Íslenskir psoriasissjúklingar fá frítt í Bláa lónið: „Lækningamátturinn er ein af grunnstoðunum í starfsemi okkar“
Sjúkratryggingar Íslands og Bláa Lónið hf. hafa gert með sér samning sem felur í sér að hér eftir mun Bláa lónið veita íslenskum psoriasissjúklingum meðferð þeim að kostnaðarlausu og án opinberrar greiðsluþátttöku. Heilbrigðisráðherra staðfesti samninginn í vikunni.
Bláa Lónið hefur frá árinu 1994 veitt meðferð við psoriasis. Meðferðin er viðurkennd af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum sem meðferðarvalkostur og hafa Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greitt meðferðina fyrir þá sem eru sjúkratryggðir hér á landi. Eigendur og stjórnendur Bláa Lónsins hafa nú tekið þá ákvörðun að kosta meðferðina alfarið án opinberrar greiðsluþátttöku eða innheimtu gjalds af sjúklingunum.
Í nýjum samningi Bláa Lónsins og Sjúkratrygginga er gert ráð fyrir a.m.k. 3000 meðferðarskiptum árlega og er það í samræmi við fyrri samninga. Af hálfu ríkisins hefur tilvísun frá lækni verið forsenda greiðsluþátttöku og verður sami háttur hafður á áfram, þ.e. að sjúklingar munu þurfa tilvísun frá lækni. Húðlæknar á höfuðborgarsvæðinu veita tilvísanir í meðferðina og heilsugæslulæknar á landsbyggðinni.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra fagnar framlagi Bláa Lónsins til íslenska heilbrigðiskerfisins. Samtals sparar þetta framlag ríkinu um 25 milljónir króna og hefur ráðherra ákveðið að nýta þá fjármuni til að styrkja aðra heilbrigðisþjónustu við psoriasis- og exemsjúklinga. Samráð verður haft við samtök þessara sjúklingahópa um það hvernig fjármununum verður best varið.
„Lækningamáttur Bláa Lónsins er ein af grunnstoðunum í starfsemi okkar segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins: „Við höfum fjárfest umtalsvert í að byggja upp góða aðstöðu fyrir psoriasis meðferðir og einnig höfum við fjárfest í mikilvægum rannsóknum. Í ljósi takmarkaðra fjármuna til heilbrigðisþjónustu viljum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar við uppbyggingu samfélags okkar og veita meðferðirnar íslensku heilbrigðiskerfi og sjúklingum að kostnaðarlausu.“