Nokkrar staðreyndir um fitu og hvaða áhrif meðvitund um fitu í mataræði getur haft
Nokkrar staðreyndir um fitu og hvaða áhrif meðvitund um fitu í mataræði getur haft
Fita inniheldur töluvert meiri orku en kolvetni og prótein gera, eða um tvöfalt meiri. Of mikil fita úr fæðu er auk þess líklegri til að safnast á líkamann sem fituforði í fitufrumum líkamans en mest er af fitufrumum undir húðinni. Það má ekki gleyma því að við þörfnumst fitu úr fæðunni en hófsemi í fituneyslu er þó best til langframa, eins og hófsemi er á öðrum sviðum.
Það að gera sér grein fyrir fitumagni í matvælum getur reynst vel við að gæta að heildar magni af fitu og mettaðri fitu sem borðuð er.
Brauð og viðbit helst gjarnan hönd í hönd en brauðmáltíðir geta vel verið hollar sé brauðið gróft og áleggið og viðbitið í magrari kantinum. Hins vegar ef að borðaðar eru tvær sneiðar af grófu brauði fimm daga vikunnar allt árið um kring, sem er í sjálfu sér í góðu lagi, og hver þeirra smurð með um 8 g af Smjöri eða Smjörva (eitt lítið smjörstykki er 10 g) þá erum það í heildina 4 kg af Smjöri eða Smjörva sem er eitt og sér alls 36.000 hitaeiningar (kcal). Það segir sig sjálft að þetta eru margar hitaeiningar sem auðvelt er að minnka um helming með því að smyrja helmingi minna á brauðið. Sama gildir ef að Smjörinu eða Smjörvanum er skipt út fyrir helmingi magrar viðbit eins og Létt og Laggott, Léttu eða Smyrju sem er með 40% fituhlutfall. Ef að brauðsneiðarnar tvær eru síðan smurðar þunnt með 40% viðbiti þá fækkar hitaeiningunum enn meira eða niður í um 18.000.
Ef að nýmjólk er tekin sem annað gott og raunhæft dæmi þá innbirgðir sá sem drekkur 1 glas (250 ml) á dag sem nemur fimm dögum vikunnar yfir allt árið, 2,5 kg af fitu, sem gefa 22.000 hitaeiningar. Nýmjólk er 3,9 % feit (3,9 g af fitu í 100 ml) en ef að henni er skipt út fyrir léttmjólk sem er 1,5% feit, sparast 13.500 hitaeiningar.
Meðvitund um fitu og hvaðan hún kemur er því einn þáttur í bættu mataræði og heilsu.
Fríða Rún Þórðardóttir. Næringarfræðingur