Nýjar brasilískar ráðleggingar um mataræði - njóttu gæða matar í góðum félagsskap
Fæðuráðleggingar ætlaðar almenningi eru gefnar út í flestum löndum og er markmið þeirra að stuðla að auknu heilbrigði og jafnvægi í orku- og næringarefnainntöku.
Þær byggja á niðurstöðum rannsókna og er lögð áhersla á hvaða fæðutegundir eru mikilvægar, hvers vegna og í hvaða magni. Fæðuráðleggingar Íslendinga má nálgast á vefsíðu Embættis Landlæknis (www.landlaeknir.is) en þær eru reglulega endurskoðaðar.
Fyrir stuttu síðan voru gefnar út nýjar fæðuráðleggingar í Brasilíu, þar sem aðeins kveður við nýjan tón. Þar er mikil áhersla lögð á samveruna við matarborðið, að borða með athygli og á ferskleika hráefnisins en minni áhersla á fæðuflokkana sjálfa.
Þar er tekið á máli sem á víða við, en sífellt fleiri versla sér tilbúinn mat í stað þess að búa hann til hann sjálfir frá grunni.
Fæðuráðleggingar Brasilíu
Fæðuráðleggingum Brasilíu er ætlað að koma í veg fyrir bæði vannæringu og ofnæringu og þeim heilsufarsvandamálunum sem fylgja oft í kjölfarið.
Þær samanstanda af 10 eftirfarandi ráðleggingum:
- Matreiddu úr fersku hráefni sem er aðgengilegt og einkennandi fyrir landsvæðið.
- Notaðu olíu, fitu, sykur og salt í hófi.
- Takmarkaðu neyslu á fyrirfram tilbúnum matvælum og drykkjarvörum.
- Borðaðu reglulega, með athygli og í viðeigandi umhverfi.
- Borðaðu í félagsskap annara eins oft og kostur er.
- Verslaðu mat á stöðum sem bjóða upp á mikið úrval af ferskvöru. Forðastu þá staði sem selja að mestu leyti tilbúin matvæli.
- Þróaðu getu þína og æfðu þig í að matreiða. Deildu og njóttu þess með öðrum.
- Skipuleggðu þig svo þú hafir hæfilegan tíma og aðstöðu til að borða allar máltíðir.
- Þegar þú ferð út að borða, veldu þá veitingastaði sem bjóða upp á nýlega matreiddar máltíðir. Forðastu skyndibitastaði.
- Verið gagnrýnin á allar auglýsingar sem tengjast matvælum.
Eingöngu fyrir Brasilíubúa?
Það er ekki nauðsynlegt að búa í Brasilíu til að njóta góðs af þessum fæðuráðleggingum. Þær geta alveg átt við á Íslandi. Sérstaklega í því hraða þjóðfélagi sem við búum í, þar sem tímaleysi og stress hefur mikil áhrif, bæði á fæðuval og aðstæður máltíða. Fyrir utan yfirþyrmandi magn af upplýsingum varðandi hin ýmsu tilbúnu matvæli sem verið er að selja. Væri ekki ráð að fjárfesta í heilsunni með því að gefa okkur meiri tíma, velja ferskt, matreiða sjálf og njóta með öðrum, eins og þessar ráðleggingar leggja til. Mögulega gætum við hagnast á því til langs tíma litið. Það sakar allavega ekki að reyna.
Heimild: http://www.foodpolitics.com
Ellen Alma Tryggvadóttir.
Höfundur er næringarfræðingur og starfar hjá Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi og Rannsóknastofu í næringarfræði við LSH og HÍ.