Lifewave plástrar blekkja fólk.
Fyrirtækið Lifewave var stofnað 2004 af David Smith sem er aðaleigandi og framkvæmdastjóri. Þetta fyrirtæki hefur vaxið hratt og er nú búið að hasla sér völl á Íslandi með útibúi, talsmanni og veglegum vefsíðum.
Blaðaskrif hér 2009
Árið 2009 urðu blaðaskrif hér á landi um Lifewave. Þetta byrjaði með umfjöllun í Fréttablaðinu um íþróttamenn sem væru að nota Lifewave plástra til að fá aukna orku. Því miður var þessi fréttaflutningur gagnrýnislaus og fjallaði um þessi áhrif eins og staðreyndir. Undirritaður „tróð“ sér þess vegna í viðtal í blaðinu þar sem plástrunum var lýst sem blekkingum og sagt var frá ósannindum fyrirtækisins um rannsóknasamvinnu við bandaríska háskóla. Aðspurðir könnuðust þessir skólar ekki við slíkar rannsóknir á þeirra vegum né nokkra samvinnu við fyrirtækið Lifewave. David Smith eigandi Lifewave svaraði þessu með grein í Fréttablaðinu en sú grein var lítið annað en persónulegar svívirðingar um undirritaðan enda er það vel þekkt aðferð hjá þeim sem engin rök hafa.
Rannsóknir?
Talsmenn fyrirtækisins hafa ítrekað í gegnum árin sagt frá merkum rannsóknum sem verið sé að gera eða sé nýlokið, niðurstöðurnar lofi ákaflega góðu og þetta verði allt birt innan tíðar. Ef gerð er leit í PubMed (MEDLINE) sem er aðal gagnasafnið í heilbrigðisgeiranum þá finnst ein grein um litla rannsókn á 10 sjálfboðaliðum frá 2005. Í þessari rannsókn var verið að skoða áhrif á breytileika í hjartsláttartíðni, engin afgerandi niðurstaða fékkst en höfundarnir segja að frekari rannsókna sé þörf – þær viðbótarrannsóknir virðast sem sagt ekki hafa verið gerðar. Niðurstöður annarra rannsókna hafa ekki verið birtar í ritrýndum tímaritum sem njóta virðingar. Á vefsíðu Lifewave er vitnað í vísindarannsóknir og þar er birtur listi yfir greinar og skýrslur. Þar eru kynntar 14 ritgerðir sem birtar hafa verið í tímaritum. Þegar haft er í huga að fyrirtækið er um 10 ára gamalt er þessi listi mjög klénn. Ekki er alltaf um alvöru rannsóknir að ræða, aðferðarfræðinni er oft ábótavant og t.d. er beitt aðferðum sem ekki eru viðurkennd vísindi, niðurstöður er þess vegna oft erfitt að túlka. Flestar þessara greina eru eftir sömu höfundana og þær eru flestar birtar í tímaritum sem fjalla um heilbrigðisfræði sem byggir á munnmælum (traditional medicine). Á þessari vefsíðu er líka að finna allmargar skýrslur sem ekki hafa verið birtar í tímaritum. Margar þessara „rannsókna“ fjalla í raun um annað en gefið er í skyn. Þegar upp er staðið hafa ekki verið birtar neinar rannsóknaniðurstöður um verkanir Lifewave á fólk, sem mark er takandi á. Auglýsingar Lifewave ganga einkum út á tvennt, annars vegar er vísað í rannsóknir sem ekki eru til og hins vegar eru umsagnir frægra íþróttamanna sem fullyrða að þeir fái aukna orku og skori fleiri mörk ef þeir eru með þessa plástra á sér. Og listinn yfir verkanir plástranna er ekki af verri endanum: auka orku um 20%, valda þyngdartapi, bæta svefn, lina verki, vinna gegn öldrun (!) og geta jafnvel læknað heilalömun og krabbamein.
Miklu lofað
Á einni íslensku vefsíðunni (http://lifewaveplastur.com ) er þessu eftirfarandi lofað, og allt gerist það á örfáum mínútum:
Tæknin
Lýsingar á tækninni sem Lifewave byggir á eru í senn ruglingslegar og líkastar vísindaskáldsögu. Fullyrt er að ekkert fari gegnum húðina nema bylgjur eða geislar en það eina sem er gefið upp um innihald plástranna er vatn, amínósýrur og sykur. Talað er um lífræna nanótækni, innrauða geisla, nálastunguáhrif (eða acupressure), hómópatíu og fleira. Sumt af þessu virðist gert í þeim tilgangi að gefa Lifewave vísindalegt yfirbragð. Ef hægt væri að stjórna frumum líkamans á þennan hátt með litlum plástri væri það sennilega stærsta uppgötvun í læknisfræði fyrr og síðar, hinn möguleikinn er að þetta séu einungis blekkingar til að selja gagnslausa vöru.
Eitt af vandamálunum með Lifewave plástra er að þá er erfitt að flokka, þeir eru hvorki matur, fæðubótarefni, náttúrulyf né lækningatæki. Þetta þýðir að þeir heyra ekki undir lög og reglugerðir sem aðrar vörur í þessum geira gera.
Niðurstaða: Lifewave plástrar eiga sér engan vísindalegan grunn en eru sveipaðir í vísindalegan hjúp til að blekkja fólk. Engar rannsóknir hafa verið birtar sem sýna nein af þeim áhrifum sem lofað er af seljendum plástranna. Þau loforð um verkanir sem þessir plástrar eiga að hafa eru því hrein blekking.
Sjá einnig:
http://worldwidescam.blogspot.com/2008/05/lifewave-patent-rejected.html
http://worldwidescam.com/Lifewave.pdf
Magnús Jóhannsson læknir og prófessor emeritus
Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.