Fara í efni

Mexíkóskar kjötbollur

Frábær og fljótlegur réttur, fullkomin í miðri vikunni.
Mexíkóskar kjötbollur
Mexíkóskar kjötbollur

Frábær og fljótlegur réttur, fullkomin í miðri viku. Afangurinn er svo tilvalinn í nestisboxið. 

Mér finnst svo mikil snilld að geta bakað kjötbollurnar í ofninum frekar en að steikja á pönnu, því þegar ég hef gert það hefur það tekið svo langan tíma og verður svo mikil bræla. 

Það sem er líka sniðugt er að það má útbúa "deigið" daginn áður og eiga tilbúið inni í ísskáp til að flýta fyrir.

 

 

Hráefni:

  • 500 g hakk
  • 1- 1,5 dl möndlumjöl
  • 1 egg
  • 1/2 laukur
  • 1 sellerístöngull
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 tsk grænmetiskraftur
  • 1 msk oregano
  • 1/2 msk paprikuduft
  • 1 tsk cumin
  • 1 tsk cajun barbeque krydd frá Pottagöldrum

Það má krydda bollurnar ennþá meira því möndlumjölið er svolítið sætt og því gott að krydda vel á móti. 

Aðferð:

  1. Blandið hakki, kryddi og eggjum saman í skál.
  2. Maukið sellerí, lauk og hvítlauk í matvinnsluvél (þessar litlu sem fylgja töfrasprotanum eru alger snilld í þetta) og bætið út í. Getið líka bara saxað smátt eða jafnvel sleppt ef þið nennið engu veseni.
  3. Þykkjið "deigið" með möndlumjöli þangað til hægt er að móta bollur.  Gæti þurft minna eða meira en uppskriftin segir til um.  Ef þið sleppið því að mauka selleríið og laukinn þurfið þið minna af möndlumjöli.
  4. Mótið bollur, raðið í eldfast mót og bakið í 20 mín við 200°C

Guacamole:

  • 1 avókadó
  • Safi úr lime, 1 msk (uþb.)
  • 1 hvítlauksrif
  • 1/2 tsk cumin
  • salt og pipar

Maukið avokadó með töfrasporta eða stappið með gafli, kreystið lime safann yfir, bragðbætið með hvítlauk, salti og cumin.

Ferskt salsa:

  • nokkrir vel þroskaðir tómatar
  • vorlaukur
  • smá salt
  • Safi úr lime, 1-2 msk

Brytjið tómatana og vorlaukinn smátt, setjið salt og lime yfir.

Á myndinni var ég reyndar ekki með salsa heldur bara salat en salsað er alveg afskaplega gott með og hér er komið tilefni til að búa þessar bollur til mjög fljótlega aftur og þá með salsanu :)