Óttinn við eigið vald yfir eigin lífi - hugleiðing Guðna á föstudegi
Valkvíði er valdkvíði
Valkvíði er valdkvíði – óttinn við eigið vald yfir eigin lífi, óttinn við að því valdi fylgi upplýst ábyrgð og afleiðingar til að fást við. Það er miklu auðveldara að halda að sér höndum og geta bent á aðra þegar eitthvað fer úrskeiðis; að geta farið inn í vel þekktan og samfélagslega viðurkenndan söng sjálfsvorkunnar. Þeir sem segjast haldnir valkvíða segja sumir að þeir höndli ekki tilhugsunina um að gera mistök; að þeir muni ekki ráða við afleiðingarnar af vali sínu. Þetta er skiljanlegur hugsunarháttur, þegar þú trúir því á annað borð að ábyrgðin sé aðeins þín þegar þú velur sjálfur.
Eigum við að líkja þessu við veitingahúsaferð? Ég fer út að borða með hópi af fólki og matseðillinn vex mér í augum – ég get ekki valið fyrir mig og bið nærstadda um að koma með hugmyndir. Einhver stingur upp á plokkfiski. Ég panta plokk- fisk. Plokkfiskurinn kemur á borðið, ég geri honum skil en er óánægður. Hann er vondur. Ég finn það núna að mig langaði í léttsteikt nautakjöt. Þegar ég lifi eftir forsendum skortdýrsins og hugans leita ég að því hver á sök á þessu klúðri. Manneskjan sem valdi fyrir mig verður fyrir valinu. Hún er fífl. Heimurinn er óréttlátur. Og á endanum snúast spjótin í höndunum á mér og þessi þrábæn byrjar að titra inni í mér: „Þú ert svoddan aumingi. Getur ekki valið matinn ofan í þig? Af hverju gastu ekki bara valið nautakjötið?“
Og hvað gerist þegar plokkfiskurinn bragðast vel? Þá get ég ekki einu sinni glaðst yfir því að hafa valið svona vel. Þegar ég lifi þannig að ég neita að taka ábyrgð á erfiðum afleiðingum gjörða minna þá neita ég mér líka um ábyrgðina á jákvæðu afleiðingunum.
Að neita að velja viðbragð og taka ákvarðanir varðandi eigið líf er eins og að vera fastur í spennitreyju – hendurnar bundnar; eins og að reyra sig niður í árabát og kasta sér fram af kletti út á iðandi hafið, handalaus, áralaus, stjórnlaus. Og við þannig kringumstæður „lendir maður í“ alls kyns hlutum og aðstæðum, eins og gefur að skilja; lendir í hjónabandi, barneignum, atvinnu og þar fram eftir götunum.
Þegar þú velur þá öðlastu mátt.
Þegar þú velur að velja ekki þá rýrirðu orku þína og verður máttlaus.