Meðvirkni aðstandenda
Meðvirkni er hugtak sem mest hefur verið notað kringum vímuefnamisnotkun og þá hvernig misnotkun á vímuefnum hefur áhrif á aðstandendur fíkilsins.
Meðvirkni kemur fram á margvíslegan hátt en algengt er að meðvirkur einstaklingur upplifi sig fastan í einhverskonar óþægilegri tilveru og finnist hann ekki hafa mátt til að breyta neinu. Meðvirkur einstaklingur er einstaklingur sem er “háður” öðrum einstaklingi eða einstaklingum. Þetta eru oft einstaklingar sem hafa brotna sjálfsmynd og þekkja ekki mörk, hvorki eigin mörk né mörk annarra.
Meðvirkir einstaklingar leita gjarnan eftir viðurkenningu annarra til þess að upplifa vellíðan og eru stöðugt að þóknast öðrum þótt þeir vilji það í raun og veru ekki. Þeir treysta á aðra til að segja til um hverjar þarfir þeirra séu því að meðvirkir einstaklingar þekkja sjaldnast eigin þarfir en eru “hugsanalesarar” þegar kemur að þörfum annarra. Allur kraftur fer í að passa upp á “hamingju annarra” frekar en sína eigin.
Meðvirkir einstaklingar kenna sjálfum sér um þegar illa fer. Þeim finnst erfitt að vera einir, segja ekki skoðun sína vegna hræðslu um að vera hafnað og ljúga til þess að verja og hylma yfir með þeim sem þeir elska. Meðvirkir einstaklingar finna oft fyrir stöðugum kvíða, án þess að geta tengt hann við nokkuð sérstakt.
Þeir eiga erfitt með að tengjast öðrum og njóta lífsins og geta ekki séð að það séu þeir sem þurfa að breyta einhverju til þess að þeim geti liðið betur.
Allt lífið snýst um að þóknast fíklinum og þá er mjög algengt að börnin í fjölskyldunni gleymist. Meðvirkni þarf ekki að einskorðast við aðstandendur vímuefnaneytenda. Hún getur einnig orðið mjög sterk hjá aðstandendum langveikra, geðsjúkra og annarra þeirra sem búa við langvarandi erfiðleika.
Meðvirkni er nægjanleg ástæða til að leita sér ráðgjafar, því að meðvirkum einstaklingi líður yfirleitt mjög illa. Börnin í meðvirkum fjölskyldum þjást, og í raun og veru styður meðvirknin vímuefnaneyslu eða aðra neikvæða hegðun.. Læri meðvirkur einstaklingur að þekkja vandann, leiti aðstoðar og byggi upp sjálfsmynd sína, getur hann losnað úr þessum vítahring. Það er því í raun mjög mikilvægt að leita sér einhvers konar aðstoðar, því að meðvirkur einstaklingur, sem gerir ekkert annað en að flýja aðstæðurnar t.d. að yfirgefa maka sinn eða flytja úr landi á það á hættu að lenda aftur í meðvirkum samskiptum.
Mikilvægt er að byggja upp sterka sjálfsmynd og gott sjálfstraust, þekkja mörk og hvað er eðlilegt og óeðlilegt í samskiptum fólks, og vinna með þau “meðvirku” samskipti sem einstaklingurinn hefur verið í.