Kulnun í starfi alvarlegur heilbrigðisvandi: „Langaði að kasta mér fyrir bíl“
Fjölmargir Íslendingar glíma við kulnun og viðvarandi streitu sökum álags í starfi, en vandinn er hulinn sjónum flestra.
Þannig upplifa heilbrigðisstarfsmenn oft algert þrot í starfi en fagfólk í fjármálageiranum er ekki undir síðra álagi.
Hér fer saga Guðrúnar* sem íhugaði sjálfsmorð sökum álags, en fékk hjálp í tæka tíð.
Kulnun í starfi er alvarlegt heilbrigðisvandamál, sem iðulega stafar af of miklu vinnuálagi og getur haft veruleg áhrif á líf starfsmanna. Kulnun stafar af viðvarandi streitu í starfi og getur valdið heilsufarslegum erfiðleikum af andlegum og líkamlegum toga; sjúkdómum í stoðkerfi, svefnleysi, streitu og jafnvel djúpu þunglyndi.
Fjölmargir Íslendingar glíma við fyrrtalin einkenni sökum álags í starfi, en vandinn er hulinn sjónum flestra. Öfugt við það sem margir halda, eru það einmitt heilbrigðisstarfsmenn sem upplifa oft algert þrot og uppgjöf á vinnumarkaðinum og skyldi engan undra, þar sem gífurlegt álag er á heilbrigðiskerfinu og kringumstæður oft erfiðar.
Þó sitja heilbrigðisstarfsmenn ekki einir að vandanum. Fagfólk í fjármálageiranum hefur ekki farið varhluta af gífurlegu álagi í starfi undanfarin ár og almennir erfiðleikar í þjóðfélaginu er snúa meðal annars að gjaldeyrishöftum, takmörkuðum úrlausnum og hertum innheimtuaðgerðum hafa einnig sett sitt mark á landann.
Þannig upplifði Guðrún* [ekki hennar rétta nafn], sem starfaði við fjármálastjórn og er á fimmtugsaldri, svo djúpt þrot að hún íhugaði í einlægni að svipta sig lífi. Guðrún var hætt komin en sagði upp starfi sínu á ögurstundu og leitaði sér hjálpar þegar álagið keyrði um þverbak. Í þeim tilgangi að fræða lesendur, valdi Guðrún* að deila sögunni með blaðamanni en hún segir velvilja fólks og hvatningarorð oft byggja á slakri þekkingu og miði að því einu að hvetja hana til að taka upp þráðinn að nýju.
Ég hef fengið nokkrar spurningar um hvort ég sé komin í vinnu og þegar ég svara því að ég sé komin í vinnu við þrif og þvotta verða sumir hálfundrandi.
Þessu svarar Guðrún aðspurð, þegar talið berst að ákvörðun hennar, en hún er háskólamenntaður viðskiptafræðingur og gegndi stöðu fjármálastjóra um árabil. Starfinu sagði hún upp sökum álags og sótti um vinnu við ræstingar.
Sumir hafa jafnvel sagt mér að ég verði fljótlega leið á ræstingunum og muni snúa mér að viðskiptum aftur. Því langar mig að segja eftirfarandi: Ég brann út.Ég mun að öllum líkindum aldrei vinna við rekstrarmál aftur. Alla vega ekki ef ég vil halda andlegri heilsu.
Kulnun í starfi hefur verið skilgreind á nokkra mismunandi vegu, en að því er kemur fram á vef Doktor, hefur ekki ríkt allsherjar sátt um hvernig skilgreina eigi fyrirbærið. Útbruni (burnout) er þó grafalvarlegt ástand sem er tilkomið af of miklu álagi sem varir í langan tíma. Kulnun einkennist af viðvarandi neikvæðu vinnutengdu hugarástandi hjá eðlilegum einstaklingum, sem brýst út í síþreytu, samhliða því sem alvarleg streitueinkenni og minnkuð framleiðni í starfi tekur að láta á sér kræla og það er einungis byrjunin á ferli sem getur falið í sér alvarlegar afleiðingar, sé ekkert að gert.
Þannig hætti Guðrún að geta sofið meira en 15 til 30 mínútur í senn, hún fór dauðþreytt á fætur á hverjum morgni og fór dauðþreytt í rúmið á hverju kvöldi. Ástæðan var einföld; þegar heim var komið hélt heilinn áfram að vinna, reikna, stemma af tölur og senda tölvupósta.
Ég var svo langt leidd að þegar ég mætti trukkum á leið til vinnu hugsaði ég í hvert skipti hvernig það væri að losa beltið og beygja fyrir þá! Þessar hugsanir hræddu mig alveg rosalega, enda hafði ég engan áhuga á að deyja, en þær létu mig ekki í friði. Mig langaði bara svo innilega að sleppa við að mæta í vinnuna!
Eftir tveggja ára baráttu við svefnleysi, viðvarandi streitueinkenni og gífurlegan kvíða sem meðal annars braust út í sjálfsskaðahugsunum, sagði líkaminn stopp. Guðrún fékk snert af taugaáfalli á haustmánuðum árið 2014 og ók hágrátandi heim að loknum vinnudegi. Það var þá og ekki fyrr, sem Guðrún lagði spilin á borðið fyrir fjölskylduna og sagði hvers kyns var.
Þau bönnuðu mér að fara í vinnu daginn eftir og sögðu mér að tilkynna mig veika.
Hollensku læknasamtökin hafa lagt upp með greiningu á vandanum sem í raun er þríþættur; í fyrstu ber á vinnutengdri streitu þar sem viðkomandi tekur að vanrækja félagslegar og hefðbundnar vinnuskyldur vegna streitueinkenna. Einbeiting fer þverrandi, bera fer á áhyggjum og jafnvel sinnuleysi og svefnaraskanir fara að láta á sér kræla.
Sé ekkert að gert, tekur að örla á ofálagi, en þegar hér er komið sögu fer að örla á verulegum takmörkunum á getu einstaklingsins til að sinna félagslegum og starfslegum skyldum sínum. Tími frá því að vinnutengd streita kemur fram og ofálag tekur að láta á sér kræla er tiltölulega stutt, eða innan við þrír mánuðir.
Að lokum þverr geta viðkomandi til að sinna vinnuskyldum með nær öllu og er þá talað um algera kulnun í starfi. Tími frá því að fyrstu einkenni koma fram og þar til þessi staða rís, er oft tiltölulega langur, jafnvel lengri en eitt ár. Þegar botninum er náð er síþreyta, sinnuleysi og alger uppgjöf farin að hrjá einstaklinginn, sem upplifir sig með öllu vanhæfan til að sinna skyldum sínum á vinnustað.
Sú ákvörðun Guðrúnar að tilkynna veikindi til vinnuveitanda reyndist henni þungbær, en hún hafði aldrei tilkynnt veikindi nema um alvarlega flensu væri að ræða. Einkennin sem hér eru talin að ofan og tíunda kulnun í starfi, voru hins vegar orðin svo svæsin í tilfelli Guðrúnar að líkaminn gafst upp og skapaði kjöraðstæður fyrir veikindi. Guðrún fékk stórskrýtna flensu og glímdi við margvísleg einkenni í 10 daga sem urðu þess valdandi að hún hélt sig heima við. . . LESA MEIRA