Fara í efni

NÆRING MÓÐUR OG BARNS – nýr vefur opnaður

Nýlega var opnað gagnvirkt vefsvæði, Næring Móður og Barns (www.nmb.is) ætlað barnshafandi konum og foreldrum ungra barna.
NÆRING MÓÐUR OG BARNS – nýr vefur opnaður

Nýlega var opnað gagnvirkt vefsvæði, Næring Móður og Barns (www.nmb.is) ætlað barnshafandi konum og foreldrum ungra barna.

Barnshafandi konur geta þar svarað stuttum spurningarlistum  um mataræði sitt þrisvar sinnum á meðgöngunni og fengið einstaklingsmiðaða endurgjöf byggða á svörum spurninga. Meðal annars er með spurningunum kannað hvort hætta sé á að neysla á næringarefnum sem gegna lykilatriði í fósturþroska sé of lítil. Á vefsvæðinu geta foreldrar einnig fengið endurgjöf á fæðuval fyrir börn sín upp að 18 mánaða aldri, auk þess að halda utan um þyngdaraukningu á meðgöngu og vaxtarkúrfur barna. Á nmb.is er að finna yfir 30 fræðslutexta sem byggja á nýjustu rannsóknum um næringu á meðgöngu og um næringu ungbarna. Hugmyndasmiður www.nmb.is er dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor í næringarfræði, en hún hefur stundað rannsóknir á þessu sviði síðastliðin 15 ár.

ENGINN NÆRINGARFRÆÐINGUR ER STARFANDI Í MÆÐRAVERND EÐA UNG- OG SMÁBARNAVERND Á ÍSLANDI

Þekking á mikilvægi næringar á meðgöngu og fyrstu tvö ár ævinnar aukist mjög mikið á síðastliðnum árum. Þar sem enginn næringarfræðingur er starfandi í mæðravernd eða ung- og smábarnavernd á Íslandi er hætt við því að þekkingin skili sér ekki nægjanlega vel til barnshafandi kvenna og foreldra ungra barna.

Að baki næringarkönnunum www.nmb.is, bæði fyrir barnshafandi konur og foreldra ungra barna, liggur mikil þekking og rannsóknir á því hvaða fæðutegundir séu helstu uppsprettur næringarefna gegna lykilhlutverki fyrir fósturþroska og þroska barna. Bendi svör notenda til þess að neyslan gæti verið og lítil birtist ábending þar að lútandi.

Á meðgöngu er spurt er um neyslu valinna fæðutegunda með það fyrir augum að fá heildarmynd af mataræðinu. Rannsóknir benda til þess að konur sem tileinka sér hollt mataræði á meðgöngu þyngjast síður úr  hófi á meðgöngunni, fá síður alvarlega fylgikvilla á borð við meðgöngusykursýki og meðgöngueitrun auk þess sem þær eiga auðveldara með að ná af sér aukakílóum eftir barnsburð. Notandinn fær stig fyrir hollustu og mínusstig fyrir óhollustu þar sem það á við. Hollustu- og óhollustustig NMB spurningalistans byggja á norrænum og íslenskum ráðleggingum um næringarefni og fæðuval, upplýsingum um neysluvenjur íslenskra kvenna á barneignaaldri sem og nýlegum rannsóknum á tengslum fæðuvals kvenna á meðgöngu við heilsu móður og barns. 

VARÐVEISLA ÓMETANLEGRA MINNINGA

Vefsvæðið býður einnig upp skemmtilega möguleika fyrir foreldra eldri barna. Þeir sem eiga enn  heilsufarsbækur barna sinna geta skráð inn upplýsingar um hæð og þyngd barna sinna á www.nmb.is og varðveitt þær þar. Eins ef tími er kominn til að mála vegginn í eldhúsinu þar sem hæðarmælingar barnanna eru skráðar þá er um að gera að koma þeim fyrir á NMB til varðveislu. Á NMB er hægt að bera saman á línuriti hvenær börnin tóku vaxtarkippi, hvað „Jón“ var stór þegar hann var 8 ára miðað við „Gunnu“ eða „Sigga“. Eins má bæta inn hæð og þyngd foreldranna í barnæsku séu þær upplýsingar aðgengilegar.

TRAUSTUR OG ÓHÁÐUR VEFUR

Frá upphafi var það markmiðið að rekstur NMB yrði óháður auglýsingum frá framleiðendum matvæla og fæðubótarefna. www.nmb.is er traustur og óháður vefur og eru þær upplýsingar sem birtast á síðunni studdar af vísindalegum niðurstöðum, miðað við stöðu þekkingar í dag, en án markaðsáhrifa.

Til að rekstur vefsins gangi munu notendur greiða áskriftargjöld.