Lífernið ætti að vera löngu búið að drepa James Bond
James Bond, frægasti og klárasti njósnari hennar hátignar, hefur aldrei hugsað neitt sérstaklega vel um sig og í raun er kraftaverk að hann sé jafn sprækur og raun ber vitni miðað við villt lífernið.
Í tilefni þess að Bond er um þessar mundir í miklum ham í nýjustu Bond-myndinni, SPECTRE, er tilvalið að rifja upp nokkurra ára gamla greiningu breskra lækna og sálfræðinga á hvernig raunverulegt ástand Bonds á sál og líkama ætti að vera. Í stuttu máli sagt, ætti hann að vera dauður. Af eigin völdum en ekki hinna skæðu óvina hans.
Tímaritið Men´s Health fékk árið 1997 nokkra sérfræðinga til þess að fara í gegnum allar bækurnar og bíómyndirnar um Bond og sjúkdómsgreina hann út frá þeim. Niðurstaðan var ekki uppörvandi. Bond væri dauður eða í það minnsta á banabeðinu, ofsóknarbrjálaður og getulaus alkóhólisti.
Sálfræðingur fór yfir bakgrunn Bonds en hann missti báða foreldra sína ellefu ára, missti sveindóminn á vændishúsi sextán ára og framdi sitt fyrsta morð ári síðar. Niðurstaðan var að Bond væri tilfinningalega staðnaður síkópati þjáður af áfallastreituröskun sem mætti rekja allt aftur til æsku hans.
Og ekki er líkamlega ástandið betra. Dagleg neysla hans á vodka martini, hanastélum, viskí, hvítvíni og búrboni hefur orðið til þess að hann er fullkomlega vanfær um að gegna störfum sínum hjá Bresku leyniþjónustunni auk þess sem kynfæri hans ættu að vera skroppin saman.
Áfengið hefur einnig valdið lifrarskemmdum þannig að hún er orðin ófær um að brjóta niður kvenhormónið estrógen þannig að Bond ættu að vera byrjuð að vaxa brjóst og hann orðinn getulaus.
Þá eru ótaldar, en hann notar í það minnsta tvo pakka á dag af sterkum tyrkneskum sígarettum, og kynlífshegðun hans ætti að tryggja að hann sé kominn með alla hugsanlega kynsjúkdóma.
Bond fær sér drykk að meðaltali á sjöttu hverri blaðsíðu í bókum Ians Fleming um ævintýri hans og í bókunum er hann mikill viskí-maður og fær sér alltaf tvöfaldan. Meðal þeirra ummæla sem læknarnir létu falla um þennan helsjúka alkóhólista voru:
“Þú vilt ekki að þessi maður aftengi kjarnorkusprengju” og “Hann er mjög glæsilegur og krækir í allar stelpurnar en það passar engan veginn við lífstíl alkóhólistans sem hann svo sannarlega er.”
Kannski ekki furða að leikarinn Daniel Craig sé orðinn dálítið þreyttur á þessum gæja.