Hvernig virkar hjartað?
Hér er að finna afar flotta grein frá hjartalif.is
Hjartað í okkur hefur því hlutverki að gegna að viðhalda hringrás blóðsins og þar með flutningi súrefnis og næringarefna um líkamann. Í fullorðnum manni vegur hjartað 200 til 300 grömm og stærð þess er á við krepptan hnefa . Á hverri einustu mínútu dælir hjartað um 5 lítrum af blóði um líkama okkar. Það er því óhætt að fullyrða að hjartað í okkur mannfólkinu sé ótrúleg undrasmíð.
Í hugum okkar flestra er hjartað tengt tilfinningum og margt af því sem okkur er kærast kemur við hjartað eins og sagt er enda hjartað verið yrkisefni manna og kvenna í gengum aldirnar.
Það er jú full ástæða til að mæra hið merkilega líffæri sem hjartað er því hjartað er það líffæri sem fyrst gerir vart við þegar nýtt líf kviknar í móðurkviði og það er vel við hæfi að hjartað sé eitt það síðasta sem stoppar þegar við yfirgefum þessa veröld.
Bygging og hlutverk hjartans
Hjartað liggur ofan við þindina þar sem það hvílir í skjóli á bak við bringubeinið og nýtur verndar þess og rifbeinanna. Utan um hjartað og upptök stóru slagæðanna er poki sem er nefndur gollurhús. Gollurhús er tvöfaldur poki og er hulinn himnu, innra lag hans nefnist iðraþynna og ytra lag hans veggþynna. Iðraþynnan klæðir hjartað sjálft en veggþynnan myndar sterkan sekk sem festir hjartað milli lungna. Á milli þessara tveggja þynna er gollurhúshol en í því er vökvaþynna sem dregur úr viðnámi þegar hjartað slær og slakar.
Hjartað er í rauninni tvískipt fjögurra hólfa dæla sem skiptist í hægri og vinstri helminga. Tvö efri hólfin, svokallaðar gáttir eða forhólf, taka við blóðinu úr líkamanum. Hægri hlutinn tekur við súrefnissnauðu blóði frá öllum vefjum líkamans og sá vinstri tekur við súrefnisríku blóði frá lungunum. Blóðið rennur úr gáttunum um hjartalokurnar niður í neðri hjartahólfin sem heita sleglar eða hvolf. Hjartalokurnar eru fjórar en fyrst ber að nefna þríblaðaloku hægra megin og míturloku vinstramegin en þær aðskilja gáttir og slegla. Lungnaæðaloka er staðsett við upptök lungnaslagæðarinnar þar sem hægri slegillinn dælir súrefnissnauðu bláæðablóði frá líkamanum til lungnanna um lungnaslagæðina þar sem það mettast af súrefni. Ósæðarloka er síðan staðsett við upptök ósæðar þar sem vinstri slegill dælir súrefnisríku blóði til allra vefja líkamans um ósæðina sem er meginslagæð líkamans.
Veggir hjartans eru vöðvaríkir og býr vöðvavefur hjartans yfir sjálfvirkni. Það þýðir að hann dregst saman með vissu millibili án þess að þurfa að fá taugaboð. Þetta sést á því að sé hjarta rifið úr dýri heldur það áfram að slá, þótt engin tengsl séu við taugar lengur. Undir eðlilegum kringumstæðum, það er að segja í lifandi líkama, er hjartslættinum þó stjórnað með rafboðum sem eiga upptök í gangráði hjartans og fara þaðan um sérhæft leiðslukerfi. Hjarta í fullorðnum einstaklingi slær að meðaltali 70 – 90 sinnum á mínútu en hægir á sér við hvíld og bætir í við aukið álag.
Hjartavöðvavefurinn þarf á næringu að halda eins og allir aðrir vefir líkamans, og ekki síst súrefni. Sérstakar æðar, svokallaðar kransæðar, kvíslast um hjartavöðvann og flytja honum súrefni og næringarefni. Heilbrigðar kransæðar flytja um 250 ml. af blóði á hverri mínútu. Stíflist kransæð getur hún ekki gegnt sínu hlutverki og flutt vöðvanum næringu og súrefni.
Til að klára þessa grein - Kíktu þá HÉR.
Heimild: hjartalif.is