Gunnlaugur Auðunn Júlíusson er sannkallaður ofurhlaupari
“Ég heiti Gunnlaugur Auðunn Júlíusson og er fæddur í september 1952. Ég í grunninn menntaður í landbúnaði, með B.Sc gráðu í almennri búfræði. Síðan stundaði ég framhaldsnám í landbúnaðarhagfræði í Svíþjóð ig Danmörku. Einnig hef ég lokið löggildingu í verðbréfamiðlun og stundað meistaranám í fjármálum við HÍ. Ætli ég geti ekki kallast hagfræðingur. Ég starfa sem sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en áður en ég hóf störf þar var ég t.d. sveitarstjóri á Raufarhöfn.“
Nú varst þú að ljúka afar löngu og krefjandi hlaupi, segðu mér örlítið frá því?
Grand Union Canal Race hlaupið er hlaupið frá miðborg Birminghan (Baker Street) til Little Venice í Lundúnum. Það er 145 mílna langt eða tæpir 240 km. Það er lengsta hlaup í Bretlandi sem hlaupið er í einum áfanga. Í ár var það þreytt í 20 sinn. Í ár hófu hlaupið 110 hlauparar en 49 hættu svo það voru 61 hlaupari sem náði til Little Venice. Hlaupaleiðin liggur alla leið með fram síkjum (canölum) þar sem gríðarlegur fjöldi sérstakra sumarleyfisbáta / skemmtibáta heldur til. Ég lauk hlaupinu á 35 klst 43 mínútum sem er um klukkutíma lakari tími en fyrir tveinur árum þegar ég tók þátt í því í fyrsta sinn. Aðstæður í ár voru hins vegar miklu erfiðari vegna gróðarlegrar rigningar í um 12 klst fyrri hluta hlaupsins.
Hvernig æfir þú fyrir svona langt hlaup?
Það er mjög misjafnt milli hlaupa. Ég æfði ekki mikið í ár fyrir þetta hlaup. Að jafnaði hef ég hlaupið svona 70 - 90 km á viku. Um helgar fór ég oft um 30 km bæði á laugardögum og sunnudögum. Einungis einu sinni frá áramótum hljóp ég lengra en 40 km. Ég hjóla hins vegar mikið og reyni að fara allra minna ferða á hjóli eftir því sem það er mögulegt.
Hvernig spilar mataræðið inní?
Að mínu mati er mataræðið lykilatriði að geta gengið í gegnum svona þolraunir eins og ég hef verið að gera á liðnum árum. Það á við bæði hvað varðar undirbúning og eins hlaupin sjálf. Á árunum 2008-2010 hljóp ég t.d. sem svaraði 15 km á dag hver einasta dag ársins eða vel yfir 5000 km á ári.
Mataræðið skiptir miklu máli hvað varðar það hvað líkaminn er fljótur að ná sér eftir mikið álag. Gott mataræði dregur t.d. úr meiðslahættu. Sömuleiðis skiptir það miklu máli í hlaupinu sjálfu að vera vel nærður. Ég tók mataræðið í gegn fyrir tæpum 10 árum síðan og ég er nokkuð viss um að ég hefði ekki getað lagt það á líkamann sem ég hef gert ef það hefði ekki gerst. Kjöt, fiskur, grænmeti og ávextir eru grunnfæðan.
Ég borða síðan t.d. ekki hvítt hveiti, ekki sykur, nota mjög lítið af mjólkurvörum nema smjöri, drekk ekki kaffi né gos, borða ekki junk food, ekki unninn mat, varla að ég snerti kökur, kex eða sælgæti svo dæmi séu nefnd. Áfengi nota ég mjög lítið. Upp á síðkastið er ég farinn að nota meir af chia fræjum, goija berjum, ávaxtadrykkjum, kornspírusafa, kefirdrykk og annað sem tengist hráfæði á ýmsan hátt.
Hleypur þú á hverjum degi?
Ég reyni að taka ekki meir en einn frídag í viku að jafnaði. Yfirleitt tek ég daginn snemma og hleyp á morgnana. Svo fer ég í sjóinn a.m.k. einu sinni í viku.
Það er álag á fæturna að hlaupa svona langt og lengi
Ferðu í líkamsrækt?
Of lítið og of sjaldan en ég þyrfti að gera fjölþættar líkamsæfingar. Einnig er mjög gott að æfa hraðaæfingar á bretti. Það er svona kaflaskipt hvað ég fer í hefðbundna líkamsrækt.
Spáir þú mikið í mataræðið þitt þegar þú ert ekki að leggja upp í langhlaup?
Eins og ég saði áður þá legg ég mikið upp úr góðu mataræði allt árið um kring. Ég er viss um að það sé forsenda fyrir almennu heilbrigði sem varðar alla, ekki einungis þá sem eru að leggja mikið á sig í æfingum.
Ef þú værir beðin um að gefa gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það?
Það er hægt að setja fram nokkur heilræði sem varða alla hvar sem þeir standa:
1. Það geta allir miklu meir en þeir halda.
2. Maðurinn er gerður til að hreyfa sig.
3. Forsenda fyrir árangri er að setja sér markmið og byggja upp aga til að ná settum markmiðum.
4. Það er engin þörf á að hlaupa til að byggja upp þrek og úthald. Það er nægilegt að finna góða brekku og ganga rösklega upp hana. Það tekur í :)
5. Heilnæmt mataræði er forsenda svo margs s.s. almenns heilbrigðis og vellíðunar.