6 einkenni hjartaáfalls hjá konum
Konur upplifa hjartaáfall ekki alltaf eins og karlar. Konur fá ekki alltaf þessi sömu klassísku einkenni hjartaáfalls, eins og yfirgnæfandi brjóstverk sem leiðir einnig niður handlegginn. Þessi einkenni geta að sjálfsögðu átt við konur, en margar upplifa líka óljós og „hljóð“ einkenni sem gætu farið framhjá þeim.
Hér á eftir er lýsing á einkennum hjartaáfalls sem eru algeng hjá konum og fjallað var um á vefsíðu WebMD:
1. Brjóstverkur eða óþægindi. Brjóstverkur er algengasta einkenni hjartaáfalls, en sumar konur geta upplifað það öðruvísi en karlar. Það getur verið eins og verið sé að kreista eitthvað í bringunni eða eins og „fylling“ sé í bringunni og verkurinn getur verið alls staðar yfir bringuna, ekki bara á vinstri hliðinni. Þetta er yfirleitt „mjög óþægilegt“ á meðan á hjartaáfalli stendur segir hjartasérfræðingurinn Rita Redberg, MD, stjórnandi á Hjarta- og æðasviði kvenna við háskólann í Kaliforníu San Francisco. Hún segir að upplifunin sé eins og verið sé að þrengja að skrúfstykki í bringunni.
2. Verkur í handlegg/handleggjum, baki, hnakka eða kjálka. Þessi tegund af verk er algengari hjá konum heldur en körlum. Þetta getur verið ruglandi fyrir konur sem eiga von á brjóstverk eða verk í vinstri hendi, en ekki í bakinu eða kjálkanum. Verkurinn getur stigmagnast eða komið skyndilega, hann getur líka versnað og skánað til skiptist áður en hann verður mjög mikill. Ef þú ert sofandi, þá getur verkurinn vakið þig. Mikilvægt er að segja lækninum sínum frá „ótýpískum eða óútskýrðum“ einkennum sem koma fram í líkamspörtum fyrir ofan mitti, segir hjartasérfræðingurinn C. Noel Bairey Merz, MD, stjórnandi á Barbra Streisand Hjartastöð kvenna við Cedars-Sinai Læknastöðina í Los Angeles.
3. Magaverkur. Magaverkur getur gefið til kynna hjartaáfall en er oft ruglað við magaverk sökum brjóstsviða, flensu eða magasárs. Stundum upplifa konur mikinn þrýsting á kviðnum sem lýsir sér eins og fíll sitji á maganum á þeim, segir hjartasérfræðingurinn Nieca Goldberg, MD, stjórnandi við Joan H. Tisch stöðina fyrir heilsu kvenna við NYU Longone Medical stöðina í New York.
4. Mæði, flökurleiki og svimi. Ef þú átt í erfiðleikum með andardrátt og engin augljós ástæða virðist vera fyrir því, þá gæti verið um hjartaáfall að ræða, sérstaklega ef eitthvað af hinum einkennunum er einnig til staðar. „Þér getur liðið eins og þú hafir verið að hlaupa maraþon, en þú hreyfðir þig ekkert“ segir Goldberg.
5. Að svitna. Að finna snögglega fyrir köldum svita er algengt einkenni hjá konum sem eru að fá hjartaáfall. Þetta virkar eins og streitu tengdur sviti frekar en sviti eftir líkamsrækt eða eftir að hafa verið úti í hita. Bairey Merz segir að ef þú svitnar venjulega ekki svona og það virðist ekki vera nein ástæða fyrir því, eins og hiti eða slíkt, þá skalt þú láta athuga þetta.
6. Þreyta. Sumar konur sem fá hjartaáfall finna fyrir mikilli þreytu, jafnvel þó þær séu aðeins búnar að sitja kyrrar og hafi ekki verið mikið á hreyfingu. „Sjúklingar kvarta oft yfir þreytu í bringunni“ segir Goldberg. „Þeir segja að þeir geti ekki einu sinni gert einföldustu hluti, eins og að labba inn á baðherbergi“.
Það eru ekki allir sem fá öll þessi einkenni. Ef þú ert með brjóstverk, og sérstaklega ef þú ert einnig með eitt eða fleiri af þessum einkennum, þá er ráðlagt að hafa samband við lækni eða neyðarlínuna í 112 undir eins.
Ef þú finnur fyrir einkennum hjartaáfalls:
Ekki seinka því að fá aðstoð. „Konur bíða yfirleitt lengur en karlar með að fara á neyðarmóttökuna“ segir Rita F. Redberg, MD, MSc, FACC, stjórnandi á Hjarta- og æðaþjónustu kvenna á UCSF hjartadeildinni í San Fransisco. Jafnvel ef þú heldur að einkennin séu ekki svo slæm eða munu líða hjá, þá er áhættan of mikil til að taka hana.
Ekki keyra á spítalann. Þú þarf sjúkrabíl. Ef þú keyrir, þá gætir þú lent í umferðarslysi á leiðinni og skaðað sjálfan þig eða aðra.
Ekki láta vin eða ættingja keyra þig heldur. Það gæti verið að þú komist ekki nógu hratt upp á spítala.
Ekki hundsa það sem þú finnur fyrir. „Hafðu ekki áhyggjur af því að vera kjánaleg ef þú hefur rangt fyrir þér“ segir Goldberg. Þú verður að láta skoða þig strax. „Fólk vill ekki eyða mörgum klukkustundum á neyðarmóttökunni ef það er síðan ekki að fá hjartaáfall“ segir Bairey Merz. „En konur eru yfirleitt góðar í því að ákveða hvað er eðlilegt hjá þeim og hvenær er ráðlagt að leita til læknis“.
Þýtt og endursagt af WebMD.
Hanna María Guðbjartsdóttir.
Heimild: hjartalif.is