Leiðin að vitund og kyrrð - hugleiðing frá Guðna
ATHYGLI ER ÓHÁÐ – ATHYGLI ER HREIN ÁST
Athygli snýst aðeins um að taka eftir – í athygli er enginn dómur, afstaða eða viðnám. Athygli er alltaf ást. Við tökum aðeins eftir í stað þess að forðast hugsanir okkar, því mótstaðan gefur þeim vægi og nýjan kraft. Allt í heiminum á sína tíðni og hljóm og öll erum við að leita að samhljómi; við þráum öll að „eiga heima“ og finna tengingu. Þess vegna er eðli ljóssins að leita í samhljóminn því að þannig breytist viðnámið sem við upplifum yfir í flæði; í samhljóminum er lágmarks viðnám.
Allt í heiminum á sína tíðni – líka við. Öll okkar viðhorf og tilvist skapa vissa tíðni sem hljómar á hverju augnabliki út í heiminn, auglýsir væntingar okkar og laðar að sér í samhengi við þær.
Leiðin að vitund og kyrrð er sú að beina athyglinni að allri okkar tilvist – líka að hugsununum – og leyfa okkur að fylgjast með í fullum kærleika; að vera kærleiksríkt vitni og skapari.