Mikilvægt að þreifa brjóstin og þá sérstaklega fyrir konur yfir fertugt
Mælt er með því að hver kona skoði sjálf og þreifi brjóst sín í hverjum mánuði.
Með því að þekkja brjóstin vel gerir þú þér frekar grein fyrir því þegar einhverjar breytingar verða.
Einu sinni í mánuði
Gildi þessarar sjálfskoðunar er sérstaklega mikilvægt fyrir konur sem komnar eru yfir fertugt. Krabbameinsfélagið mælir með því að brjóstin séu þreifuð einu sinni í mánuði og þá helst viku til tíu dögum eftir að blæðingar hefjast. Sértu komin yfir tíðahvörf er gott að halda sig við ákveðinn tíma í hverjum mánuði. Mjög gott er að þreifa brjóstin þegar farið er í sturtu og/eða út af liggjandi
Farðu eftir þessum leiðbeiningum frá Krabbameinsfélaginu
Horfðu fyrst á brjóstin í spegli, áður en þú þreifar þau, bæði með hendur niður með hliðum og með hendur spenntar á hnakka.
Þreifaðu vinstra brjóst með hægri hendi og notaðu til þess alla fingur nema þumalfingur en settu jafnframt vinstri hönd á hnakka. Til að koma í veg fyrir að einhver hluti brjóstsins verði út undan skaltu hreyfa fingurna eftir reglubundnu mynstri.
Best er að ímynda sér að brjóstið sé klukka þar sem tólf veit upp og sex niður.
Byrjaðu á að þreifa þann stað efst á brjóstinu sem svarar til stöðu vísanna þegar klukkan er tólf. Farðu síðan allan hringinn frá klukkan tólf til eitt og síðan tvö og þannig koll af kolli.
Þegar þú kemur á byrjunarreit skaltu færa fingurgómana þumlungi nær geirvörtunni og þreifa síðan aftur heilan hring.
Endurtaktu þetta þar til þú kemur að geirvörtunni. Þreifaðu hana sérstaklega og kreistu létt milli þumals og vísifingurs til að kanna hvort vökvi komi úr brjóstinu.
Temdu þér ákveðnar hreyfingar, en þrýstu þó ekki of fast. Hætta er á að þú finnir ekkert ef þú þrýstir of fast eða of laust. Þreifaðu síðan hægra brjóstið á sama hátt með vinstri hendi og settu hægri hönd á hnakka. . . LESA MEIRA