Fara í efni

Kransæðastífla, lambakjöt og smjör

Mikil umræða um mataræði hefur átt sér stað meðal lækna og annarra sérfræðinga undanfarið. Þá hefur áhugi almennings á heilbrigðum líffstíl verið áberandi og skilningur á þýðingu mataræðis fyrir heilsu og vellíðan fer vaxandi. Næringarfræðingar, læknar og annað fágfólk tjáir sig í auknum mæli í fjölmiðlum og miðlar þar með af þekkingu sinni um þetta mikilvæga málefni.
Lambakjöt
Lambakjöt

Mikil umræða um mataræði hefur átt sér stað meðal lækna og annarra sérfræðinga undanfarið. Þá hefur áhugi almennings á heilbrigðum líffstíl verið áberandi og skilningur á þýðingu mataræðis fyrir heilsu og vellíðan fer vaxandi. Næringarfræðingar, læknar og annað fágfólk tjáir sig í auknum mæli í fjölmiðlum og miðlar þar með af þekkingu sinni um þetta mikilvæga málefni. 

Nýlega birtist áhugaverð grein í Morgunblaðinu eftir Gunnar Sigurðsson lækni og Laufeyju Steingrímsdóttur næringarfræðing þar sem fjallað er um mataræði og kransæðasjúkdóma hér á landi. Gunnar og Laufey búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á þessu sviði og hafa þau bæði skilað ómetanlegu framlagi til manneldismála hér á landi síðsutu áratugi. 

Í greininni taka þau taka sérstaklega til umfjöllunar þá miklu lækkun sem hefur orðið á dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóma hér á landi síðustu þrjátíu ár.

Vísa þau til áhugaverðrar greinar Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar sem birtist í tímaritinu PLoS One í nóvember 2010. Þar kemur fram að dauðsföllum af völdum kransæðasjúkdóma hér á landi fækkaði um 80 prósent hjá einstaklingum undir 70 ára aldri á tímabilinu 1981-2006. Fækkun dauðsfalla má að miklu leyti rekja til breytinga á áhættuþáttum og ber þar hæst lækkun kólesteróls í blóði, minnkaðar reykingar og lægri blóðþrýsting. Samkvæmt rannsókninni dró þó aukin tíðni offitu og sykursýki nokkuð úr umfangi þessa árangurs. 

Ráðleggingar Manneldisráðs Íslands

Í grein sinni rifja þau Gunnar og Laufey upp viðbrögð Manneldisráðs Íslands við hárri dánartíðni vegna kransæðasjúkdóms hér á landi fyrir um 30 árum. Lagði ráðið áherslu á að minnka mettaða fitu í fæðunni og auka hlut grænmetis og ávaxta. Hvatt var til þess að velja fituminni mjólkurvörur í stað þeirra feitu og nota olíu í matargerð í staðinn fyrir hart smjörlíki eða smjör. 

Höfundarnir telja að almenningur og matvælaframleiðendur hafi brugðist rétt við og að mataræði hafi færst í hollustuátt.

"Léttmjólk kom á markaðinn 1982 og í kjölfarið birtist fjöldi annarra fituminni mjólkurvara. Neysla á transfitu og mettaðri fitu minnkaði í kjölfarið". 

Gunnar og Laufey benda á að mataræði íslendinga fyrir 30 árum hafi einkennst af óvenju mikilli neyslu á mettaðri fitu.

"Á þessum tíma var nýmjólkurneysla Íslendinga ein sú allra mesta í Evrópu, en léttmjólk stóð Íslendingum alls ekki til boða á þessum tíma. Þessi staðreynd, ásamt almennri notkun á hörðu smjörlíki við matargerð, bakstur og matvælaframleiðslu átti stóran þátt í að mettaða, harða fitan var svo fyrirferðarmikil í íslensku fæði, svo ekki sé minnst á allt kexið og sætabrauðið sem sannarlega lagði mikið af mörkum til fituneyslunnar"

Smjörlíki, kex og sætabrauð voru mikilvæg uppspretta transfitu á árum áður. Mettaða fitu er hins vegar aðallega að finna í náttúrulegum afurðum eins og feitum mjólkurvörum og rauðu kjöti. Varast ber að setja mettaða fitu og transfitu undir sama hatt því mikill eðlismunur er á þessum tveimur gerðum fitu. Fáir efast í dag um að mikil neysla á transfitu auki líkur og hjarta-og æðasjúkdómum.

Breytingar á mataræði Íslendinga 1990 – 2002

Rannsóknir Hjartaverndar sýna að kólesteról í blóði Íslendinga hefur lækkað síðustu fimm áratugi. Fræðimenn telja að þetta megi rekja til áðurnefndra breytinga á mataræði Íslendinga. 

Í kynningu Manneldisráðs árið 2003 kom fram að borið saman við 1990 hafi sykurneysla aukist verulega og sé nú vandamál.

Þá er þess getið að neysla gosdrykkja sé gífurleg, einkum meðal ungra drengja. "Sykurneysla stráka er jafnframt óheyrilega mikil eða 143 grömm af viðbættum sykri á dag". Stúlkur drukku að jafnaði hálfan lítra af gosdrykkjum á dag. "Mjólkurneysla þeirra er hins vegar þverrandi lítil og fiskneysla hverfandi og næringarefni í fæðu bera þess merki." Pitsuneysla ungra stráka vakti athygli því hún samsvaraði 120 grömmum á dag sem jafngildir stórri sneið á degi hverjum.

Mikil aukning varð á gosdrykkjaneyslu og neyslu viðbætts sykurs hér á landi á árabilinu 1990-2002.

Athyglisvert er hve miklar breytingar virðast hafa orðið á mataræði Íslendinga á þessu tólf ára tímabili. Mest áberandi var minni neysla á mjólk, fiski og kartöflum en meiri neysla gosdrykkja, vatns, gænmetis, ávaxta, brauðs, morgunkorns og pasta. Heildarmagn kjöts breyttist lítið en þó minnkaði neysla lambakjöts en neysla á kjúklingakjöti og svínakjöti jókst. Athygli vekur að fiskneysla minnkaði um 45 prósent.

Fituneysla breyttist talvert milli 1990 og 2002. Heildarfituneysla var 35% orkunnar árið 2002 en 41% árið 1990. Þetta var talið jákvætt og í samræmi við manneldismarkmið. Neysla á harðri fitu minnkaði úr 19% í 16% orkunnar á tímabilinu. 

Ljóst er að margar af þeim breytingum sem urðu á mataræði okkar á þessum árum voru neikvæðar. Sykurneysla jókst mikið. Gosdrykkjaneysla jókst um 37%. Þá fór offita hratt vaxandi á þessu tímabili sem hlýtur að tengjast óæskilegri þróun á mataræði.

Óneitanlega vekur nokkra furðu að kólesteról í blóði hafi lækkað á þessum tíma. Sennilega má rekja það til breytinga á fituneyslu. Gæti þar skipt mestu máli minnkuð neysla á transfitu og mettaðri fitu. Hins vegar ber að hafa í huga að mettuð fita hækkar yfirleitt HDL-kólesteról (góða kólesterólið) og hefur jákvæð áhrif á stærð LDL-agna

Fiskur er mikilvæg uppspretta fjölómettðra fitusýra en þær eru almennt taldar hafa jákvæð áhrif á kólesterólmagn í blóði. Því má ætla að minnkuð fiskneysla hafi unnið gegn lækkun kólesteróls á þessum tíma. 

Margt bendir til að neikvæðu breytingarnar sem urðu á mataræði okkar á áðurnefndu tímabili hafi verið mest áberandi meðal ungs fólks. Mælingar Hjartaverndar á kólesteróli náðu hins vegar ekki til þessa hóps. Þetta gæti skýrt hvers vegna versnandi matarvenjur hafi ekki endurspeglast í kólesterólmælingum Hjartaverndar á þessu tímabili.

Ýmsir fræðimenn hafa bent á að ráðleggingar lýðheilsuyfirvalda í Bandaríkjunum um að draga úr fituneyslu hafi víða orðið til þess að sykurneysla fór vaxandi. Breytingarnar á mataræði Íslendinga á árabilinu 1990 - 2002 koma heim og saman við að þetta kunni einnig að hafa gerst hér á landi. Hugsanlegt er að mikil áhersla á fitusnauð matvæli hafi aukið notkun viðbætts sykurs við matvæalaframleiðslu. Færa má rök fyirr því að aukin neysla viðbætts sykurs og gosdrykkja hafi ýtt undir hratt vaxandi tíðni offitu hér á landi og víða annars staðar síðustu 20 - 30 árin.

Kransæðasjúkdómar, lambakjöt og smjör

Víðast hvar í heiminum hefur orðið mikil lækkun á dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms síðustu áratugina. Ísland er ekki einsdæmi hvað þetta varðar.

Mjög athyglisvert er að skoða þróunina á dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms hér á landi síðustu fimmtíu ár (sjá mynd að ofan). Árin 2001-2005 er dánartíðnin nokkuð svipuð og á árabilinu 1951-55. Því er ljóst að ekki varð lækkun á dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms á íslandi ef allt tímabilið 1950 - 2005 er skoðað sérstaklega. Hins vegar fóru kólesterólgildi í blóði Íslendinga lækkandi á þessu tímabili. Þannig reis og féll dánartíðnin af völdum kransæðasjúkdóms þótt kólesterólgildin hafi allan tíman verið lækkandi. Þetta gæti bent til þess að samband kólesteróls í blóði og dánartíðni af völdum hjarta-og æðasjúkdóma sé flóknara og margslungnara en við höfum oft talið.

Stundum er því fleygt að rannsókn Hjartaverndar á þeim þáttum sem skýra lækkun dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms hafi sannað að minni neysla mettaðrar fitu skýri að hluta til þann árangur sem náðst hefur. Þetta er ekki rétt því tengsl neyslu á mettaðri fitu við lækkandi dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms voru yfir höfuð ekki skoðuð í þessarri rannsókn. Hins vegar ályktuðu rannsakendurnir að minnkuð neysla transfitu og mettaðrar fitu skýrði að öllum líkindum mest af þeirri lækkun kólesteróls sem varð á rannsóknartímabilinu. Hugsanlegt er þó að aðrir þættir eigi þar einnig hlut að máli.

Reykingatíðni lækkaði mikið á tímabilinu og kyrrseta minnkaði. Báðir þessir þættir geta haft áhrif á magn kólesteróls í blóði.

Fjölmargar erlendar rannsóknir benda til þess að ekki séu tengsl á miilli hjarta-og æðasjúkdóma og neyslu á mettaðri fitu. Rétt er þó að taka fram munur kann að vera á fersku rauðu kjöti og unnum kjötvörum þegar kemur að hollustu. Rannsóknir benda til að unnar kjötvörur hafi sterkari tengsl við hættu á langvinnum sjúkdómum en óunnar kjötvörur. Nýleg samantekt á faraldsfræðilegum rannsóknum sem skoðað hafa neyslu á feitum mjólkurvörum bendir ekki til þess að tengsl séu á milli neyslu slíkrar fæðu og hættunnar á hjarta-og æðasjúkdómum. 

Sjálfsagt er að velja ein-og fjölómettaður fitursýrur sem t.d. má finna í fiskafurðum og ólífuolíu umfram mettaða fitu. 

Nokkrar rannsóknir benda til þess að ef mettaðri fitu er skipt út fyrir fjölómettaðar fitusýrur megi draga úr líkum á hjarta-og æðasjúdómum. Rannsóknir hafa hins vegar líka sýnt að ef mettaðri fitu er skipt út fyrir kolvetni minnka ekki líkur á hjarta-og æðasjúdkómum. 

Í grein Gunnars og Laufeyjar lýsa þau áhyggjum sínum af auknum áhuga á fituríkum matvörum hér á landi. Þessi áhugi virðist tilkominn vegna mikilla vinsælda lágkolvetna/háfitu mataræðis.

Benda þau á að fréttir berist nú af 20% aukningu á smjörframleiðslu hér á landi. 

Þrátt fyrir þetta benda þau Gunnar og Layfey á að lágkolvetnamataræði geti komið að gagni, ekki síst fyrir þá sem eiga við mikla offitu að stríða. Þetta er áhugavert í ljósi þess að talsvert hefur skort á að fagfólk viðurkenni notagildi þessarrar aðferðar. 

Ef aukin smjörneysla skýrist af því að smjörs er neytt frekar en kolvetna og sykurs er ekki ástæða til að ætla að tíðni hjarta-og æðasjúkdóma muni aukast. Engar rannsóknir hafa sýnt að sykur og/eða kolvetni séu betri kostur en mettuð fita í þessu samhengi. Því er ekki ástæða til að vara við neyslu á lambakjöti og feitum mjólkurvörum ef neysla sykurs og kolvetna minnkar á sama tíma. Hins vegar er sjálfsagt að velja ein-og fjölómettaður fitur sem t.d. má finna í fiskafurðum og ólífuolíu umfram mettaða fitu. 

Ljóst er að margþættar ástæður liggja að baki fækkun dauðsfalla af völdum kransæðasjúkdóms hér á landi. Rannsóknarhópur Hjartaverndar hefur bent á að lækkun kólesteróls í blóði sé einn þáttur í þeim árangri sem náðst hefur. Telur hópurinn að lækkun kólesteróls megi rekja til aðgerða lýðheilsuyfirvalda sem hófust af alvöru fyrir 30 árum. Þessar ráðleggingar hafa þó því miður ekki enn skilað sér í minnkaðri neyslu á viðbættum sykri og gosddrykkjum.

Þrátt fyrir aðgerðir lýðheilsuyfirvalda hér á landi hefur tíðni sykursýki af tegund 2 farið hratt vaxandi og eru Íslendingar í dag feitastir Norðurlandaþjóða.

Heimildir: Mataraedi.is