Mataræði og hjarta-og æðasjúkdómar - Breyttar áherslur, Axel F. Sigurðsson hjartalæknir skrifar (seinni hluti)
Breyttar áherslur.
Fjöldi rannsókna sem birtar hafa verið á síðustu árum benda til að breyta þurfi áherslum varðandi ráðleggingar um mataræði til að draga úr tíðni langvinnra lífstílssjúkdóma.
Þessar áherslur snerta meðal annars ráðleggingar um saltnotknun, mismundandi tegundir fitu svo og hlutverk kolvetna og viðbætts sykurs.
Almennt er markmið ráðlegginga um mataræði að tryggja að almenningur fái öll nauðsynleg næringarefni sem líkaminn þarf til að viðhalda heilsu auk þess sem áhersla er lögð á fæðuval sem líklegt er til að hjálpa fólki að viðhalda eðlilegri líkamsþyngd og draga úr líkum á sjúkdómum.
Síðustu fimmtíu ár hefur ríkuleg áhersla verið lögð á mikilvægi þess að draga úr fituneyslu, sérstaklega neyslu mettaðrar fitu og kólesteróls.
Nýlegar rannsóknir benda hins vegar til að þess að þessar ráðleggingar hafi ekki verið á rökum reistar og þurfi því að endurskoða.
Kólesteról í fæðu
Um árabil hafa læknar ráðlagt sjúklingum með hjarta-og æaðsjúkdóma að forðast egg vegna þess að þau innihalda tiltölulega mikið magn kólesteróls og ættu samkvæmt því að geta valdið hækkun kólesteróls í blóði sem álitið er slæmt.
Nú hafa fjölmargar rannsóknir sýnt að neysla kólesteróls veldur sjaldan mikilli hækkun á kólesteróli í blóði auk þess sem faraldsfræðilegar rannsóknir hafa ekki sýnt fylgni á milli neyslu á kólesteróli og hættunnar hjarta-og æðasjúkdómum.
Flestum er ljóst að egg eru holl og næringarrík fæða og því dapurlegt til þess að hugsa að þau skuli hafa verið á eins konar bannlista um áratuga skeið.
Flestir sérfæðingar telja nú að ekki sé ástæða til að vara fólk við að neyta eggja eða annarrar fæðu sem er rík af kólesteróli.
Mettuð fita
Um áratuga skeið hafa lýðheilsuyfirvöld mælt með því að neyslu á mettaðri fitu sé haldið í lágmarki. Meginrökin á bak við þessa ráðleggingu er sú að sýnt hefur verið fram á að mikil neysla mettaðrar fitu hækkar oft kóleserólmagn í blóði.
Margir sérfræðingar telja að minnkuð neysla á mettaðri fitu síðustu árin skýri lækkun sem orðið hefur á kólesteróli í blóði víða á vesturlöndum, m.a. hér á landi.
Hins vegar kunna margir aðrir þættir að skýra lækkun kólesteróls í blóði og er ekki hægt að ganga út frá því að þessi lækkun sé eingöngu vegna minni neyslu á mettaðri fitu. Sem dæmi má nefna að talið er að einungis 20% af lækkun þeirri sem varð á kólesteróli meðal Bandarikjamanna á árabilinu 1980-2000 megi rekja til breytinga á fituneyslu. Þá er talið að ekkert af lækkun kólesteróls í blóði meðal Frakka á sama tímabili skýrist af breyttri fituneyslu.
Á síðustu árum hafa fjölmargar faraldsfræðilegar rannsónknir sýnt að ekki er fylgni á millu neyslu á mettaðri fitu og hættunnar á hjarta-og æðasjúkdómum.
Sambærilegar rannsóknir benda til að óæskilegt sé að skipta út mettaðri fitu fyrir kolvetni.
Þótt margir sérfæðingar telji nú að ekki sé þörf á að vara við neyslu mettaðrar fitu er líklegt að ein-og fjölómettaðar fitusýrur séu almennt betri kostur þegar markmiðið er að draga úr hættunni á hjarta-og æðasjúkdómum.
Viðbættur sykur
Margt bendir til að vð höfum vanmetið hlut sykurneyslu í tilurð hjarta-og æðasjúkdóma. Rannsóknir sýna að neysla viðbætts sykurs eykur hættuna á sykursýki af tegund 2 sem er sterkur áhættuþáttur fyrir hjarta-og æðasjúkdómum.
Líklegt er að minnkuð sykurneysla hér á landi geti bætt lýðheilsu verulega, dregið úr hættu á offitu og sykursýki af tegund 2, og haft jákvæð áhrif á tilurð hjarta-og æðasjúkdóma.
Nokkuð ljóst er að ráðleggingar lýðheilsuyfirvalda um að draga úr fituneyslu voru matvælaframleiðendum hvatning til að framleiða fituskertar vörur, t.d. mjólkurvörur sem oft innihalda mikið af viðbættum sykri. Fáir efast í dag um að mikil neysla á unnum kolvetnum og viðbættum sykri sé ein af ástæðum offitufaraldursins sem nú herjar á Vesturlandabúa.
Saltneysla
Lýðheilsuyfirvöld hafa lengi bent á að saltneysla vesturlandabúa sé allt of há. Því hefur verið lögð áhersla á að draga úr saltneyslu almennings og enda talið að það muni hafa jákvæð áhrif á lýðheilsu. Mælt hefur verið með að ekki sé neytt meira en 2.300 milligramma af salti (natríumklóríð) á dag.
Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að mataræði með lágu saltinnihaldi hefur jákvæð áhrif á sjúklinga sem glíma við háþrýsting. Hins vegar hafa sérfræðingar nýverið varað við því að slíkar rannsóknarniðurstöður séu heimfærðar á almenning, ekki síst í ljósi þess að nýlegar rannsóknir hafa sýnt að of lítil saltneysla getur verið skaðleg fyrir heilbrigða einstaklinga.
Líklegt er að mest af því salti sem við neytum komi úr unnum matvælum og er ólíklegt að hófleg saltnotkun við neyslu ferskra óunnina matvæla sé skaðleg.
Miðjarðarhafsmataræðið
Á síðustu árum hafa fjölmargar rannsóknir sýnt jákæð áhrif Miðjarðarhafsmataræðisins, ekki síst þegar kemur að hjarta-og æðsjúkdómum. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta mataræði upprunnið frá löndum við Miðjarðarhafið og er aðallega kennt við Suður-Ítalíu og Grikklandi.
Meginuppistaða Miðjarðarhagsmataræðisins eru ávextir, grænmeti, heilkorn, pasta, baunir, fræ, ólífur og ólífuolía. Einnig er lögð áhersla á neyslu sjávarfangs af ýmsu tagi, jógúrts, osta og eggja í hófi. Hvað kjöt varðar er aðallega mælt með alífuglakjöti, neysla á rauðu kjöti er lítil. Sætinda er neytti í hófi.
Miðjarðarhafsmataræðið er tiltölulega fituríkt. Stærsti huti fitunnar kemur úr sjávarafurðum, ólífuolíu, hnetum og fræjum. Ólífuolía er notuð alfarið í stað smjörs og smjörlíkis.
Víndrykkja tilheyrir Miðjarðarhafsmataræðinu. Þó er um að ræða mjög hóflega drykkju, ekki meira en eitt vínglas á dag fyrir konur og tvö fyrir karla.
Lokaorð
Mikill árangur hefur náðst í baráttunni við hjarta-og æðasjúkdóma og er það ekki síst að þakka minni reykingum og almennt heilbrigðara líferni. Þrátt fyrir þetta þetta hefur tíðni offitu og sykursýki aukist hratt og er líklegt að þetta muni valda versnandi lýðheilsu hér á landi á næstu árum með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.
Nýlegar rannsóknarniðurstöður benda til að fituneysla sé almennt ekki eins skaðleg og álitið var. Líklegt er að skilaboð lýðheilsuyfirvalda til matvælaframleiðanda um að draga úr fituneyslu leitt til aukinnar neyslu óhollra kolvetna og viðbætts sykurs.
Í nýlegum norrænum leiðbeiningum um mataræði er lögð meiri áhersla á gæði fitu en magn hennar. Þá er mælt með heldur minni kolvetnaneyslu en áður þótt hlutur kolvetna sé enn hár. Líklegt er að ráðleggingar sérfræðinga eigi eftir að breytast enn frekar í þessa átt á næstu árum. Norrænu leiðbeiningarnar mæla með að kolvetni komi sem mest úr trefjaríkri fæðu frá nátturunnar hendi eins og t.d. heilkornavörum, grænmeti og ávöxtum.
Að lokum er rétt að hvetja alla sem vilja forðast offitu og hjarta-og æðasjúkdóma til að neyta grænmetis og ávaxta í ríkum mæli. Það er á ábyrgð stjórnvalda að sjá til að slíkar hollustuvörur séu aðgengilegar almenningi á viðráðanlegu verði.
Höfundur greinar:
Axel F. Sigurðsson hjartalæknir, Dr. Med