Leiðbeiningar til leik- og grunnskóla og aðila í frístundastarfi vegna barna og unglinga með fæðuofnæmi
Hér má finna viðbragðsáætlun/upplýsingar til leik- og grunnskóla og aðila vegna barna/unglinga með fæðuofnæmi.
Ábyrgð starfsfólks:
Fæðuofnæmi getur verið lífshættulegt. Starfsfólk þarf að vinna náið með aðstandendum og heilbrigðisstarfsfólki að því að skapa öruggt umhverfi fyrir börn með fæðuofnæmi og draga úr hættunni á því að þau komist í tæri við ofnæmisvalda. Einnig skal unnið að því að barnið upplifi sig ekki öðruvísi en skólafélagarnir og fái notið viðburða þar sem matur og drykkur kemur við sögu jafnt og aðrir. Leiðbeiningar þessar eru unnar fyrir leik- og grunnskóla og frístundastarf og verður orðið „starfsstaður“ notað sem samheiti fyrir þessa staði.
Einnig fylgir eyðublað sem nota má til að afla grunn upplýsinga um barnið og ofnæmið/-in sem barnið er með. Sjá hér.
Einnig má finna hér, skráningarblað til að nota þegar ofnæmistilvik kemur upp (Atvikaskráning á ofnæmistilfelli)
Ábyrgð aðstandenda / forráðamanna
- Upplýsa staðinn um fæðuofnæmið/-in og annað sem taka þarf tillit til.
- Leggja skal fram læknisvottorð með upplýsingum um ofnæmið sem og leiðbeiningar um rétt viðbrögð við ofnæmistilviki Sjá hér.
- Tryggja að á starfsstaðnum séu ávallt nauðsynleg lyf. Lyfin þurfa að vera greinilega merkt viðkomandi barni og þau þarf að endurnýja áður en þau renna út. Það er á ábyrgð starfsstaðarins að tryggja að allir starfsmenn sem vinna með barninu kunni að nota adrenalínpenna auk þess sem allir þurfa að vera upplýstir um hvar slíkir pennar eru geymdir.
- Gera áætlun um fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbrögð við ofnæmistilvikum í samvinnu við starfsstaðinn. Áætlunin þarf að taka mið af þörfum barnsins í ólíkum aðstæðum á viðverutíma barnsins, þ.e. á deildinni / í skólastofunni, í matsal, frístundastarfi og á öðrum viðburðum. Ný og góð mynd af barninu þarf að fylgja með áætluninni. Einnig blað með engri mynd á til að nota í þeim tilfellum sem óskað er eftir því að mynd af barninu sé ekki birt. Á sumum leikskólum eru útbúnar diskamottur með mynd á fyrir hvert barn þar sem upplýsingar um fæðuofnæmi koma fram eftir því sem við á.
- Gefa greinargóðar upplýsingar um hvað það er sem barnið borðar og vera til ráðgjafar og samstarfs um örugg aðföng og vörur sem hafa reynst vel.
- Fara reglubundið yfir verklag og viðbrögð við ofnæmistilvikum með starfsfólki starfsstaðarins, skólahjúkrunarfræðingi og barninu (ef við á).
- Veita starfsstaðnum upplýsingar um tengiliði í neyðartilfellum. Einnig er mikilvægt að sammælast um orðræðuna þegar hringt er í foreldri og tilkynnt um ofnæmistilfelli. Dæmi: "Sæl, það er allt í lagi með X, en hann fékk fyrir slysni einn bita af fiskibollu með mjólk í ......"
- Vinna með góðum fyrirvara með starfsstaðnum og áður en að breytingar verða á matarmálum t.a.m. ef að nýr aðili eða fyrirtæki tekur við eldhúsi/mötuneyti.
- Kenna barninu, í samræmi við aldur og þroska þess, hvernig á að lifa með ofnæminu.
- Þekkja frá hverjum það má þiggja mat og drykk.
- Þekkja ofnæmisvaldandi matvæli og drykki.
- Þekkja örugg matvæli og drykki.
- Kunna aðferðir til að forðast nálægð / snertingu við ofnæmisvaldandi matvæli og drykki.
- Þekkja einkenni ofnæmisviðbragða.
- Vita hvernig og hvenær eigi að láta fullorðinn einstakling í skóla eða frístundastarfi vita ef ofnæmisviðbrögð gera vart við sig.
- Kunna að lesa og skilja innihaldslýsingar á matvælum og drykkjum þar sem taka þarf mið af aldri og þroska barnsins.
Ábyrgð starfsstaðarins
- Þekkja og fara eftir leiðbeiningum þessum varðandi fæðuofnæmi og móttöku barna með fæðuofnæmi. Einnig að fylgja leiðbeiningum Matvælastofnunar (http://www.mast.is/matvaeli/merkingar/ofnaemi-othol/) er snúa að upplýsingagjöf um ofnæmisvalda og tryggja að þeir sem bera ábyrgð á matargerð og/eða móttöku matar og afgreiðslu/skömmtun fylgi þeim reglum í hvívetna. Jafnframt, ef matur er keyptur annarsstaða frá, að sá aðili sé einnig að fylgja viðurkenndum verklagsreglum í hvítvetna.
- Setja á fót forvarnar- og viðbragðsteymi (ofnæmisteymi) með skólahjúkrunarfræðingi, yfirmanni mötuneytis, stafsmönnum í eldhúsi/mötuneyti, kennarum, skólastjóra og forstöðumanni í frístundaheimili/félagsmiðstöð (ef við á) til að vinna með aðstandendum og nemendum (þegar við á) að því að útbúa fyrirbyggjandi aðgerðaáætlun vegna fæðuofnæmis. Breytingar á áætluninni skulu aðeins gerðar í samráði við teymið.
- Gera þarf áætlun vegna barna sem eru með alvarlegt fiskofnæmi og þola ekki gufur af fiski. Tilgreina hvar þau borða sinn mat og með hverjum þegar fiskur er á boðstólum. Gott er að hafa vin sem borðar með barninu auk fullorðins einstaklings, þetta getur þó verið háð aldri barnsins.
- Upplýsa aðstandendur með fyrirvara um fyrirhugaðar breytingar á matarþjónustu t.a.m. ef nýr aðili eða fyrirtæki tekur við eldhúsi/mötuneyti.
- Tryggja að börn með fæðuofnæmi geti tekið þátt í öllum viðburðum þar sem veitingar eru á boðstólnum.
- Skrá á viðurkenndan máta öll tilfelli fæðuofnæmis sem upp koma, læra af atvikinu og draga úr líkum á því að það endurtaki sig. Leikskóla- eða skólastjóri eða forstöðumaður frístundaheimilis/félagsmiðstöðvar skal upplýsa gæðastjóra Mötuneytisþjónustu SFS Reykjavíkurborgar um atvikið eða viðkomandi aðila innan sveitafélagsins sem um ræðir. Nota má nota eyðublaðið sem finna má hér
- Fara yfir verklag og fylgja eftir viðbragðsáætlun varðandi fæðuofnæmi barns í samvinnu við viðbragðsteymið (a.m.k. einu sinni á önn).
- Tryggja að allir starfsmenn starfsstaðarins kunni að nota adrenalínpenna auk þess sem allir þurfa að vera upplýstir um þá staði sem pennar eru geymdir á.
- Standa fyrir fræðslu fyrir allt starfsfólk starfsstaðarins til að upplýsa á faglegan máta um ofnæmi og viðbrögð við því og hvernig lyfin eru gefin á réttan hátt. Sá sem veitir fræðsluna skal vera fagaðili eða annar aðili sem þekkir mjög vel til t.a.m. hjúkrunarfræðingur / læknir /næringarfræðingur eða aðstandandi barnsins.
- Tryggja að allt starfsfólk sem er í reglulegum samskiptum við barnið viti um fæðuofnæmið/in þekki einkennin, viti hvernig á að bregðast við í neyðartilfellum og vinni markvisst að því að takmarka notkun ofnæmisvalda í máltíðum, kennslugögnum, t.d. í list- og verkgreinum, og öðrum þáttum starfsins.
- Endurskoða verklag reglubundið og æfa rétt viðbrögð við fæðuofnæmistilvikum til að tryggja að verklagið virki.
- Tryggja að lyf séu geymd á öruggan hátt, og á stað þar sem allir vita um, í samráði við skólahjúkrunarfræðing í grunnskólum, leikskólastjóra í leikskólum eða forstöðumann frístundaheimilis/félagsmiðstöðvar. Lyf þarf að endurnýja eftir að gripið hefur verið til þeirraauk þess sem fylgjast þarf með fyrningardagsetningu og að endurnýja lyf í tíma.
- Tilnefna starfsfólk sem hlýtur viðeigandi þjálfun í að gefa lyfin á réttan máta.
- Bregðast rétt og hratt við ofnæmistilvikum, tryggja að alltaf sé starfsmaður til staðar sem getur gefið rétt lyf, hvar og hvenær sem er á starfstíma og/eða viðburðum skóla- og frístundastarfs.
- Yfirfara forvarnar- og viðbragðsáætlun eftir að ofnæmistilvik hafa komið upp með ofnæmisteymi starfsstaðarins, aðstandendum og barninu (ef við á) og meta hvort gera þurfi einhverjar breytingar og í hverju þær breytingar skulu felast.
- Gera áætlun í samvinnu við aðstandendur barna með fæðuofnæmi um verklag og fyrirbyggjandi aðgerðir vegna fæðuofnæmis í ferðum á vegum starfsstaðarins, s.s. vettvangsferða. Einnig í tengslum við afmælisveislur og aðra viðburði.
- Upplýsa gestgjafa í vettvangsferðum um að barn í hópnum sé með fæðuofnæmi og að gæta þurfi ýtrustu varúðar verði matur á boðstólnum. Ekki er nauðsynlegt að þiggja mat í vettvangsferðum og því mætti ræða við viðkomandi aðila hvort matur þurfi að vera í boði og gjarnan koma með hugmyndir að nytsamlegum hlutum í stað matar. Ef nauðsynlegt er að bjóða uppa á mat að taka með mat sem hentar barninu með fæðuofnæmið.
- Fylgja lögum um persónuvernd varðandi vörslu og dreifingu sjúkraupplýsinga um börn.
- Tryggja að aðilar sem tengjast skóla- og frístundastarfi á annan hátt t.d. í skólabúðum, skólarútum, sundrútum og rútum á vegum frístundastarfs séu upplýstir um og kunni að bregðast við ofnæmistilvikum.
- Upplýsa börn í deild/ bekk og frístundastarfi um fæðuofnæmi skólafélagans og um viðbrögð við ofnæmistilfellum í samræmi við aldur og þroska þeirra.
- Upplýsa foreldra annarra barna um fæðuofnæmið m.a. vegna viðburða innan skóla- og frístundastarfs.
- Hnetulaus starfsstaður. Það er eðlilegt að þegar barn eða starfsmaður í leik-, grunnskóla eða frístundastarfi er með ofnæmi fyrir hnetum eða jarðhnetum að starfsstaðurinn sé hnetulaus. Þá skulu allar hnetur og möndlur og vörur með hnetum og möndlum í s.s. múslí og morgunverðarkorn, kökur, kex, ís, orkustangir, súkkulaði og annað sælgæti vera bannað inni á starfsstaðnum m.a. í nesti barna og starfsmanna sem og á viðburðum í skólanum og vettvangsheimsóknum. Á vefsíðu AO www.ao.is sjá hér, má nálgast tilkynningu sem prenta má út og hengja upp við inngang starfsstaða um hnetulausan starfsstað.
- Ef staðurinn er ekki hnetulaus þarf að gera ráðstafanir vegna máltíða sem boðið er upp á í matsal og innihalda hnetur og jarðhnetur. Í þeim tilfellum sem börn geta hitað sinn eigin mat í örbylgjuofni starfsstaðarins og ef að hnetuofnæmi er til staðar hjá öðrum börnum þarf að tryggja fullnægjandi þrif á ofninum.
Ábyrgð barnsins (háð aldri)
- Taka ekki við mat frá einstaklingum sem það þekkir ekki.
- Neyta ekki matvæla nema vera örugg um innihald þeirra og borða ekki matvæli sem innihalda ofnæmisvaldinn sem um ræðir eða gætu mögulega innihaldið hann.
- Fara eftir bestu getu að leiðbeiningum og fyrirbyggjandi áætlunum til að draga úr líkum á ofnæmistilfelli.
- Láta strax fullorðinn aðila vita ef það kemst í snertingu við eða borðar eitthvað sem inniheldur eða gæti innihaldið ofnæmisvalda.
Fyrir hönd Astma- og ofnæmisfélags Íslands
Fríða Rún Þórðardóttir, næringarfræðingur, formaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands
Selma Árnadóttir, ráðgjafi og varaformaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands