Fara í efni

Paleo, Atkins, The Zone, LCHF, sveltikúrinn; hvað með bara sitt lítið af hverju?

Sjaldan eða aldrei hefur verið jafn mikill áhugi á næringu eins og nú er í okkar samfélagi. Flestir hafa áhuga á góðri næringu, vilja tileinka sér hana og ná góðri heilsu, í gegnum gott mataræði, sem stuðlar að lífshamingju og jákvæðu viðhorfi. En hvað er góð næring? Mjög mismunandi er hvað fólk telur að góð næring sé og byggir það oft á eigin reynslu og til hvers er ætlast af næringunni, ef svo má að orði komast.
Paleo, Atkins, The Zone, LCHF, sveltikúrinn; hvað með bara sitt lítið af hverju?

Aldrei meiri áhugi á góðri næringu
Sjaldan eða aldrei hefur verið jafn mikill áhugi á næringu eins og nú er í okkar samfélagi. Flestir hafa áhuga á góðri næringu, vilja tileinka sér hana og ná góðri heilsu, í gegnum gott mataræði, sem stuðlar að lífshamingju og jákvæðu viðhorfi. En hvað er góð næring? Mjög mismunandi er hvað fólk telur að góð næring sé og byggir það oft á eigin reynslu og til hvers er ætlast af næringunni, ef svo má að orði komast.

Sumir vilja borða vel af næringarríkum mat til þess að geta komist klakklaust í gegnum lífið á meðan aðrir vilja auk þess að næringin dugi fyrir erfiðu heilu maraþoni. Áherslurnar í mataræði hér á landi eru nánast eins margar og fjöldi Íslendinga. Slíkt er auðvitað hið eðlilegasta mál.

Ráðleggingar til einstaklinga eru frábrugðnar ráðleggingum til almennings
En hvernig líta málin út þegar kemur að lýðheilsu? Fjöldanum sem slíkum? Hvernig snýr fagfólk sér þegar það þarf að ráðleggja hópi fólks eða samfélaginu í heild sinni? Grípa fræðimenn þá til „hvað virkaði fyrir mig“ og koma því áfram til almennings? Nei það er ólíklegt, þó svo að í undantekningartilfellum sé það gert þegar vísindasamfélagið telur það tímabært en stjórnvöld kannski ekki. Sem dæmi um þetta má nefna D-vítamín en flestir næringarfræðingar ráðleggja nú að auka þurfi neyslu á D-vítamíni á meðal Íslendinga, þrátt fyrir að stjórnvöld séu ennþá með ráðleggingar frá fyrri tíð.

Því miður er það svo að til eru fræðimenn sem fylgja ekki hefðbundnum lýðheilsuráðleggingum þegar þeir tala við almenning. Þeir byggja því oft sínar ráðleggingar á eigin reynslu, jafnvel reynslu vina og kunningja, og telja að það sama geti gerst fyrir alla bara af því að það gerðist hjá einum eða tveimur. Slíkt er ekki góð þróun og mikið ábyrgðarleysi felst í slíkum vinnubrögðum.

Oft heyrir maður að með ráðleggingar á mataræði geri það ekkert til að hver sem er veiti slíkar ráðleggingar því mataræði sé eins og trúarbrögð; það kunna allir skil á því og allir hafa skoðun á því. Slíkt er auðvitað bágur málflutningur enda þurfum við ekki annað en að líta í kringum okkur til að sjá afleiðingar þess þegar „náunginn“ ráðleggur um mataræði og næringu. Hver er t.d. tíðni átröskunar á meðal þeirra sem taka þátt í fitness keppnum, eða tíðni lifrarskemmda hjá vaxtarræktarmönnum sem hafa í gegnum tíðina dælt í sig alltof mikið af próteinum eða öðru verra? Gaman væri líka að skoða hver tíðni átröskunar og ranghugmynda um mataræði er hjá þeim sem aðhyllast skammtíma kúra eins og lágkolvetnakúrinn eða Atkins kúrinn, þar sem boð og bönn eru algild og oftar en ekki verður svo mikil togstreita gagnvart matnum og þeim mat sem ekki má borða, að allt fer í steik og matarhugsun heltekur einstaklinginn.

Næringarfræðingar koma þarna hvergi nærri enda boð, bönn og öfgar ekki hluti af lýðheilsuráðleggingum næringarfræðinga.

Getur hver sem er gefið ráð?
En hvert erum við komin ef hver sem er má gefa ráðleggingar um mataræði?  Myndi verkfræðingur fá vinnu sem verkfræðingur í starf sem krefðist verkfræðingsmenntunar hversu mikla og góða skoðun sem hann kynni að hafa á verkfræði? Getur einstaklingur sem ekki hefur próf til að stýra flugvél sest inn í eina af vélum Icelandair og tekið á loft? Af hverju eiga þeir sem t.d. hafa lítinn sem engan grunn í næringarfræði að fá að veita ráðleggingar til almennings? Ég veit dæmi þess að ómenntaðir atvinnubloggarar, ómenntaðir líkamsræktarfrömuðir, osteopatar með algera lágmarksmenntun í næringarfræðum, einkaþjálfarar sem byggja á eigin reynslu, höfundar bóka um næringu og margir aðrir veita ráðleggingar til almennings um næringu þrátt fyrir að menntun til þess arna sé ekki til staðar. Hvað myndi samfélagið okkar gera ef ómenntaður einstaklingur starfaði sem læknir? Margir myndu segja að inngrip næringarfræðings sé ekki eins mikið og læknis og því sé þetta ekki samanburðarhæft. En þeir hinir sömu skilja þá ekki hvað það er sem matvæli gera við og fyrir líkama okkar þegar þeirra er neytt.

Sjá þessir lítið menntuðu einstaklingar heildarmyndina? Vita þeir hvað gerist í líkamanum þegar matar er neytt? Vita þeir jafn mikið og sá sem hefur farið í yfirgripsmikið næringarfræðinám þar sem flest atriði næringar koma fram og kennt er bæði um þá hluti sem maður hefur áhuga á og þá hluti sem maður hefur ekki áhuga á? Eru þeir ómenntuðu að skoða það sem þeir hafa áhuga á? Leggja þeir sig líka fram um að fá „hina sýnina“ á allt sem þeir láta frá sér? Ég held að almenningur ætti að spyrja þessara spurninga þegar kemur að því að velja sér einstakling til að hjálpa sér með mataræðið.

Með þessu er ég ekki að gera lítið úr menntun þeirra sem eru ekki með næringarfræðimenntun á bakinu og eru að gefa ráðleggingar um mataræði. En vert er að muna að maður verður ekki góður fræðimaður á því að lesa greinar og velja niðurstöður rannsókna sem henta fyrirfram ákveðnum málflutningi. Slíkt kallast á fræðimálinu „Cherry-picking“ og það geta allir gert, lærðir jafnt sem ólærðir.

En þó slíkt sé sagt þá viðurkenni ég fyrstur manna að mjög margir færir einstaklingar hafa haft mjög mikil áhrif á hinar ýmsu fræðigreinar þrátt fyrir litla menntun.

Hér á landi hefur þó skapast hefð fyrir því að hinir og þessir gefi ráðleggingar um mataræði. Einhvern veginn finnst mér það vera þannig að þeim mun meiri sem öfgarnar eru að þeim mun fleiri muni hlusta og fara eftir. Meðalhófið sýnist mér vera hundleiðinlegt og því nennir enginn. Sleppum þessum mat, borðum mikið af þessum, alls ekki þennan mat eftir kl. 14 á daginn eru algengar ráðleggingar. Svo hefur maður heyrt ráðleggingar um að eyrnabólga minnki ef þú ert í blóðflokki O og hættir að borða kjúkling. Annað er í svipuðum dúr og ráðleggingar um fjölbreytt, hollt og hóflegt mataræði virðast vera týndar og tröllum gefnar; vísindin, þegar kemur að næringu, eru ekki „hipp og kúl“.

Svartur? Hvítur? Engir aðrir litir?
Annað sem vinsælt er að gagnrýna eru tengsl næringarfræðinga við matvælaiðnaðinn. Mjög algengt er að ráðleggingar einstaklinga sem ekki eru næringarfræðimenntaðir snúist að einhverju leyti um að gera ekki eins og hinn illi iðnaður vill að almenningur gerir. Í vanþekkingu sinni stekkur fólk á matvælaiðnaðinn þegar það hentar til fylgisaukningar og kenna honum um allt sem miður fer. En slíkt hentar mjög vel til fylgisaukningar því neytendur vilja gjarnan heyra að þeirra heilsuveill sé öðrum en þeim sjálfum að kenna. Og svo næst er stokkið á næringarfræðingana, sem eru ekki sammála öfgafullum skoðunum, og sagt er að þeir dragi taum iðnaðarins.

Á sama tíma er svo ekki óalgengt að þeir sem saka næringarfræðinga um að draga taum iðnaðarins, séu sjálfir að selja einhverjar vörur, mjög oft fæðubótarefni alls konar, og hafa þar með beinan fjárhagslegan hagnað af því sem þeir láta út úr sér í máli og myndum.. Og hvað með fæðubótarefnaiðnaðinn? Hentar ekki að gagnrýna hann? Eða er sá iðnaður betri en þeirra sem búa til hefðbundin matvæli? Mér þykir það lágmark að þessir einstaklingar ákveði sig í hvoru „liðinu“ þeir ætla að vera; öllu hollu og engu verksmiðjuframleiddu eða liði óþokkans sem selur allt draslið sem er verksmiðjuframleitt.

Þarf þetta alltaf að vera svona svart og hvítt?
En kannski er hægt að gera enn betur? Kannski er hægt að gera það eina rétta og taka tillit til „beggja heima“ og skoða hlutina í samhengi og hvernig sé best að nálgast mismunandi skoðanir okkar hópa og, það sem mestu máli skiptir, hvernig það getur létt neytendum lífið í að velja sér hollari lífshætti? Neytendur vilja ekki vera með eða á móti. Þeir vilja einfaldlega fá upplýsingar sem eru einfaldar að skilja og auðveldar í framkvæmd og getur látið þeim líða betur í dag en í gær!

Eiga neytendur ekki betra skilið en að tekist sé á með þessum hætti? Boð og bönn henta ekki til lengri tíma. Það hentar ekki til lengri tíma að setja hlutina upp sem annaðhvort svarta eða hvíta.

Lífið er sjaldnast svart eða hvítt með annað hvort djöfli eða engli í öllum hornum. Það er skemmtileg blanda af þessum tveimur litum, þessum tveimur „fígúrum“ og því eiga ráðleggingar um mataræði ekki að vera með öðrum hætti!

Nýjasta nýtt!
Það nýjasta nýtt núna er að krefja alla næringarfræðinga um tilvitnanir í rannsóknir þegar þeir opna munninn. Slíkt er auðvitað mátulega mikil kómík enda flestir þeir sem gagnrýna næringarfræðinga með tilvitnanir í allt annað en góðar rannsóknir. Mjög oft sér maður tilvitnanir í Youtube, Google, málgögn hagsmunaðila og eitt sinn sá ég hjá osteopata einum tilvitnun í þáttinn hennar Oprah Winfrey. Slíkt eru auðvitað skelfileg vinnubrögð og ætti að vera viðvörunarmerki til allra þeirra sem hug hafa á að hlusta á málflutning slíks aðila.

Af hverju þarf næringarfræðingurinn að halda á hnausþykkri möppu af rökstuðningi í hvert skipti sem hann opnar munninn? Gera læknar það? Gera sjúkraþjálfarar það? Það eru til ráðleggingar um mataræði, sem íslenskar ráðleggingar byggja á, sem þúsundir mjög færa vísindamanna hafa komið að og eru flest lönd, og jafnvel hópar landa (norrænu ráðleggingarnar) með slíkar ráðleggingar. Eru þær ekki nógu góðar og gildandi miðað við það sem við vitum í dag? Er auðveldast að saka þá fræðimenn um samstarf við iðnaðinn, að hylmingu yfir einhverju hræðilegu? Ég tel að þessir fræðimenn séu fyrsta flokks og gangi ekki nema gott eitt til. Ég a.m.k. treysti á þessar ráðleggingar, hef ekki forsendur til annars, en ég lít ávallt á þær með gagnrýnum augum vitandi að ekkert er svo gott að ekki megi bæta.

Hver er óháður?
Ég veit ekki hvað öðrum finnst en ég treysti nú ágætlega þeim sem t.d. koma fram með lýðheilsuráðleggingar fyrir okkar ágætu þjóð. Treysti ég þeim í blindni? Nei það geri ég ekki og er ekki samþykkur öllu. Stundum er maður ekki sammála vegna þess að maður telur sig hafa nýrri upplýsingar. En munum að öll „kerfi“ eiga það á hættu að vera hægvirk og nýjar upplýsingar taka tíma til að gerjast og koma til „kastanna“ ef svo má að orði komast. Stökkva fræðimenn af stað með allt það sem þeir telja að sé rétt, jafnvel þó það sé á skjön við almennar lýðheilsuráðleggingar? Nei líklega ekki en þeir gætu kannski ráðlagt einstaklingum einhverja breytingu, enda getur maður tekið tillit til fleiri þátta þegar ráðleggja á einstaklingi en þegar maður ráðleggur heildinni.

Gagnrýni fræðimanna á nýjar upplýsingar er af hinu góða. Ef ég hefði fengið upplýsingar um það á sínum tíma að það væri alveg ný leið í boði í lækningu á krabbameininu sem ég fékk, hefði ég þá valið þá leið jafnvel þó hún hefði í för með sér hugsanlegar lífshættulegar aukaverkanir? Ef það vantaði vísindalegan stuðning fyrir þessari nýju aðferð? Nei það hefði ég ekki gert heldur hefði ég „hallað“ mér að fræðunum, þeirri samþykktu þekkingu og þeim samþykktu leiðum sem lágu fyrir í baráttunni gegn meininu. Flestir gera slíkt hið minnsta fyrsta kastið.

Af hverju er næringarfræðin frábrugðin? Af hverju vilja svona margir umturna næringarfræðunum af því að einhverjir tugir, jafnvel hundruð rannsókna benda í einhverja átt á meðan þúsundir ef ekki tugþúsundir rannsókna benda í aðra átt? Eru þetta fordómar gagnvart næringarfræðinni sem fræðigrein?

Er það nálgun fólks að það viti hvað aðrir eigi að borða bara vegna þess að það hentaði þeim sjálfum best? Í kjölfarið fara þessir einstaklingar sem byggja allt á sinni eigin reynslu svo um malandi hversu gott það er að gera það sem þeir gerðu. Þetta er einmitt það sem stór hagsmunasamtök eins og Herbalife gera. Af því að það virkaði fyrir mig þá virkar það fyrir alla! Slík nálgun er kjánaleg og gerir ekki annað en að villa um fyrir hinum almenna neytanda.

Ráðleggjum eins og virkar fyrir mig!
Ef ég myndi haga mér með þeim hætti sem t.d. mjög margir Herbalife sölumenn gera (ekki allir) þá myndi ég klárlega ráðleggja í útvarpi og sjónvarpi öllum þeim sem þjást af brjóskeyðingu að taka sama kokteil og ég er að taka til uppbyggingar á skemmdu brjóski í hnélið. Frá því í febrúar, þegar brjóskið leit hræðilega út, og þangað til núna hefur átt sér stað undraverð jákvæð breyting á brjóskinu í hnénu. Fyrir mann á mínum aldri þá á þetta ekki að vera hægt. Tja svo segja a.m.k. fræðin. Fræðin segja nefnilega að kokteillinn sem ég er að taka virki ekki svo neinu nemur.

Vísindalegur rökstuðningur fyrir notkun þessara efna er frá því að vera enginn yfir í að vera veikur. En af hverju er ég að dæla í mig fjölda tafla á dag ef vísindin segja mér að það sé ekki að virka? Nú af því að ég trúi því að „veiki“ vísindalegi stuðningurinn geti nýst MÉR! En hvernig get ég komið þessu til almennings? Fyrir það fyrsta þá myndi ég aldrei gera slíkt því frávik hjá einstaklingnum eru of mikil í mínum huga til að þetta geti mögulega virkað fyrir almenning/alla. Fyrir utan þá staðreynd að ég hef ekki hugmynd um hvað af þessu er að virka þó svo að heildaráhrifin séu jákvæð og ég hef nú von í brjósti um að geta hlaupið á ný!

Breytingar taka tíma
Eins og við vitum öll mæta vel þá þurfa breytingar sem verða á stórum megin hugmyndum að fá ákveðinn gerjunartíma. Það tekur ákveðinn tíma að festa þær breytingar í sessi. Margt af því sem er að koma í ljós í dag er hið minnsta að nokkru leyti á skjön við það sem áður hefur verið haldið fram. En í hvaða fræðigrein gerist slíkt ekki? Flestar fræðigreinar eru ekki það formfastar að breytingar nái ekki í gegn fyrr en síðar. Sem dæmi þá hafa átt sér stað gríðarlegar breytingar í læknisfræði, lyfjafræði og fleiri greinum sem við gátum ekki séð fyrir fyrir 20, 10 nú eða 5 árum síðan. Þegar hugmyndir að þeim breytingum komu fram stukku menn þá upp til handa og fóta og umturnuðu því sem þeir vissu um fræðin á þeim tíma? Það held ég nú ekki. Hverslags breytingar sem framundan eru þurfa ákveðinn tíma til að fá stuðning, bæði á meðal þeirra sem stunda grunnrannsóknir og þeirra sem leggja línurnar í lýðheilsumálum.

Breytingar í nánd? Eigum við ekki bara að anda rólega?
Eigum við ekki öll að minnast þess að það er ekki ráðleggingum stjórnvalda um að kenna að við erum ekki með betri heilsu en raunin er. Ráðleggingar íslenskra stjórnvalda eru hreint ágætar en almennt séð eru fæstir að fara eftir þeim. Stjórnvöld geta ekki borið ábyrgð á því sem gerist úti í búð þegar við kaupum óhollu vörurnar skipti eftir skipti og nánast í öll mál. Einstaklingurinn þarf að svara til saka fyrir þá ákvörðunartöku.

Er ekki þess virði að fara eftir ráðleggingum þúsunda óháðra vísindamanna þegar kemur að mataræði? Ef breytingar eru í farvatninu, sem líklegt er, er þá ekki þess virði að hinkra eftir nýjum ráðleggingum þeirra sem hafa atvinnu af því að skoða niðurstöður vísindarannsókna með óháðum hætti?

Það finnst mér a.m.k. að við ættum að gera!

Með heilsukveðjum,
Steinar B.,
næringarfræðingur
www.steinarb.net

Eat food. Not too much. Mostly plants.”
- Michael Pollan

Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.

Ítarefni