Te úr íslenskum jurtum
Þegar við ferðumst um landið eða förum í sumarbústað, dásömum við oft fegurð blómanna og kjarrgróðursins sem við sjáum í nálægðinni. En höfum við hugleitt hve mikil orka og kraftur býr í þessum jurtum?
Frá ómuna tíð hefur jurtatínsla verið iðkuð og jurtirnar nýttar á ýmsan máta vegna eiginleika þeirra. Um þetta er víða skrifað í fornum ritum. Talið er að maðurinn hafi smátt og smátt lært að nota jurtirnar. Með tímanum og ótal tilraunum hafi þekkingin aukist og maðurinn orðið meðvitaður um sérstaka, náttúrulega eiginleika hverrar plöntu. Sumar þóttu góðar til átu, aðrar til að búa til drykki og svo til lækninga. Elstu heimildir um grasalækningar eru frá Kína og eru um 5000 ára gamlar. Hér á landi höfum við nýtt jurtir allt frá landnámi. Um það vitna margar gamlar sagnir. Ég ætla að fjalla hér um örfáar tegundir sem eru góðar til að búa til te til drykkjar og eru taldar hafa lækningamátt.
Jurtatínsla
Besti tíminn til jurtatínslu er fyrri part dags og í þurrki (ekki má vera dögg á grasi.) Nota skal klippur eða skæri við tínslu en ekki slíta jurtirnar eða taka þær upp með rótum, nema ætlunin sé að nýta rótina sjálfa. Ekki er æskilegt að safna jurtum við vegbrún eða þar sem mikið ryk getur þyrlast yfir og ekki nálægt mengunarvaldandi mannvirkjum.Veljið eins hreina staði og unnt er. Jurtirnar eru taldar hafa mesta kraftinn á ákveðnu vaxtarstigi. Sumar eru taldar kraftmestar nýsprottnar en aðrar þegar blómin eru sprungin út. Blómgunartími hefst á mjög misjöfnum tíma og æskilegt tínslutímabil getur því staðið lengi yfir.
Þurrkun
Þegar tínslu er lokið þarf að hreinsa jurtirnar vel, fjarlægja dauð blöð og allt rusl sem kann að hafa slæðst með. Næst er að setja jurtirnar í þurrkun. Það má gera með því að setja þær á gisinn dúk, gjarnan nálægt ofni eða þar sem hlýtt er, en ekki þannig að sól skíni á þær. Gætið þess að dreifa vel úr þeim svo ekki verði of þykkt lag. Það má einnig binda jurtirnar í knippi og hengja upp til þurrkunar. Ein aðferðin er að þurrka þær í bakarofni við vægan hita. Nokkrar jurtir eins og baldursbrá og vallhumal er best að þurrka í ofni. Það tekur nokkra daga að þurrka jurtirnar. Getur tekið rúma viku.
Eftir þurrkun eiga jurtirnar að molna auðveldlega á milli fingra manns. Þá er að koma þeim í krukkur eða bréfpoka (alls ekki plastpoka), merkja vel hvaða tegund er í krukkunni eða pokanum og hvenær hún var tínd, dagsetningu og ár. Þegar farið er að safna jurtum er nauðsynlegt að hafa með sér góða bók til leiðbeiningar. Ég get mælt með nokkrum góðum bókum t.d. “Plöntuhandbókin” höf. Hörður Kristinsson, “Íslenskar lækningajurtir” höf.Arnbjörg L. Jóhannsdóttir, “Íslensk ferðaflóra” höf. Áskell Löve, “Íslenskar lækningajurtir” höf. Anna Rós Róbertsdóttir. Einnig má nota nýjustu tæknina sem er plöntugreiningalykill fyrir farsíma og spjaldtölvur.
Nokkrar algengar jurtir:
- Ilmbjörk (Birki) - best er að safna ungu laufblöðunum á vorin. Jurtin er bólgueyðandi, örvar lifrina, er þvaglosandi og hreinsar blóðið.
- Blóðberg - það má nota alla jurtina nema ræturnar, best á vorin en hægt að taka það allt sumarið. Þessi planta hefur sýkladrepandi áhrif, losar um slím í öndunarfærum, eyðir vindverkjum, linar krampa, styrkir hjartað og er góð við hiksta, kvefi, hósta og flogaveiki.
- Gulmaðra - hana má nota alla nýblómstraða (ekki þó rótina) og best að tína hana miðsumars. Hana er best að nota í teblöndur með öðrum jurtum en hún er blóðhreinsandi og gott að nota hana eftir notkun sterkra lyfja, neyslu áfengis eða óhóflega kaffineyslu. Þá er hún einnig talin gagnast vel við flogaveiki.
- Fjallagrös - öll jurtin er nýtt og tekin fyrri hluta sumars, helst í rekju. Hefur áhrif á magann og meltinguna, góð gegn kvefi og hósta.
- Vallhumall - það sem nýtt er af jurtinni eru blöð og blóm. Vallhumallinn er ein öflugasta lækningajurtin sem við eigum, er barkandi, æðavíkkandi, lækkar blóðþrýsting, krampastillandi, róandi, kemur reglu á tíðir, dregur úr sinadrætti, þvagteppu, lystarleysi og hósta.
- Maríustakkur - fyrrihluta sumars eru blöð hans nýtt og þá aðallega fyrir konur því hann stillir tíðaverki og of miklar blæðingar.
- Mjaðjurt - af henni eru notuð blöð og blóm fyrri hluta sumars. Hún er kölluð vinur magans því hún er góð við niðurgangi og til að slá á hita.
- Túnfífill- rót og blöð tekin fyrir blómgun. Blöðin virka á lifrina, eru þvaglosandi og innihalda mikið af kalíum og örva hægðir.
- Það sem notað er í te er ofanjarðar hluti jurtarinnar, blöð, blóm og stöngull.
Tebruggið
Þegar soðið er te er hæfilegt að nota 5-6 tsk.af þurrkuðum jurtum í 1 líter af sjóðandi vatni sem hellt er yfir jurtina eða jurtablönduna og látið standa í 20-30 mín. á heitri hellu en þó ekki látið sjóða. Eftir að jurtirnar hafa verið sigtaðar frá vatninu er gott að kreista þær vel til að ná öllum vökva úr þeim. Farið varlega í að gefa börnum jurtate fyrr en þið hafið lesið ykkur vel til um eiginleika jurtarinnar. Gott er að setja sýróp eða hunang út í teblönduna sem gerð er úr fíflum. Ef þið geymið teblöndu, setjið hana þá í ísskáp, en lagið samt ekki til margra daga í einu. Nýlagað er teið alltaf best. Gangi ykkur vel við tínslu og tebrugg.
Með grænni te-kveðju
Magnús Jónasson
Skrúðgarðyrkjufræðingur.
Fengið af vef gardheimar.is