Fara í efni

Megrunarvaran Chili-Burn með græn-te extrakti tekin úr sölu í Skandinavíu !!!

Enn ein skyndifærslan, nú að gefnu mjög alvarlegu tilefni
Chiliburn tafla
Chiliburn tafla

Mundir þú kaupa þér lottómiða ef ónýt lifur væri vinningurinn, jafnvel þó miðanum fylgdi eitt eða tvö kíló minna á vigtinni tímabundið? 

Ég hef margsinnis sagt það hér á blogginu og annarsstaðar að það eru ekki til nein efni eða lyf sem hjálpa við megrun að neinu gagni. 

Mörg þeirra efna sem seld eru sem megrunarhjálp eru beinlínis hættuleg og hættan er ekki alltaf augljós eða algeng heldur getur hún rétt eins hitt fyrir þá sem telja sig unga og fríska.

Norska útvarpið NRK skýrir frá því rétt í þessu að verslanakeðjan  „Life“ sem selur Chili-Burn í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hætti sölu á því strax. 

Í gær sagði NRK frá 33 ára gamalli konu  sem fékk lifrarbilun með gulu (myndin) eftir neyslu Chili-Burn sem inniheldur extrakt úr grænu tei. 

hh
Sérfræðingur norska lyfjaeftirlitsins segir í frétt NRK að vörur sem innihalda extrakt af grænu tei hafi verið tengdar fjölmörgum tilfellum af lifrarskemmdum og ómögulegt sé að segja fyrir um hverjir þoli þessi efni. Þessi kona er að jafna sig en það eru ekki allir svo heppnir.  

Á Íslandi er þessi vara auglýst af fyrirtækinu IceCare. Hún er sögð innihalda Chili og extrakt af grænu tei. 

Extrakt af grænu tei er í mörgum vörum sem seldar eru á Íslandi með fullyrðingum um megrun. Með „extrakt“ er átt við að efnið sé unnið þannig að styrkur þess verði meiri. stundum þýtt „útdráttur“ eða „þykkni“

Vitað er að til eru einstaklingar sem þola ekki slíkt efni. Ekki er hægt að sjá fyrir hverjir það eru.

Mikil aukning hefur orðið í lifrarbilunum sem talið er stafa af sókn í megrunarvörur og hér segir New York Times frá Christopher sem bíður eftir lifrarskiptum Hann veiktist líka af því að neyta extrakts úr grænu tei. Sumt fólk þolir ekki einu sinni skammta sem taldir eru undir eitrunarmörkum. 

Varað hefur verið við þessari sjaldgæfu en alvarlegu hættu margoft áður. Meðal annars hér.

Gott og fróðlegt viðtal við einn helsta sérfræðing okkar um efnið er hér . 

Það flæða yfir okkur auglýsingar um alls konar vörur sem eiga að hjálpa til við megrun. Fólk grípur með sér dollu af þessu og hugsar sem svo að það tapi varla neinu þó það prófi. 
Engin þessara efna er peninganna virði eins og áður hefur komið fram enda nota söluaðilarnir óspart orðin „...er talin geta....“ í auglýsingunum og fyrir neðan innihaldslýsingu þeirra er nánast alltaf fyrirvari um að varan sé ekki ætluð til að bæta eða meðhöndla á sjúkdóma eða kvilla. 

Neytendaverndin er lítils megnug, hefur lítll fjárráð, litla kunnáttu og lítið vald til þess að beita sér.

Sem sagt... Það er verið að gabba ykkur. Það gabb getur reynst einstaka manneskju lífshættulegt. Lifrarbilun er dauðans alvara! Þó hættan sé kannski sú sama og að vinna í lottó þá er það ekki þess virði því þetta efni virkar lítið sem ekkert og alls ekki varanlega.

jj

Eftir að hafa kynnt mér málið skil ég ekki hvers vegna leyft er að selja vörur sem innihalda extrakt af grænu tei?

Hér eru nokkrar vörur seldar á Íslandi sem ég hef fundið við lauslega leit sem innihalda extrakt af grænu tei.

  • Chili-Burn Söluaðili: Icecare EHF
  • Raspberry Ketones* with green tea Söluaðili: Gengur Vel EHF
  • Metasys hylki Söluaðili: Gengur Vel EHF
  • Berry.En sumar vörurnar innihalda þetta  Söluaðili: Berry.En - marglaga sölukerfið 
  • Verve Par Tea  Söluaðili: Vemma - marglaga heimasölukerfið
  • Herbalife grænt te  Söluaðili: Heralife - marglaga sölukerfið
  • Reflex green tea weight management Söluaðili: Prosport
  • CLA & Green tea  Söluaðili: Sportlíf
  • 3-in-1 Þyngdarstjórnunarefni  Söluaðili: Gengur Vel EHF  (viðbót 3/10/2014) 

*Ég hef fjallað um þessa vöru og sýnt fram á að fullyrðingar um virkni og eðli hennar standast ekki. 

Þessi listi er alls ekki tæmandi. Hann er að sjálfsögðu með fyrirvara um villur og að vörurnar séu enn seldar en þetta eru vörur sem ég fann auglýstar í dag við lauslega leit á netinu.

Ef þú hefur keypt vöru sem inniheldur extrakt af grænu tei þá skaltu skila henni og fá peningana til baka. Ef þér er neitað um endurgreiðslu þá skaltu endilega leita til Neytendastofu

03.10.2014: bætt við í lista yfir vörur sem innihalda Green Tea Extract. og listinn lítillega lagfærður. 

Björn Geir Leifsson, læknir.