Hvernig er sjálfsmyndin?
Sjálfsmynd okkar skiptir lykilmáli þegar kemur að góðri líðan og eðlilegum samskiptum við aðra.
Ef sjálfsmyndin er löskuð er hætt við að við berum okkur saman við aðra og notum í raun sjálfsmynd annarra til að finna út hvar við stöndum gagnvart þeim. Þá er mjög algengt að við setjum okkur annað hvort skör neðar en aðrir og finnum til smæðar eða teljum okkur stærri eða meiri og finnumst við vera æðri öðrum. Þetta skapar erfiðleika í samskiptum á jafningjagrundvelli og hætta eykst á vandræðum, misskilningi og rifrildi við annað fólk.
Mörg okkar finna fyrir minnimáttarkennd eða öfund í annarra garð. Okkur finnst við vanmáttug og lítil. Þetta er vægast sagt óþægileg upplifun og getur framkallað reiði og sjálfsvorkunn. Við réttlætum hugsun okkar og reynum jafnvel að finna einhvern sem samþykkir líðan okkar. Við erum viðkvæm fyrir áliti annarra ef það snýst gegn okkur. Þá verðum við reið og sár og finnum oft fyrir höfnunarkennd. Við upplifum oft skömm en reynum af fremsta megni að afneita henni. Skömminni fylgja gjarnan leyndarmál en þau geta orsakað vanlíðan til lengri tíma sem getur leitt til þunglyndis og líkamlegra óþæginda eins og vöðvabólgu og streitu.
Í sumum tilfellum teljum við okkur öðrum æðri. Okkur finnst við á einhvern hátt sterkari eða flottari. Þá er hætt við að við gerumst hrokafull og upplifum jafnvel vellíðan og gleði. En vellíðan sem byggð er á þessum forsendum er jafnan skammvinn og við eigum það til að fara aftur niður í vanlíðan. Það er ekki gott að byggja eigin sjálfsmynd á öðrum.
Það er nauðsynlegt að treysta á heilbrigða sjálfsmynd sem byggir á eigin verðleikum, ekki annarra. Við höfum öll einhverja hæfileika, mismikla, en hæfileika sem við getum verið ánægð með og þakklát fyrir. Við getum reynt að byggja upp jákvætt hugarfar, lært að vera til staðar fyrir aðra, sýnt umburðarlyndi í stað dómhörku, virt þarfir okkar og langanir og leitast við að sinna þeim eftir efnum og aðstæðum.
Við getum ástundað þakklæti. Það er svo margt í lífinu sem við getum verið þakklát fyrir þrátt fyrir erfiðleika.
Heilbrigð sjálfsmynd minnkar depurð og kvíða. Hún framkallar bjartsýni og styrk. Okkur líður vel í eigin skinni. Það er líðan sem er eftirsóknarverð.
Páll Þór Jónsson