Í tilefni af ráðstefnunni „Heilsan á vogarskálarnar“ sem fram fer mánudaginn 18. september á vegum Félags Fagfólks um offitu (FFO) tók Heilsutorg viðtal við Erlu Gerði Sveinsdóttur
Erla er formaður félagsins og heimilslæknir með sérmenntun í offitumeðferð.
Salnum í Kópavogi mánudaginn 18. sept. nk. frá kl. 10.00–17.00
Á ráðstefnunni, sem er fjölþætt og spannar mjög vítt svið, kennir ýmissa grasa: Hver er tilgangurinn með því að snerta á svo mörgum mismunandi þáttum í umræðunni um offitu? Er þetta svona flókið?
Já, þetta er ansi flókið. Það eru svo margir þættir sem hafa áhrif á þyngdarstjórnun líkamans. Margir halda enn að þetta snúist um að hreyfa sig meira og borða minna, þess vegna er mikilvægt að fá fram góða umræðu og fræðslu um málefnið. Fituvefurinn sjálfur er mjög virkur í efnaskiptum líkamans og hlutfall hans, virkni og dreifing í líkamanum skiptir máli. Þessi vefur getur farið að starfa á óeðlilegan hátt eins og aðrir vefir líkamans og offitan getur þannig orðið að sjúkdómi sem kemur fram í mörgum líffærakerfum. Svo til að gera þetta enn flóknara þá hefur streita, svefnleysi, andleg vanlíðan og áföll á lífsleiðini mikil áhrif á það hvernig líkaminn vinnur með þyngdarstjórnun. Þannig þarf að taka tillit til margra ólíkra þátta til að skilja hvað hver einstaklingur er að glíma við.
Er mögulegt að við getum dregið úr offitu með meiri hreyfingu? Nú finnst mörgum að miðað við þann fjölda sem á kort og stundar heilsuræktarstöðvarnar stíft, hleypur og hjólar, þá ætti ofþyngd og offita ekki að vera það vandamál sem það er í dag.
Hæfileg hreyfing er góð fyrir alla óháð holdafari og hún er góð bæði fyrir líkama og sál. Við erum fyrst og fremst að hreyfa okkur til að styrkja líkamann og gera hann heilbrigðari. Við erum ekki að hreyfa okkur til að brenna fitu eins og lengi hefur verið haldið fram. Á sama tíma og skipulögð hreyfing hefur aukist hefur kyrrseta einnig aukist. Það er nefnilega ekki nóg að hreyfa okkur í klukkustund á sólarhring og vera síðan kyrr í 23 tíma. Regluleg hreyfing er nauðsynleg til að líkaminn starfi eðlilega. Við þurfum að leggja áherslu á hreyfingu í daglegu lífi, taka stigana, standa meira í stað þess að sitja, fara ferða okkar gangandi, þó það séu ekki nema nokkrar mínútur í senn. Þetta skiptir allt máli. Svo er gott að taka röskan göngutúr eða einhverskonar hreyfngu sem krefst meiri áreynslu inn á milli.
Er hægt að vera í mikilli ofþyngd og vera samt við góða heilsu?
Já. Líkamsþyngdarstuðullinn sem oft er miðað við til að greina ofþyngd og offitu segir ekki til um heilsu eða hvernig líkaminn er samsettur. Þannig eru margir sem eru með hátt hlutfall vöðva of þungir miðað við þessi viðmið en líkamlega hraustir. Samsetning líkamans og efnaskiptaþættir vega hinsvegar miklu meira þegar kemur að því að meta heilsu. Þess vegna þarf að kafa dýpra og skoða miklu fleiri þætti til að segja til um tengsl holdafars og heilsu. Aukin þyngd ætti alltaf að gefa okkur tilefni til að fara í þá vinnu að skoða heilsuna nánar. Við megum ekki vera feimin við það. Stórar rannsóknir sýna að ævilengd einstaklinga sem eru of þungir um fertugt, jafnvel þó þeir séu á þeim tíma heilbrigðir er mun skemri en þeirra sem eru í kjörþyngd um fertugt. Því þyngri sem einstaklingar eru á þeim tíma því styttri æfi. Þetta sýna faraldsfræðilegar rannsóknir en slíkar rannsóknir sýna ekki fram á orsakasamband, eingöngu fylgni. Við höfum hinsvegar fjöldan allan af rannsóknum sem sýna fram á hvernig holdafar og heilsa spila saman þannig að við getum ekki annað en brugðist við og skoðað stöðuna hjá einstaklingum sem eru of þungir.
Nú fjallar eitt erindið um offitu án ofþyngdar, er það mögulegt og í stuttu máli, hvernig má greina slíkt ástand og komast út úr því?
Hér erum við aftur að tala um líkamsþyngdarstuðulinn og nú hvernig hann vanmetur stöðuna í hina áttina. Reyndar sýna rannsóknir að það eru mun fleiri vangreindir á þennan hátt. Þarna eru einstaklingar sem eru í kjörþyngd en samsetning líkamans er óhagstæð, það er of hátt hlutfall fituvefs og efnaskiptaójafnvægi er til staðar en það getur leitt til fylgisjúkdóma offitu svo sem sykursýki og hjartasjúkdóma. Það hefur ekki verið mikið talað um þennan hóp en kominn tími til að opna umræðuna. Dreifing fituvefs skiptir hér miklu máli en kviðfita er mun hættulegri heilsunni en fita sem staðsett er undir húð. Hér er hægt að fá aðstoð mittismálsins til að meta hvaða einstaklingar eru í aukinni heilsufarsáhættu. Síðan er hægt að fara í nánari skoðun á áhættuþáttum og leggja upp áætlun hvernig hægt er að bæta úr því. Í stuttu máli er það hinn gamli góði heilbrigði lífsstíll sem er lausnin, regluleg hreyfing, góð og fjölbreytt næring í samræmi við daglegt líf, endurnærandi svefn, jákvætt hugarfar og viðráðanleg streita.
Er eitthvað nýtt í því er snýr að þarmaflórunni og tengsl hennar við verri heilsu?
Þekkingin á hlutverki þarmaflórunnar er alltaf að aukast og það er mjög spennandi að fylgjast með þeim þætti. Svo virðist sem samsetning þarmaflórunnar skipti miklu máli þegar kemur að þyngdarstjórnun. Í stuttu máli má segja að það séu tveir hópar baktería að berjast um völdin. Það fer síðan eftir lifnaðarháttum okkar hvort þær bakteríur sem stuðla að fitusöfnun stjórna ferðinni eða ekki. Ef við borðum trefjalítinn, mikið unninn og fituríkan mat hafa þær bakteríur sem stuðla að þyngdaraukningu völdin. Hreyfingarleysi, streita og svefnleysi eflir þessa óvini okkar enn meira. Góðu bakeríurnar hrífast hinsvegar best af trefjum og þá helst úr grænmeti og lítið unnum mat. Það er því til mikils að vinna að stunda heilbrigðan lífsstíl. Þannig virkjum við milljónir af góðum vinum til að vinna með okkur að góðri heilsu og auðvelda okkur þyngdarstjónunina.
Hver er megin markmiðið með ráðstefnunni og væntir félagið einhverrar niðurstöðu að henni lokinni, eitthvað sem hægt er að fara með til ráðamanna til að skerpa áhersluna um að meiri aðgerða sé þörf?
Þessi ráðstefna er hugsuð fyrst og fremst til að opna umræðuna, auka skilning almennings, fagfólks og ráðamanna. Við sem hittum marga einstaklinga sem glíma við offitu heyrum af því hvernig þeir mæta fordómum bæði úti í samfélaginu en líka innan heilbrigðiskerfisins sem er mjög alvarlegt mál. Margir upplifa skömm og sjálfsásökun sem gerir illt verra og á ekki rétt á sér. Þennan vítahring verðum við að rjúfa með góðri faglegri umræðu og forðast öfgar í allar áttir. Umæða um holdafar og útlit er síðan af allt öðrum toga. Við erum ólík og það eru ólíkar leiðir sem henta okkur til að halda góðri heilsu. Holdafar og heilsa tengjast en á mjög flókin hátt og við verðum að fara að nálgast umræðuna skynsamlega. Virðing fyrir sjálfum okkur og öðrum kemur okkur langt. Opin umræða um offitu og mögulegar afleiðingar, góð greining á heilsufari, vandaðar ráðlegginar fagfólks og sátt hvers einstaklings við líkama sinn skipta máli svo við getum unnið vel til að vernda heilsu okkar og auka lífsgæði. Fyrsta skrefið gæti verið að fjölmenna á þessa ráðstefnu og taka þátt í umræðunni.