Fara í efni

Janúar að baki

Jæja, þá hefur janúar runnið sitt skeið, mánuðurinn sem margir nota meðal annars til þess að uppfylla áramótaheitið sitt um betri ástundun í heilsuræktinni eða hverskonar heilsueflingu á líkama og sál.
Janúar að baki

Jæja, þá hefur janúar runnið sitt skeið, mánuðurinn sem margir nota meðal annars til þess að uppfylla áramótaheitið sitt um betri ástundun í heilsuræktinni eða hverskonar heilsueflingu á líkama og sál.

Mörg fyrirtæki og stofnanir, sem og flestar  heilsuræktarstöðvar fara einnig af stað með hvers konar átaksverkefni og heilsueflingu, sem allt styður við þá sem vilja taka þátt.

Þó er mikilvægt að hafa í huga að það er æskilegra að hugsa dæmið út frá heilsueflingu til framtíðar en kúr eða átaksverkefni.

 

Febrúar framundan

Vonandi fara sem flestir inn í febrúar enn fullir eldmóði, vitandi og „finnandi“ hversu góð áhrif heilsusamlegur lífsstíll getur haft á allt frá toppi til táar.

 

Því miður eru ekki allir svo heppnir að geta byrjað nýtt ár með svo góðum fyrirheitum hvað þá að halda út fyrstu vikur nýs árs með breyttan lífsstíl að leiðarljósi. Ástæðurnar eru margar, en oft eru þær að markmiðin og væntingarnar eru sett of hátt í upphafi, svo hátt að erfitt er að halda sig við efnið. Stundum er líkamleg geta líka ekki til staðar þó svo að hugurinn sé sterkur. Þeir sem gefast upp eiga oft mjög erfitt með að koma sér af stað á ný en hluti af skýringunni getur verið svekkelsi yfir því að dæmið gekk ekki upp. Það er oft erfitt að játa „ósigur“ sinn sér í lagi fyrir sjálfum sér.

Endurskoðun á markmiðum

Þegar hér er komið við sögu þarf að endurskoða markmiðin eða viðmiðin um fjölda æfinga og ákefð og að það sé í takt við daglegt skipulag í núinu. Málið er nefnilega það að í um það bil annarri viku desembermánaðar þá erum við oft í allt öðru prógrami heldur en annan tíma ársins. Desember á það nefnilega til að vera sá mánuður ársins sem verkefni fá að bíða aðeins og eiga svo að fara efst á stefnuskránna í fyrstu viku nýs árs eða þegar janúar kemst á „full swing“.

 

Þetta léttir aðeins á okkur í desember álaginu og gerir okkur léttari og jákvæðari, sem stundum er ekki vanþörf á, í myrkrinu og stressinu yfir peningamálum, jólagjöfum, og jólaboðum. Við setjum okkur svo bara markmið fyrir janúar, febrúar og mars og jafnvel lengra fram í tímann í desember hugarástandinu með þennan léttleika yfir okkur og að okkur finnst með allan tíma í veröldinni fyrir framan okkur.

Hvernig er svo janúar ?

Þetta verður þó sjaldnast svona, vegna þess að janúar er bara sjaldnast svona. Janúar er ekki alveg eins og við höldum að hann verði og við höfum jafnvel gleymt því hvað við vorum lengi að koma okkur af stað fyrir ári síðan. Það er nefnilega enn dimmt í janúar, það er ófærð, það er kalt og það er hálka. Það eru veikindi út um allt, ef ekki á heimilinu, þá er það í vinnunni, á leikskólanum eða í skólanum. Allt hefur það áhrif á okkur og okkar plön. Það er líka oft mikið að gera hjá fjölskyldunni, íþróttaæfingar og tómstundastarf barnanna og unglinganna (sem við vorum sjálf svo duglega að skrá þau á í desember), jafnvel okkar eigin námskeið og heilsurækt. Það tekur sinn tíma að komast í rútínu og láta hlutina ganga eins og smurða hjá fjölskyldunni án þess að vera í fullri vinnu við það.

Hvað gerum við ?

Hvað gerum við í þessu? Jú, við gefum sjálfum okkur „breik“ það er það eina í stöðunni, við getum ekki keyrt áfram allan daginn og allar helgar á sama tempóinu.

 

Við þurfum að taka okkur tvo gíra niður, minnka áreitið og væntingarnar og hugsa vel um okkur sjálf allt frá næringu til hreyfingar og hvíldar. Það er það besta í stöðunni því það er sannarlega betra að gera minna, jafnvel lítið heldur en að gera ekki neitt!

Við tökum okkur sem sagt ekki „breik“ í orðsins fyllstu merkingu heldur tökum við markmiðin okkar niður og finnum milliveginn, milliveg sem þó mætir löngunum okkar án þesss þó að gefa okkur alveg 100% fullnægjandi „sátt“ með það sem við erum að gera. Sú sátt kemur síðar þegar við höfum tekið þetta aðlögunar skref í um tvær vikur, náð góðum tökum á því og fundið löngunina og getuna til að bæta aðeins við. Það er svo gott þegar „maður“ finnur endorfínið sitt aftur eftir góðar og gefandi æfingar, jafnvel í góðra vina hópi.

Að lækka kröfurnar þínar og fara af stað í rólegheitunum er besta febrúargjöfin sem þú gefur sjálfum þér ef þú hefur ekki náð að halda prógramið þitt út í janúar. Farðu af stað á ný eins og ekkert hafi í skorist og þú kemst fljótt á fullt skrið því formið er þarna, það þarf bara aðeins að gefa smá jákvæða örvum og horfa jákvætt fram á veginn.

Það að hvetja aðra og vera góð fyrirmynd er líka göfugt verkefni og gefur þér auka „boozt“ og hvatningu fyrir framhaldið. Nú getur daginn aðeins tekið að lengja og tíminn fram að páskum styttist jafnt og þétt og þá er svo stutt í vorið.

Höfundur greinar er Fríða Rún Þórðardóttir 
Næringarfræðingur og hlaupari