Ólafur Darri leikari í viðtali
Þessa dagana er hann Ólafur Darri í sýningunni Mýs og menn. Hann æfir svo Hamlet í Borgarleikhúsinu en það verður frumsýnt 11.janúar n.k.
"Svo vinn ég hörðum höndum að því að koma mér í jólaskap, það gengur ágætlega" sagði Ólafur Darri.
Hvernig byrjar þú hefðbundin dag og hvað er í morgunmat ?
Fyrsta barátta dagsins er að koma sér fram úr og flesta daga þá bara tekst það. Í morgunmat er yfirleitt boðið uppá tvær sneiðar af ristuðu heilhveitis með osti, eggi, kavíar, sultu, hunangi eða bara því sem er til. Lýsispillur og djús með vatni og/eða te fylgir með.
Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum?
Það myndi vera tómatssósa, ekki það að ég noti hana mikið en hún er alltaf til.
Nefndu mér þrjá hluti sem þú gætir ekki verið án?
Fyrir utan fjölskylduna þá væri tilveran erfið án símans og tölvunnar. Já og svona um vetur væri erfitt að vera án fata og svo sem líka um sumar hér á Íslandi ef út í það er farið.
Hvernig leggst skammdegið í þig ?
Illa. En samt... Er það ekki bara að vera Íslendingur að láta skammdegið fara í taugarnar á sér? Mig hlakkar yfirleitt líka til þess að það fari að dimma en þegar komið er fram í febrúar/mars þá er maður farinn að þrá ljósið aftur. Það að vera Íslendingur er að vera fíkill í breytingar. Það sést best á veðrinu.
Hvort velur þú Bók eða bíómynd til að slaka á ?
Bæði. Ég er alltaf til í góðar bækur og bíómyndir.
Hversu oft í viku æfir þú og hvernig æfingar ertu að gera?
Þessa stundina er ég í Yoga tvisvar í viku en nú þarf maður að fara bæta lyftingunum við. Svo hreyfir maður sig yfirleitt mikið í vinnunni.
Áttu uppáhalds stað á Íslandi ?
Djúpalónssand á Snæfellsnesi og Vestfirði almennt.
Myndir þú fara á milli staða í Reykjavík á hjóli ?
Það er nú ansi langt síðan það gerðist. Myndi frekar labba ef ég mætti velja.
Kaffi eða Te ?
Te. Tekst ekki að venja mig á kaffi sem er ágætt.
Ef þú værir beðin um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það?
Það fer svolítið eftir hópnum en hér er gott ráð fyrir alla: Það gerir ekki neinn neitt fyrir neinn sem ekki gerir neitt fyrir neinn.