Merking orða og skynjun sannleika þeirra - hugleiðing Guðna á fimmtudegi
Hvernig gengur þér í tilganginum?
Og veistu til hvers ganga þín liggur?
Tungumálið segir okkur djúpan sannleika sem hefur verið til staðar í því allan tímann en við höfum verið of blind til að sjá. Ég elska það þegar ég sé orðin fyllilega, þegar ég sé loksins samhengið í merkingu orðs og skynja sannleika þess til fulls.
Tilgangur. Til-gangur.
Er hægt að skapa skýrara orð?
Áður en ég frelsaðist frá oki hugans og lærði að hlusta á hjartað og öruggan slátt þess var ég eins og lauf í vindi. Og merkilegt nokk þá er þetta lýsing sem margir skjólstæðinga minna nota þegar þeir koma fyrst til mín:
„Ég er eins og lauf í vindi. Ég fýk til og frá og lendi hér og þar og hvergi; kem við á mörgum stöðum sem ég ætlaði mér aldrei að mér vitandi að fara á og geri hluti sem ég hefði aldrei ákveðið sjálfur að gera,“ sagði einn þeirra, með þunga brún og fjarræn augu, föst í eftirsjá eftir glötuðum tíma.
„En hvernig komstu hingað?“ spyr ég á móti. „Hingað til mín? Hvernig komstu hingað og af hverju komstu hingað?“
„Tja, ég kom hingað af því að ég vildi það – af því að ég vildi losna og frelsast undan þjáningunni,“ svarar hann.
„Af því að þú vildir það – í þínum eigin vilja.
En þú hefðir aldrei ratað hingað nema vegna þess að áður varstu lauf í vindi. Þú ákvaðst fyrir löngu að verða lauf í vindi – að láta þig berast á sviptivindum sjálfsvorkunnar, án ábyrgðar – til þess að geta alltaf bent á einhvern annan og lýst hann ábyrgan. Þú ákvaðst að komast hingað og til þess þurftirðu að ákveða, í eigin vilja fyrir mörgum árum, að verða lauf í vindi; til þess þurftirðu að ferðast með vindinum inn í aðstæður sem særðu þig nóg til að þú vildir koma hingað. Sjálfviljugur.
Viljinn var alltaf til staðar, óviljandi.
En alltaf þinn. Alltaf.
Afleiðingarnar af þeirri hegðun sem hingað til hefur stjórnað þér, hvatvísi og áhrifagirni í duldum tilgangi, er nú hægt að líta á sem tækifæri til sjálfsskoðunar og vaxtar. Það er alltaf þinn vilji. Hann verður alltaf að veruleika. Þú ert aldrei viljalaus.“