Fara í efni

Kynning á Móðir Jörð – Vallanesi

Þau leggja sífellt aukna áherslu á vöruþróun og fullvinnslu afurða
Einnig fer fram söfnun jurta í te
Einnig fer fram söfnun jurta í te

Vallanes á Fljótsdalshéraði hefur lengi verið þekkt fyrir lífræna ræktun á korni og grænmeti, en afurðirnar eru seldar undir vörumerkinu Móðir Jörð.   Að rekstrinum standa Eymundur Magnússon og kona hans Eygló Björk Ólafsdóttir, en lífræn ræktun hófst  í Vallanesi árið 1990.  Þau leggja sífellt aukna áherslu á vöruþróun og fullvinnslu afurða þar sem heimaræktað korn, bygg, heilhveiti, grænmeti og ber, koma við sögu.  Einnig fer fram söfnun jurta í te og í framleiðslu á nudd olíum.

Fullvinnsla afurða

Fullvinnsla afurða hófst snemma í Vallanesi eða á áttunda áratug síðustu aldar með því að  hafin var framleiðsla á nudd olíum, m.a. úr birki og blágresi.  Árið 2004 komu á markaðinn tilbúin, frosin grænmetisbuff, byggbuff, baunabuff og rauðrófubuff og er yfir 90% af innihaldi  þeirra bygg og grænmeti sem ræktað er á staðnum.  Undanfarin tvö ár hefur mikið bæst í vörulínu Móður Jarðar, m.a. með þróun á mauki  (chutney) úr rótargrænmeti,  sultum  úr bláberjum, sólberjum og rabarbara.  Nýlega hóf Móðir Jörð framleiðslu á mjólkursýrðu grænmeti s.s. súrkáli og fleiri tegundir eru í þróun.  Þurrefnablöndur úr korni s.s. Morgungrautur, Lummur og vöfflublanda og brauðblanda eru meðal nýjunga og kaldpressuð repjuolía er komin á markað í smáum stíl.  Allar vörur Móður Jarðar eru án dýraafurða og kornvörurnar standast fullyrðingar um heilkorna afurðir og trefjaríkt fæði.

Grænmetisræktun

Í Vallanesi er mikil grænmetisræktun sem byggir á hinum hefðbundnu tegundum sem ræktaðar hafa verið á Íslandi um áratugi. Jafnframt hafa nýstárlegri tegundir verið teknar til ræktunar með góðum árangri. Tegundirnar er hnúðkál, grænkál, steinselja, salat ýmiskonar, rauðrófur, sellerí, fennel, hvítkál, kryddjurtir og íslenskar kartöflur s.s. gullauga og rauðar íslenskar.  Ljóst er að þessum tegundum á aðeins eftir að fjölga miðað við þau breyttu ræktunarskilyrði sem skapast hafa á Íslandi á síðustu árum.

Byggið góða

Korn og kornafurðir skipa stóran sess í vöruúrvali Móður Jarðar þar sem bygg hefur verið kjölfestan en nú hefur heilhveiti bæst við þar sem skilyrði hafa skapast til ræktunar á því á Íslandi með hlýnandi veðurfari.  Bankabygg var fyrsta afurð Eymundar í Vallanesi sem kom á markað, heilkorna afurð sem fljótlega skapaði sér sess ekki síst vegna mikilla heilsufarslegra kosta þess auk bragðgæða. Í kynningum var lögð áhersla á að bygg er valkostur til jafns við hrísgrjón sem meðlæti með mat, auk þess sem uppskriftir á borð við Morgungraut Gabríels er að finna á baki umbúðanna.  Fjöldi annarra uppskrifta úr byggi og grænmeti er einnig að finna á www.vallanes.is  Með frekari útfærslum á bygginu hafa notkunarmöguleikar þess aukist til muna, t.a.m. með framleiðslu á byggflögum sem nota má í stað hafragrjóna í fljótgerða morgungrauta og í múslí auk þess sem það opnar á ýmsa möguleika í matargerð.  Byggmjöl hefur mikið verið notað af bökurum í brauðbakstur, og hefur samstarf við íslenska bakara skilað sér í auknu úrvali brauða með byggi, til dæmis hafa Brauðhúsið í Grímsbæ og Reynir bakari tekið þetta hráefni upp á sína arma.  Hrökkkexið frá Móður Jörð sem verið hefur á markaði í nokkur ár, Hrökkvi,  inniheldur bygg og heilhveiti frá Vallanesi, og er íslenskt korn 70% af innihaldi þess, ásamt íslenskum jurtum á borð við hvönn og kúmen sem notaðar eru sem krydd.  Þessar vörur eru m.a. seldar til útlendinga og hafa gert góða lukku.

Lífrænt til framtíðar

Við vöruþróun og fullvinnslu hjá Móðir Jörð er einungis stuðst við hráefni úr jurtaríkinu, án gervi og hjálparefna og framleiðslunni  háttað samkvæmt evrópskum stöðlum um lífrænt vottaðar afurðir. Móðir Jörð hefur í vöruþróun sinni notið dyggrar aðstoðar MATÍS m.a. til að hámarka næringargildi og náttúrulegt geymsluþol framleiðslunnar. Stefnan er tekin á lausnir sem koma íslenskri hollustu á disk landsmanna með frekari þróun og fullvinnslu úr lífrænt ræktuðu grænmeti og korni, berjum og afurðum jarðarinnar úr heilnæmri náttúru Íslands.

Eygló Björk Ólafsdóttir
Móðir Jörð Vallanesi                                                                                                      
Icelandic Organic Products