Hver hugar að þinni heilsu kallinn minn og kona góð?
Streita og seigla.
Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir. Hún hefur megnið af sinni starfsævi verið að sinna þeim sem veikst hafa eða slasast en síðastliðin ár í auknum mæli beint kröftum sínum að heilsueflingu og streituforvörnum.
Streita hefur mikil áhrif á líf okkar, bæði jákvæð og neikvæð. Margvísleg heilsufarsvandamál, bæði andleg og líkamleg, eru vel þekktar afleiðingar langvarandi streitu og álags og rannsóknir sýna að 40-60% fjarvista í fyrirtækjum megi rekja til streitu og afleiðinga hennar. Hins vegar er margt sem við getum sjálf gert til að takast betur á við áskoranir lífsins og þar með þolað álagið betur og náð jafnvægi í lífsstíl. Við viljum stjórna streitunni en ekki leyfa henni að stjórna okkur og það hefur sýnt sig að því betur sem við skiljum streituna því betur þolum við hana
Fyrirlestur Kristínar er einstaklega hagnýtur - hún útskýrir streituna á mannamáli, fræðir okkur um hvað við sjálf getum gert til að auka streituþol og nýta streituna okkur til gagns en ekki ógagns.
„Lífið býður stöðugt upp á nýjar áskoranir og það er mikilvægt fyrir okkur sem manneskjur að geta tekist á við þær. Við þurfum að nýta streituna til þess á jákvæðan hátt en ekki að leyfa henni að buga okkur.“
Að ala sig upp aftur!
Í fyrirlestrinum fjallar Gyða Dröfn Tryggvadóttir um hvernig óheilbrigð fjölskyldumynstur í uppvextinum hefta þroska einstaklingsins og þróast yfir í meðvirkni. Á fullorðinsárum glímir meðvirkur einstaklingur við erfiðleika í samskiptum og samböndum vegna erfiðleika við að m.a. upplifa sjálfsvirði sitt og setja skýr mörk. Mynstrin sem verða til í æsku liggja djúpt og eru oft svo gróin að erfitt er að koma auga á þau og breyta þeim. Batinn felst í að líta til baka, sjá hvar ræturnar liggja og með mýkt og mildi taka í sínar hendur uppeldið á hinu særða innra barni, hlúa að því og næra á viðeigandi hátt eða eins og titillinn segir “Að ala sig upp aftur.”
Gyða Dröfn Tryggvadóttir er með meistaragráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu (EMPH) frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur lokið námi í meðvirknifræðum Piu Mellody, sem skoða áhrif fjölskyldunnar á uppvöxt okkar og þroskaferil. Gyða Dröfn hefur iðkað Zen hugleiðslu síðastliðin 20 ár undir handleiðslu Zen meistarans Jakusho Kwong Roshi og hlotið vígslu frá honum sem Zen nunna.
Guðmundur F. Jóhannsson, læknir
Í fyrirlestri sínum mun Guðmundur fara yfir persónulega reynslu sína af því að takast á við streitu og kulnun í starfi sínu sem læknir. Hann mun líta til baka yfir ferilinn og ræða hvernig hann hefur tekist á við álagið sem fylgir læknisstarfinu á mismunandi stigum þess. Þá mun Guðmundur skoða hvernig tilfelli hans rímar við þá þekkingu sem við höfum af kulnun í dag og leitast við að draga fram lærdóm fyrir einstaklinga og atvinnurekendur sem gæti nýst þeim sem víti til varnaðar og gefið hugmyndir að því sem betur mætti fara.
Sigrún Ása Þórðardóttir, sálfræðingur og fagstjóri í Heilsuborg.
Streitutengd vanheilsa er vaxandi vandamál í nútímasamfélagi. Rannsóknir í lýðheilsuvísindum hafa sýnt fram á töluverða kostnaðaraukningu í veikindafjarveru vegna sálfélagslegra álagsþátta og vísbendingar eru um að rekja megi 50-60% veikindafjarvista í Evrópu til streitu með einum eða öðrum hætti. Hér á landi er streita og kulnun en helsta ástæða heilsubrests og brottfalls á vinnustöðum landsins. Þegar einstaklingur upplifir streituálag hvort sem álagið á rætur að rekja til vinnuaðstæðna eða einkalífs án möguleika á endurheimt eða hvíld er hætta á að kulnun eða örmögnunarástandi. Slíkt ástand hefur mjög hamlandi áhrif á líf og líðan og bataferli getur tekið langan tíma. Í erindinu verður fjallað um birtingarmynd streitu og kulnunnar/örmögnunarástands. Rætt verður um mismunandi stig streitu og áherslur í meðferð eftir alvarleika einkenna.
Sigrún Ása hefur unnið með streitutengda vanheilsu um árabil. Hún hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða um streitu og kulnun auk þess að sinna streitumeðferð.
Lilja Kjalarsdóttir heldur fyrirlestur um líkamsrækt og áhrif hennar á heilsu okkar. Lilja er aðstoðarframkvæmdastjóri SagaNatura og er með B.S. í lífefnafræði og PhD í Biomedicine.
Lilja hefur einbeitt sér að áhrifum líkamsræktar og fæðubótarefna á lífsstílstengda sjúkdóma á sínum vísindaferli. Líkamsrækt hefur margvísleg áhrif á heilsu okkar. "If you don’t use it, you loose it" á svo sannarlega við áhrif hennar á líkamlegt ástand. En hvað gerir líkamsrækt nákvæmlega, hversu langt ná áhrifin og hvað þarf að hreyfa sig mikið?
Við þekkjum vel áhrif líkamsræktar á vöðva en líkamsrækt hefur líka áhrif, beint og óbeint, á stoðkerfi, bandvef og líffæri líkamans. Áhrif líkamsræktar er það öflug að hún ætti að vera grunnþáttur í meðferð við mörgum af algengustu sjúkdómum sem hrjá mannkynið í dag. Lilja ætlar að fjalla um hvernig líkamsrækt hægir á hrörnun líkamans, fyrirbyggir sjúkdóma og hefur áhrif á andlega heilsu okkar.
Frekari upplýsingar má finna HÉR.