Lífið er ekki flókið - Guðni með hugleiðingu dagsins
Þú skilur lífið með steyttan hnefa
Lífið er ekki flókið. Þú skilur þetta allt saman.
Líkamsstaðan opinberar alla okkar tilvist. Orka eyðist ekki, hún stíflast ekki, hún festist ekki – henni hefur einfaldlega verið ráðstafað í viðnám í tilteknum vöðvum eða liðum líkamans. Þar liggur hún og þjónustar þína birtingu – hún gerir ekkert annað en þú hefur vitandi eða óafvitandi beðið um.
Þetta er ekki flókið. Þú finnur muninn. Þú skilur muninn. Þetta er ekki flókið. Þetta er einfalt. En það er ekki alltaf auðvelt að sleppa sér inn í ljósið og frelsið – fyrr en við öðlumst heimild.
Að leyfa sér framgöngu er að sleppa hinum steytta hnefa og opna lófann.
Viðnám er myrkur, dómur, kyrrstaða, spenna. Lífið er flæði, ljós, orka, opnun, skilningur, óháð athygli. Líf og frelsi. Hamingja, bros, djúpur andardráttur.
Hvers vegna veljum við að lifa í myrkri og spennu?
Hvers vegna veljum við það?
Prófaðu að loka augunum og kreppa báða hnefana. Krepptu þá mjög fast og haltu lengi. Finndu spennuna í fingrum, lófum, handlegg og upphandlegg – finndu hvernig spennan streymir upp í axlir, upp hálsinn, upp í hnakka og hvirfil. Slepptu svo og opnaðu lófana.