Kúrbíts Canelloni með ricottafyllingu - frá Eldhúsperlum
Ég virðist vera í endalausri leit að léttum og fljótlegum grænmetisréttum sem auðvitað verða að vera góðir.
Eins og ég talaði um í síðustu færslu bjó ég til ricotta ost á dögunum. Það er svo einfalt og gott að ég hvet ykkur innilega til að gera slíkt hið sama. Það er nokkuð erfitt að nálgast þessa afurð í matvöruverslunum sem og að hún er virkilega dýr. Mér reiknaðist til að osturinn sem ég bjó til kosti tæplega 600 krónur og maður fær alveg um 500 grömm af ostinum sem dugar ríflega, t.d í þennan rétt og þá er góður afgangur.
Ég fékk hugmyndina að þessum rétti á vafri mínu um Pinterest einn daginn (sem ég skil þó samt sem áður ekki ennþá hvernig virkar, en það er önnur saga) þar var notað eggaldin í svipaðar rúllur og þær fylltar með brauðmylsnu og ricotta. Ég átti hins vegar þennan fína kúrbít í ísskápnum og ákvað að umbreyta réttinum í canelloni “wannabe“.. Því hver elskar ekki canelloni? Svo notaði ég bara það sem ég átti og úr varð dásamlegur grænmetisréttur. Ilmurinn í eldhúsinu var eins og á ítölskum veitingastað og allir gengu sáttir frá borði, þrátt fyrir pastaleysi. Þennan rétt væri líka upplagt að undirbúa með góðum fyrirvara, jafnvel daginn áður og hita hann svo upp í ofni.
Kúrbíts canelloni (fyrir 3):
- 2 stórir kúrbítar
- ca. 4 dl Ricotta ostur
- 1 lúka spínat, smátt saxað
- 4 vorlaukaukar, smátt saxaðir
- 3 döðlur, smátt skornar
- 1 tsk chillikrydd, t.d Chilli explosion eða annað sterkt krydd með chilli (má líka nota ferskan chilli, smátt skorinn)
- Rifinn börkur og safinn úr 1/2 sítrónu
- 1 hvítlauksrif, rifið eða saxað smátt
- Ferskt eða þurrkað basil eftir smekk
- Salt og pipar
Sósan:
- 1 krukka tómata passata (ég nota lífrænt í glerkrukku frá Sollu)
- 2 msk gott tómatpaste
- 1/2 grænmetisteningur
- 1 tsk þurrkað timian
- Ferskt eða þurrkað basil eftir smekk
- Salt og pipar og smá ólífulolía
Aðferð:
Innihaldið í sósuna er allt sett í pott og hitað þar til suðan kemur upp. Leyft að malla í 10 mínútur. Þá er sósunni hellt í botninn á eldföstu móti.
Kúrbítur er skorinn í ca. 1/2 cm sneiðar eftir endilöngu, kryddaður með salt og pipar og grillaður á olíuborinni grillpönnu þar til hann mýkist og grillrendur hafa myndast.
Ekki elda hann of lengi. Þetta mætti líka gera á útigrilli eða á venjulegri pönnu. Tekinn af pönnunni og lagður á eldhúspappír.
Þá er ricottaostinum hrært saman og út í hann sett spínat, vorlaukur, döðlur, chillikrydd, sítrónusafi og börkur, hvítlaukur, krydd, salt og pipar.
Þessu er hrært vel saman og smakkað til.
Setjið ca 1 msk af ostablöndunni á endann á hverri kúrbítslengju.
Rúllið þeim svo upp og leggið í sósuna í eldfasta mótinu.
Bakið við 200 gráður í 15 mínútur og berið fram með rifnum parmesan osti.
Af vef eldhusperlur.com