Hver er tilgangur lífs þíns - hugleiðing Guðna á mánudegi
Líf þitt er aldrei tilgangslaust
– Hver er tilgangur lífs þíns?
– Ég veit það ekki.
– Það er frábært! Nú höfum við skilgreint núverandi tilgang þinn!
– Hvað áttu við?
– Núverandi tilgangur þinn er skortur og fjarvera. Þegar þú veist ekki hver þinn tilgangur er þá er óviljandi tilgangur þinn skortur. Löngun. Von. Væl. Sjálfsvorkunn.
– Nú?
– Já. Og nú hefurðu tvo möguleika – að halda áfram með þann tilgang eða velja að skapa þér nýjan tilgang. Með ásetningi, með vali, með valdinu sem þú hefur.
Það er stórkostleg stund í lífi hvers manns þegar hann uppgötvar frjálsan vilja. Það er stundin sem hann tekur ábyrgð á lífi sínu og fyrirgefur sér. Það er á þeirri stundu sem hann verður skapari og stjórnast ekki lengur af venjum og ósjálfráðum viðbrögðum. Það er sú stund þegar hann gefur sér heimild til að ákveða sinn eigin tilgang.