Nánari útfærsla á markmiðunum - Guðni og hugleiðing dagsins
Framkvæmdaáætlun er nánari útfærsla á markmiðunum – hvernig ætlarðu að haga framgöngunni, t.d. í ljósi aðstæðna þinna?
Í beinum aðgerðum væri hægt að hugsa sér svona ferli:
Ég sest niður til að skoða gildin mín og ákveð að hjálpsemi sé eitt af þeim. Með hjálpsemi að leiðarljósi ákveð ég tilgang minn: „Ég elska heiminn og þjóna honum með því að láta gott af mér leiða.“
Ég nota þennan tilgang sem ljós sýnarinnar sem varpar mynd og skapar umgjörð fyrir markmiðin mín – tímasett, framkvæmanleg, nákvæm, trúverðug og mælanleg. Ég set mér nokkur markmið:
1) Að ganga í Rauða krossinn fyrir 1. janúar 2019 2) Að fara til Afríku fyrir 1. janúar 2020 og verja þar einu ári við hjálparstarf
Sýnin er myndin sem afmarkar markmiðin og skapar þeim umgjörð. Sýnin er ljósstyrkurinn, ástríðan, heimildin – en ómælanleg og ótímasett. Sýnin getur breyst frá degi til dags. Þegar ég hef skýra og háleita sýn sem er byggð á traustum tilgangi mun ég setja mér háleit markmið. Ég fer ekki lengra en ég sé – þegar ástríða mín gagnvart tilganginum og markmiðunum er ekki sterk þá er sýnin takmörkuð. Sýnin er birtingarmynd markmið- anna og hún opinberar heimildina – þegar þú getur ekki séð fyrir þér það sem þú telur að þú viljir skapa þá þarftu að endurskoða markmiðin og tilganginn. Ef við höfum ekki heimild núna þurfum við að endurskoða þær ábyrgðir sem við höfum tekið og endurskoða fyrirgefninguna; hvort við höfum sannanlega búið til það rými í eigin lífi sem þarf til að öðlast velsæld.