úr ávöxtum og grænmeti, en einnig úr öðrum afurðum, eins og til dæmis rauðvíni og einmitt kakóbaunum. Heilsusamlega eiginleika fenólsambanda má meðal annars rekja til andoxunareiginleika þeirra, og þannig geta þau meðal annars haft hjartaverndandi áhrif, öfugt við mettuðu fituna í súkkulaði. Töluvert magn fenólsambanda er að finna í súkkulaði, meira í dekkra súkkulaði þar sem kakómassinn er meiri og mest er í ósætu kakói. Reyndar er það svo að dökkt súkkulaði inniheldur meira af fenólu m en rauðvín og þannig mætti færa rök fyrir því að ráðleggja fólki að borða dálítið dökkt súkkulaði rétt eins og sumir ráðleggja hóflega rauðvínsdrykkju.
Eins og sjá má að upptalningunni hér að ofan, er í súkkulaði að finna fjöldann allan af efnasamböndum sem geta haft margvísleg áhrif á líkamann, allt frá hinum hjartavænu fenólum til „ástarlyfsins” tryptófans og „stinningarlyfsins” þeóbrómíns. Hins vegar má ekki gleyma að súkkulaði er mjög orkuríkt og inniheldur mikið af mettaðri fitu. Í 100 grömmum (sem jafngildir einni súkkulaðiplötu) eru yfir 500 hitaeiningar (kcal), sem samsvarar rúmlega ¼ af daglegri orkuneyslu kvenna í síðustu landskönnun. Jákvætt orkujafnvægi, það er þegar orkuneysla er umfram orkuþörf, getur til lengri tíma litið leitt til þyngdaraukningar og offitu.
Því er mikilvægt að neyta orku- og fituríkra matvæla á borð við súkkulaði í hófi, en þó er engin ástæða til að neita sér alveg um þessa gómsætu „fæðu guðanna”.
Grein fengin af Doktor.is