Loksins, loksins lögfesting!
26. apríl s.l var sögulegum áfanga náð í réttindabaráttu fatlaðs fólks á Íslandi þegar Alþingi samþykkti lög sem festa persónulega notendastýrða aðstoð (NPA) í sessi sem eitt af megin þjónustuformum við fatlað fólk.
Í slíkri þjónustu felst að réttur fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs er aukinn gríðarlega þar sem aðstoðin er skipulögð af notendum sem ráða hver aðstoðar þá, hvenær og með hvaða hætti.
Mikil réttarbót
Rúnar Björn Herrera Þorkelsson er formaður málefnahóps Öryrkjabandalags Íslands um sjálfstætt líf er jafnframt formaður NPA-miðstöðvarinnar. Hann sagði að erfitt væri að lýsa tilfinningunni sem fælist í því að horfa fram á lögfestingu á þessari þjónustuleið eftir margra ára baráttu.
„Ég hef áður sagt að þetta sé mesta réttarbót varðandi málefni fatlaðra frá því að hætt var að binda okkur við staur,“ segir Rúnar en leggur jafnframt áherslu á að um sé að ræða áfangasigur í baráttu sem er langt frá því að vera unnin. Þar á Rúnar við réttindabaráttu fatlaðs fólks en við blasir að víða er pottur brotinn varðandi mannréttindavernd þessa hóps á Íslandi.
Samstaða var meðal allra flokka á Alþingi um lögfestinguna sem er mikið gleðiefni en raunar hefur ávallt verið mikill samhljómur um þetta mál þrátt fyrir að tekið hafi um sjö ár að ná lokatakmarkinu sem var innsiglað með atkvæðagreiðslu á Alþingi í dag.
Samráðið tekið alvarlega
„Við erum sérstaklega ánægð með að samráðsskylda stjórnvalda við fatlað fólk var loksins tekin alvarlega í þessu ferli. Velferðarnefnd, fræðasamfélagið og fatlað fólk og hagsmunasamtök þess eiga öll hrós skilið fyrir vel útfærða samvinnu á þessum síðustu mánuðum,“ segir Rúnar.
Með lögfestingunni næst mikilvæg skref í átt að því að tryggja það réttaröryggi sem Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um Réttindi fatlaðs fólks kveður á um. Ísland hefur fullgilt sáttmálann en hann hefur þó ekki verið lögfestur eins og baráttufólk fyrir mannréttindum fatlaðs fólks hefur ítrekað kallað eftir.
Þrátt fyrir að í lögfestingunni felist gríðarlegum áfangasigur er enn langt í land. „Við erum til dæmis mjög ósátt við það að settur sé kvóti á það hversu margir einstaklingar geti nýtt sér NPA þjónustu með aðkomu ríkisins samkvæmt þessum lögum. Mannréttindi eru algild og þau ætti aldrei að binda í kvóta, “ segir Rúnar. Hann tekur fram að lögfestingin sé ákveðið ljós í myrkrinu á meðan umfjöllun um óforsvaranlega stofananavæðingu gagnvart fötluðum einstakling á sér stað í samfélaginu.
Sveitarfélög hefjist þegar handa
Öryrkjabandalag Íslands hvetur sveitarfélög landsins til að hefjast strax handa við að fjölga NPA samningum nú þegar ljóst er að lögfesting er í höfn. Mikilvægt er að leiðrétta þann miskilning að sveitarfélögum sé ekki heimilt að gera fleiri samninga en þá sem ráðuneytið hefur fallist á að greiða með. „Við viljum árétta að sveitarfélögin hafa fullt frelsi til að gera eins marga samninga og hægt er og viljum auðvitað hvetja þau til að vinda sér strax í það mál því reynslan af þessu þjónustuformi er mjög góð og ekki síst út frá sjónarhóli notendanna. Þetta má alls ekki dragast í mörg ár í viðbót,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.