Ofurfæði - er það til?
Ofurfæði - er það til?
Á undanförnum misserum hefur umræða um hugtakið ofurfæði ( e. superfoods) verið áberandi í fjölmiðlum og víðar í umræðunni um tengsl næringar og heilsu. Sjálf hef ég mikla trú á mikilvægi næringar og þætti hennar í tengslum við góða heilsu. Ég varð því forvitin að kynna mér hvað stæði að baki þessu hugtaki þegar það fór að verða áberandi. Ég velti fyrir mér hvort hér væri komin leið til að auðvelda fólki að átta sig á því hvernig hægt væri að nálgast næringarríkan mat og fá öll þau efni sem líkaminn þarfnast. En ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum þegar ég áttaði mig á því að hugtakið er frekar byggt á kenjum markaðsins en á grunni vísinda. Umræðan um ýmis duft og framandi ávexti er miklu meira áberandi en hvatning til að borða hollan mat úr okkar nærumhverfi, til dæmis bláberin eða íslenska grænmetið þó það sé vissulega stundum nefnt í þessu samhengi.
Tengsl ofurfæðis og andoxunarefna
Svo virðist sem mjög frjálslega sé farið með hugtakið. Skilgreining þess liggur ekki á lausu og framleiðendur og seljendur vöru virðast geta túlkað vöru sína sem ofurfæði án þess að fylgja nokkrum stöðlum, undirgangast neinar mælingar eða eftirlit. Mismunandi er hvaða fæðutegundir falla í þennan heiðursflokk og virðist það stundum duttlungafull skipting. Rauði þráðurinn virðist vera að það sem nefnt er ofurfæða inniheldur mikið af næringarefnum miðað við umfang. Sumstaðar segir að skilgreiningin sé byggð á mælingum á virkni andoxunarefna í fæðutegundunum, eða hugtakinu oxigen radical absorbance capacity; ORAC og til að flokkast undir ofurfæði þarf ORAC gildi að vera fremur hátt.
Vísbendingar eru um að andoxunarefni í töfluformi séu gagnslítil eða jafnvel skaðleg.
Rétt til að setja þetta í samhengi þá myndast við efnahvörf (oxun) í líkamanum efni sem kallast sindurefni (e. free radicals) sem eru mjög hvarfgjörn og geta valdið skemmdum á lifandi frumum. Andoxunarefni hlutleysa þessi sindurefni, gera þau stöðug og koma í veg fyrir skaðleg áhrif þeirra. Vísbendingar eru um að andoxunarefni sem koma úr matvælum svo sem ávöxtum og grænmeti geti minnkað líkur á ýmsum sjúkdómum, svo sem nokkrum tegundum krabbameina og hjarta- og æðasjúkdómum, en ekki eru jafn sterkar vísbendingar um að slík efni í töfluformi geri saman gagn og geti jafnvel haft skaðleg áhrif í því formi.
Gildi andoxunarefna óþekkt
Eftir því sem ég kemst næst virðast upplýsingar um ORAC-gildi matvæla byggja á mælingum frá Bandarískri landbúnaðarstofnun (The United States Department of Agriculture ) sem setti fram lista með ORAC- gildi ýmissa fæðutegunda. Þessi stofnun dró nýlega til baka þennan lista sinn þar sem vísindalegar sannanir að baki honum þóttu ekki nægilegar. Meðal annars vegna þess að þessar mælingar á tilvist andoxunarefna eru gerðar á tilraunastofu og ekki er vitað hvaða þýðingu andoxunarefnin eða hátt ORAC-gildi hefur í líkamanum. Þannig er ekki vitað hvort hátt eða lágt ORAC-gildi hafi einhverja þýðingu fyrir okkar heilsu.
Þó ég sé ekki lögfróð þá virðist mér að það sé hreinlega ólöglegt að tilgreina á umbúðum matvæla að varan innihaldi hátt ORAC-gildi samkvæmt reglum European Food Safety Authority og Food and Drug Administration í Bandaríkjunum, því slíkar upplýsingar eru villandi fyrir neytendur. Ekkert virðist þó hindra þessar fullyrðingar í umræðu vítt og breitt þó það sé ekki síður villandi fyrir neytendur.
Hvað „á“ og „á ekki“?
Þannig virðist mér sem þetta hugtak ofurfæði sé ekki til þess fallið að auðvelda okkur valið varðandi holla og góða næringu. Þvert á móti er hætta á að við týnum okkur í atriðum sem skipta litlu máli en gleymum grunnatriðum í hollu fæði. Það er stundum erfitt að átta sig á því hvað við „eigum“að gera og hvað „eigum ekki“ að gera í tengslum við næringu. Svo mismunandi eru skilaboðin sem við fáum frá lærðum sem leiknum. Við vitum að niðurstöður rannsókna geta gefið okkur mjög breytilegar niðurstöður og beint okkur oft í sitt hvora áttina. Því er mikilvægt að hafa tök á að skoða heildarmyndina og átta sig á því hvað rannsóknarniðurstöður eru raunverulega að segja okkur og hvaða annmarka þær hafa.
Það getur vel verið að það eigi eftir að koma í ljós að matvæli sem hafa hátt ORAC- gildi (andoxunargildi) hafi jákvæð áhrif á heilsuna okkar en það er ekki hægt að fullyrða það eins og staðan er í dag.
Enn hafa vísindamenn ekki fundið hvernig við getum metið þann einstaklingsbundna breytileika varðandi hvaða mataræði hentar hverjum og einum. Við eigum enn langt í land með að kortleggja allar þær breytur sem koma við sögu í okkar flókna og fullkomna líkama og samspili hans við umhverfið. En ég held að okkur sé óhætt að túlka þennan breytileika í niðurstöðum rannsókna á þann hátt að við erum mismunandi. Það er ekki eitthvað eitt sem hentar öllum. Það verður gaman að fylgjast meðframþróun þekkingar í þessum fræðum á næstu árum. Það getur vel verið að það eigi eftir að koma í ljós að matvæli sem hafa hátt ORAC-gildi (andoxunargildi) hafi jákvæð áhrif á heilsuna okkar en það er ekki hægt að fullyrða það eins og staðan er í dag.
Notum skynsemina
Það sem virðist þó ekki breytast í gegnum allskyns sveiflur er að við eigum að borða mat. Fjölbreyttan og lítið unninn mat. Ekkert sem ég hef orðið vitni að í ræðu eða riti hefur fært mig frá þeirri sannfæringu minni að við eigum að borða mat umfram tilbúin duft. Borða mat sem er sem næst uppruna sínum, eins hreinan og við höfum tök á. Fjölbreytnin verður einnig að vera til staðar því engin ein tegund matvæla hefur allt sem við þurfum hversu mikil ofurfæða sem hún er kölluð. Margt af því sem nefnt er ofurfæða er bara hollur og næringarríkur matur og ætla ég að verða síðust manna til að draga úr neyslu slíkra matvæla. En ég hef áfram efasemdir um að allskyns framandi duft sé jafn bráðnauðsynlegt fyrir heilsu okkar og af er látið í umfjöllun um slík efni. Notumst því við gömlu góðu skynsemina eitthvað áfram.
Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir Heilsuborg og Reykjalundi
Grein af www.sibs.is , samstarfsaðila Heilsutorg.com