Læsissáttmáli heimilis og skóla - áttu korter á dag?
Átt þú korter á dag?
Lesum fyrir barnið og verum fyrirmyndir.
Lestur byggist á færni í móðurmálinu og því má segja að undirbúningur lestrarnáms hefjist strax á fyrstu ævimánuðum barnsins þegar það fer að gefa gaum að hljóðum og talmáli í umhverfi sínu. Því betri málþroska sem barn hefur því betur er það í stakk búið til að takast á við lestrarnám. Barn sem hefur greiðan aðgang að fólki sem ræðir við það um heima og geima, les fyrir það og kennir því ný orð, á alla jafna auðveldara með að ná tökum á lestri og skilja það sem það les. Málvitund og orðaforði eykst ef lesið er fyrir barnið. Gott er að leggja áherslu á að:
- tala við barnið og hlusta á það tjá sig
- kenna barninu ný orð úr bókum og málumhverfi
- lesa með barninu á hverjum degi og ræða við það um efnið
- lesa sem mest af fjölbreyttu efni og misflóknu
- velja bækur sem auka orðaforða barnsins og þekkingu en gæta þess samt að efnið sé ekki of erfitt
- syngja með barninu
- kenna barninu vísur, þulur, gátur og rím
- gera lestrarstund að jákvæðri upplifun
- hafa fastan lestrartíma á hverjum degi
Börn læra tungumálið hjá foreldrum sínum og öðrum sem þau umgangast. Samræður og lestrarstundir með fjölskyldunni leggja grunn að lestrarnámi barna síðar meir. Auk þessa er upplestur góð samverustund barna og foreldra og einföld leið til að sameina gagn og gaman. Lestur örvar ímyndunarafl barna og sköpunargáfu og eykur skilning þeirra á umheiminum. Góð bók getur hjálpað börnum að setja sig í spor annarra. Einnig getur verið gott að takast á við erfiðari viðfangsefni og upplifanir í lífi barns í gegnum lestur og samtal um texta. Aukin almenn þekking og fjölbreyttur orðaforði hjálpa börnum að lesa og skilja krefjandi texta af ýmsu tagi. Með því að byggja traustan lestrargrunn erum við að vinna í haginn fyrir skólagönguna og árangur almennt því góð lestrargeta hefur áhrif á lífsgæði.
Engin ástæða er til að hætta að lesa fyrir börn þó svo þau eldist og geti lesið sjálf. Börn á öllum aldri njóta þess að hlusta á upplestur og einnig tekur tíma fyrir börn að ná þeirri lestrarfærni sem þarf til að geta notið yndislestrar. Þegar börn eldast og lesa meira í einrúmi er tilvalið að lesa sömu bækurnar og þau og ræða svo innihaldið. Mikilvægt er að vera góðar fyrirmyndir en oft skiptir meira máli hvað við gerum en hvað við segjum. Höfða þarf jafnt til drengja sem stúlkna. Góðar fyrirmyndir geta skipt máli í því tilliti, t.d. bókhneigðir karlmenn í lífi drengja. Einnig er mikilvægt að bjóða lesefni sem vekur áhuga og tengist jafnvel öðrum áhugamálum. Þá skiptir máli að leyfa börnum að velja lesefni.
Hlustum á barnið lesa.
Mikilvægt er að hlusta reglulega á börn lesa og gera það af áhuga og athygli. Börn læra málið af samskiptum við annað fólk, oftast án sérstakrar kennslu. Lestur þarf hins vegar að kenna og þjálfa. Lestur ætti fyrst og fremst að vera ánægjuleg reynsla og miklu skiptir að börnum finnist þau ráða við viðfangsefnið. Mikilvægt er að börn og unglingar haldi áfram að lesa eftir að lágmarksfærni er náð og er það í raun forsenda þess að þau ráði við stöðugt erfiðara lesefni og flóknari orðaforða. Gott er að ræða saman um textann til að ganga úr skugga um að barnið þjálfi skilning á lesefninu. Til dæmis er gagnlegt að fara í gegnum eftirtalin atriði:
- Spyrja um söguþráðinn
- Spyrja út í persónur
- Hver er boðskapur sögunnar?
- Gæti sagan gerst í alvörunni?
- Hvað myndir þú gera?
- Hvernig leið þér eftir lesturinn?
- Varðstu einhvers vísari?
- Fannst þér erfitt að skilja einhver orð?
- Hvað fannst þér mest spennandi eða skemmtilegast?
- Hvað gæti gerst næst?
Lesefni skólastiganna þyngist með hverju stigi og því er mikilvægt að fylgjast vel með framförum alla grunnskólagönguna, bæði í lesfimi og lesskilningi. Foreldrar setja oft reglur eða komast að samkomulagi við börn um hversu langan tíma þau fá til að vera í tölvu, horfa á sjónvarp o.s.frv. Sama ætti að gilda um lestur. Börnum líkar að hafa hlutina í föstum skorðum og gott er að koma á rútínu með lestur eins og aðra hluti. Auðvelt er að venja börn við að lesa t.d. hálftíma á dag og þau ættu að lágmarki að lesa upphátt í u.þ.b. 15 mínútur á dag. Við eigum öll korter til að hlusta á börnin okkar lesa.
Viðhöldum og eflum færni.
Í dag eru gerðar kröfur um raunprófaðar kennsluaðferðir sem eiga að tryggja börnum faglega kennslu. Þjálfun heima fyrir er eftir sem áður mikilvæg og getur ráðið úrslitum um að barnið nái að fylgja jafnöldrum. Reglulegur heimalestur er mikilvægari en margir gera sér grein fyrir. Verum því dugleg að fylgja þessu eftir, árið um kring. Miklu skiptir að viðhalda þeirri færni sem þegar hefur verið náð með því að sjá til þess að barnið lesi líka í fríum. Rannsóknir sýna að það getur tekið tíma að ná upp þeirri færni sem barnið var með fyrir frí ef ekki er haldið vel á spöðunum. Ágætt er að miða við minnst korter á dag. Miklu skiptir að kröfur séu við hæfi, hvorki of miklar né litlar.
- Sýnið lestri barnsins áhuga og hrósið þegar við á.
- Hlustið á barnið lesa daglega.
- Gerið lestrarstundina að jákvæðri upplifun, leiðréttið af nærgætni.
- Gætið þess að þyngd texta til lesþjálfunar hæfi lestrargetu barnsins.
- Takið hlé ef barnið þreytist og gætið þess að það sé ekki svangt.
- Gott er að skiptast á að lesa ef textinn reynist erfiður.
- Leggið áherslu á að barnið læri bókstafina og hljóð þeirra.
- Hjálpið barninu að tengja hljóð saman svo úr verði orð. Ritun er öflug leið til að þjálfa næmi fyrir tengslum bókstafa og hljóða og örva hljóðkerfisvitund.
- Notist við hljóðbækur. Til dæmis í bílnum, á kvöldin þegar líður að háttatíma og við fleiri tækifæri.
- Fáið börn til að lesa í fríum og takið bækur með í ferðalög.
- Leitið frekari leiðbeininga hjá kennara barnsins um hvernig best er að haga heimanámi í lestri og ritun, um þyngd lesefnis og kröfur.
Lestur er ein flóknasta færni sem barn þarf að ná tökum á í lífinu og því er mikilvægt að halda vel utan um lestrarþjálfun barnsins. Lestur er ævilöng iðja. . . LESA MEIRA