Lýðheilsuvísar eftir heilbrigðusumdæmum á Íslandi
Embætti landlæknis hefur sett saman lýðheilsuvísa fyrir hvert heilbrigðisumdæmi á Íslandi.
Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar og áhrifaþætti þeirra.
Lýðheilsuvísarnir voru kynntir í Safnahúsinu við Hverfisgötu fyrr í dag og birtast þeir nú einnig á vef embættisins.
Svæðisbundinn munur á heilsu
Svæðisbundinn munur á heilsu, líðan og áhrifaþáttum þeirra er þekktur um allan heim. Almennt er lítið vitað um svæðisbundinn mun á heilsu og líðan á Íslandi en þó benda rannsóknir til þess að einhver mismunur sé til staðar.
Til að draga sem mest úr svæðisbundnum mun á heilsu og líðan þarf að fylgjast með mælingum sem gefa þennan mun til kynna og miðla upplýsingunum til þeirra sem starfa á vettvangi þannig að þeir geti brugðist við.
Markmið með birtingu
Birting lýðheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi er liður í því að veita yfirsýn yfir heilsufar í hverju umdæmi fyrir sig. Það auðveldar sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðuna í sínu umdæmi, finna styrkleika og veikleika og skilja þarfir íbúanna þannig að þau geti unnið saman að því að bæta heilsu og líðan.
Svæðisbundnir lýðheilsuvísar nýtast þeim samfélögum sem vilja leggja áherslu á heilsu og líðan íbúanna með aðild að Heilsueflandi samfélagi og Heilsueflandi skóla.
Hagnýting lýðheilsuvísa
Lýðheilsuvísarnir verða kynntir frekar á vinnustofum sem Embætti landlæknis mun halda í öllum landsfjórðungum. Þar verða einnig kynntar hugmyndir um það hvernig nýta megi lýðheilsuvísana til að vinna að markvissu lýðheilsustarfi.
Sveitarfélög sem gerast Heilsueflandi samfélög geta einnig fengið nánari greiningu á lýðheilsuvísum fyrir sitt svæði, þar sem því verður við komið, í samvinnu við embættið.
Upptökur á erindum frá kynningunni í Safnahúsinu:
- Ávarp: Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
- Hvers vegna lýðheilsuvísar? Birgir Jakobsson, landlæknir
- Lýðheilsuvísar tengdir lifnaðarháttum: Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis
- Lýðheilsuvísar tengdir heilsu og sjúkdómum: Sigríður Haraldsdóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá Embætti landlæknis
- Lýðheilsuvísar í Reykjavík: Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri
Sigríður Haraldsdóttir sviðsstjóri
Af vef landlaeknir.is