Kraftaverk, hjartaverk - hugleiðing á miðvikudegi
Þú þekkir söng hjartans
Þetta er kjarni málsins. Við höfum grun um hurð.
Kraftaverk kemur ekki alltaf með hvínandi leiftri. Oftast sígur það inn smátt og smátt, þannig að sá sem upplifir kraftaverk í lífi sínu vaknar upp einn daginn og er kominn nær sjálfum sér.
Í okkur öllum býr hurð og á bakvið hana er ljósið. Fyrst höfum við ekki hugmynd um hurðina. Svo fréttum við af henni, eða okkur fer að renna í grun að það hljóti að vera svona hurð til staðar. Svo fer að grilla í hurðina í gegnum þokuna og rykið og myrkrið. Við sjáum hana. Við veltum því fyrir okkur í dágóðan tíma hvort við trúum á hurðina og hvort eitthvað gott leynist þar á bak við. Hugsanlega teljum við okkur trú um að ef hurðin er til staðar sé hún ekki ætluð okkur, heldur hinum manneskjunum – einhverjum öðrum en okkur, einhverjum sem á það meira skilið, einhverjum sem er ekki svona hræðilega ófullkominn eins og við.
En það kemur að því að við sjáum hurðina skýrt og greinilega. Og það kemur að því að við trúum því að hún sé okkur ætluð.
Þá tökum við skref í áttina að henni – fikrum okkur áfram, eitt skref í einu. Sumir sem ná svona langt láta sér nægja að standa þétt upp við hurðina – þeir leggja jafnvel höndina á hurðarhúninn og finna að þetta er allt satt: Að þarna er hurð og henni er hægt að ljúka upp.
Aðrir ganga pínulítið lengra og opna rifu á dyrnar; finna fyrir ljósinu fyrir innan. Og gera jafnvel ekkert meir – standa bara í myrku her- berginu og leyfa örlitlu ljósi að varpast á sig.
En þeir sem vilja uppljómast; þeir sem eru lausir undan álögum skortdýrsins; þeir sem skilja að þeir hafa frjálsan vilja og geta valið eigin viðbrögð og örlög; þeir sem trúa á eigin mátt og eigið ljós svipta upp hurðinni í fullum mætti og baða sig í ljósinu.
Kraftaverk. Hjartaverk.