Meðganga - grein frá netsjúkraþjálfun
Margvíslegar breytingar eiga sér stað í stoðkerfi líkamans á meðgöngu.
Það slaknar á öllum liðböndum líkamans og þá sérstaklega á liðböndum mjaðmagrindar.
Vegna þess hve liðböndin eru mjúk getur hreyfing liða aukist og þá sérstaklega í mjaðmagrindinni.
Þegar líður á meðgönguna og bumban og brjóstin fara að stækka þá er hætt við að axlir fari að dragast fram, höfuðstaða verði framstæð og að mjóbakssveigjan aukist.
Mjaðmagrindarverkir á meðgöngu geta stafað af nokkrum þáttum. Til dæmis ef of lítil vöðvaspenna er til staðar að þá getur það orðið til þess að vöðvarnir ná ekki að halda nógu vel við liðina sem eru lausir vegna slakra liðbanda. Þessar konur eru oftar en ekki með lélega líkamsstöðu og beita sér ekki rétt. Einnig er til í dæminu að konur séu með of mikla vöðvaspennu, þá eru þær oft með aukna mjóbakssveigu og mikla spennu í rassvöðvum sem getur leitt af sér verki.
Hreyfing á meðgöngu hefur góð áhrif, líkamleg og andleg. Gott er þó að miða við að auka ekki á ákefð (miðað við fyrir meðgöngu) og einnig að byrja ekki á einhverju nýju. Ekki vera hræddar við að mæðast aðeins, gott viðmið er að geta spjallað á meðan.
Einnig er mikilvægt að huga að grindarbotninum, gott er að gera grindarbotnsæfingar reglulega á meðgöngu þar sem sterkir grindarbotnsvöðvar eru líklegri til að gefa betur eftir sem hjálpar gjarnan til í fæðingunni. Einnig er mikilvægt að byrja sem fyrst eftir fæðingu að gera grindarbotnsæfingar. Bæði þarf að þjálfa úthald og hámarksstyrk.
Þegar þú spennir grindarbotnsvöðvana átt þú að finna botn mjaðmagrindar lyftast aðeins upp og inn á við. Þetta verður án meðhreyfinga í efri hluta líkamans, mjaðmagrind eða fótum. Andaðu eðlilega á meðan þú spennir vöðvana.
Margar konur spenna rass-, lær-, kvið-, eða öndunarvöðva í stað grindarbotnsvöðva. Einstaka kona þrýstir niður, rembist, en það hefur gagnstæð áhrif. Einnig er gott að hugsa um að spenna alltaf grindarbotnsvöðva þegar kviðvöðvar eru þjálfaðir og þegar þungum hlutum er lyft.
Grein frá netsjukrathjalfun.is