Hvernig er best að koma fram við maka sem er með þunglyndi og kvíða ?
Geðröskun hrjáir næstum einn af hverjum fimm einstaklingum og samt vantar enn þann dag í dag ansi mikið upp á að talað sé um hvaða áhrif þetta hefur á maka þeirra sem eru með einhverskonar geðröskun.
Þegar talað er um geðröskun hér þá er verið að meina þunglyndi, kvíða og ofsakvíða.
Það eru til mörg tilbrigði af geðröskunum en þunglyndi og kvíði eru þær algengustu og þær sem oftast eru greindar.
Þessir sjúkdómar geta gert það að verkum að það er mjög erfitt fyrir fólk að tengjast öðrum tilfinningalega. Og ef fólk er í sambandi þá geta þessir sjúkdómar haft gríðalegt álag á þau sambönd.
Mjög algeng einkenni eru að draga sig út úr öllum félagslegum samskiptum, þér finnst þú vera einskis virði og áhugaleysið er algjört. Þegar svona er komið þá lenda í flestum tilfellum hjónabönd og sambönd í miklum vandræðum. En það er einmitt það samband sem þú þarfnast sem mest og skiptir þig mestu máli.
Svo hvað er til ráða?
Hjón, pör, sambýlisfólk, ef annað ykkar eða bæði eruð að berjast við þunglyndi og/eða kvíða þá geta þessi ráð kannski hjálpað.
1. Ekki láta eins og allt sé í lagi.
Margir makar sem búa með þunglyndum einstakling eiga það til að hlífa þeirri manneskju fyrir erfiðum tilfinningum og ágreiningi.
Og til þess að forðast alveg eða minnka ágreining þá er afar algengt að hjón og sambýlisfólk feli gremjuna sem þeirra þunglyndi eða kvíði eða bæði er að hrjá. Jafnvel aukaverkanir af nýjum lyfjum sem viðkomandi gæti hafa verið að byrja á. Allt er þaggað niður.
Í stað þess að láta sem allt sé í lagi þá er betra að takast á við þessa gremju sem í þér býr, því þú býrð með manneskju sem er að berjast við geðsjúkdóm og getur í raun ekkert gert að því hvernig henni/honum líður.
Það er hægt að byrja á ýmsa máta, t.d segja “ég veit að þegar þú ert að eiga við þunglyndið/kvíðann, þá er erfitt fyrir þig að eyða tíma með mér, en ég verð líka einmanna. Getum við talað um hvernig við getum tengst betur jafnvel þó svo þunglyndið sé afar slæmt ?”
Með því að opna á hreinskilin samskipti þá eru þið að viðhalda ykkar nánd og trausti og einnig að búa til grunn að stuðningi frá báðum aðilum.
Það verður að passa sig á að vera hreinskilin þegar kemur að tilfinningum og aldrei dæma aðilann í sambandinu sem er að segja þér í hreinskilni frá sinni líðan.
Besta leiðin til að gera þetta er að tala um þunglyndið og kvíðann sem ykkar frekar en að tala um hann sem “þitt þunglyndi” eða “þína skapbresti” eða “þinn kvíða”.
2. Fræddu sjálfa/n þig um sjúkdóminn
Hvort sem það er bara annar aðilinn í sambandinu eða báðir sem þjást af einhverskonar geðröskun, þá er mjög mikilvægt að báðir aðilar læri að þekkja einkennin, sjúkdóminn og meðferðir við honum.
Það er margt í boði þegar kemur að meðferð við geðröskunum eins og þunglyndi og kvíða. Með því að þekkja sjúkdóminn ertu betur í stakk búin/n til að átta þig á því hvað myndi henta þér best.
Annað sem allir verða að átta sig á, er að enginn er eins. Maki þinn getur t.d verið með allt öðruvísi þunglyndi en þú sem dæmi. Hvað kemur þunglyndinu af stað? Tengist það árstíðunum? Er það svefnleysi? Hvað getur þú eða þið gert til að breyta ykkar lífsstíl til að reyna að koma í veg fyrir þessi köst.
Besta leiðin er að tala saman, spyrja hvort annað spurninga og læra á hvort annað. Sem hjón eða sambýlisfólk þá þurfið þið að deila því sem þið takið eftir í fari hins og nýta þessa þekkingu á hvort annað til að vinna gegn þunglyndinu og/eða kvíðanum.
3. Hugsaðu vel um sjálfa/n þig
Ein ástæða fyrir því að geðraskanir geta verið mikið álag á sambönd er sú að í þunglyndi og kvíða þá langar þig bara að vera ein/n í friði. Nándin verður engin. Þegar verið er að berjast við þunglyndi, kvíða eða jafnvel maníu þá verður fólk yfirleitt mjög dofið, lokar sig af og sumir geta orðið mjög reiðir og skapillir.
Þessi einkenni eru fljót að mynda neikvæðan vítahring í sambandinu þar sem mikið er um árekstra og afar lítið um ástríkan stuðning.
Ef þú setur í forgang að hugsa um sjálfa/n þig, þá ertu einnig að setja þitt samband í forgang. Með því að passa vel upp á þig sjálfa/n þá eru betri líkur á að þú dettir ekki niður í svartholið, neikvæðnina, kvíðann og lokir þig inni.
Fyrsta skrefið í að hugsa vel um sjálfa/n sig er að leita sér aðstoðar hjá lækni. Fara og finna bestu meðferðina fyrir þig. Þú þarft að taka tíma og einbeita þér að sjálfri/um þér og læra að þekkja merki líkamans þegar kemur að stressi, svefn, og mataræði. Þetta þrennt skiptir afar miklu máli þegar kemur að því að yfirstíga þunglyndi og kvíða.
Allt þetta hér að ofan á auðvitað einnig við um makann, sambýliskonu/mann. Að styðja við aðilann í sambandinu sem er að berjast við geðröskun þýðir að þó svo hinn aðilinn í sambandinu sé ekki veikur þá þarf hann/hún að hugsa um sjálfa/n sig líka. Best er, ef báðir aðilar hafa sömu rútínu. Svefninn, hreyfing og mataræðið.
Oft getur fríska aðilanum í sambandinu fundist þetta vera eins og að fylla botnlausa fötu af vatni dag eftir dag. Fríski aðilinn gefur og gefur en það virðist aldrei vera nóg. Ást og umhyggja skipta miklu máli þegar verið er að hugsa um einhvern með geðröskun en það er ekki nóg samt.
Sem fríski aðilinn í sambandinu þá verður þú að muna að þú ein/n getur ekki “læknað” þunglyndið. Einnig þarf fríski aðilinn að passa upp á að tæma sig ekki alveg því þá er ekkert eftir til að gefa.
Með því að takast á við geðröskunina saman, hugsa vel um ykkur sjálf, þá er auðveldara að horfast í augun á sjúkdómnum og þá sérstaklega fyrir aðilann sem er veikur því hann/hún veit að það er fullur stuðningur frá maka/sambýlismanni/konu.
Heimild: mindbodygreen.com