Pálmi Gestsson leikari svarar nokkrum spurningum
Allir íslendingar þekkja Pálma Gestsson leikara, við hjá Heilsutorg.is fengum hann til að svara nokkrum laufléttum spurningum.
"Ég er búinn að vera mjög upptekinn í leikhúsinu í haust, er fastráðinn leikari hjá Þjóðleikhúsinu og er búinn að frumsýna 2 sýningar í haust, annarsvegar Maður að mínu skapi, eftir Braga Ólafsson og svo Pollock? e. Stephen Sacks. Auk þess erum við ennþá að í Spaugstofunni á okkar 23 ári (eða eitthvað!) svo það er nóg við að vera" sagði Pálmi.
"Í þessum töluðu orðum er ég staddur í húsi mínu Hjara í Bolungavík. Skaust þangað einn til að vera undir sæng og lesa og sofa í þrjá sólahringa áður en jóla “brjálæðið” byrjar - reynar líka til að bragða á fyrstu harðfisk generasjón sem verið er að herða í hjalli sem ég smíðaði við húsið mitt hér vestra í sumar. Reyni að komast hingað vestur eins oft og ég get til að slaka á, fá andlega næringu (og líkamlega) og jarðtenga mig (núllstilla)".
"Nú er ég kominn í svolítið jólafrí en það hef ég ekki fengið sl. 4 ár svo það er vel þegið núna".
Hvernig byrjar þú þinn týpíska morgun ?
Ég byrja svona að öllu jöfnu að vakna, kíkja í blöðin og fá mér morgunmat sem annaðhvort samanstendur af haframjöli, ávöxtum og vatni sem ég set í blandarann - eða fæ mér örlitla gríska jógúrt og banana. Svo passa ég mig alltaf á að taka Berry-En.
Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum?
Já, ost.
Hvað er það lang skemmtilegasta sem þú gerir ?
Það er svo óskaplega margt - undanfarið hefur mér fundist skemmtilegast að fara vestur í Bolungavík og smíða í húsinu mínu Hjara.
Er eitthvað sem þú getur alls ekki verið án, þá á ég við hlut- hluti ?
Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn dálítið of háður símanum.
Hvað ertu að æfa og hvernig æfingar gerir þú?
Hef alltaf verið eitthvað í líkamsrækt í gegnum tíðina, núna fer ég í fjallgöngur þegar ég hef tækifæri til, tek þátt í 52fjalla verkefni FÍ sem er u.þ.b það besta sem ég hef gert bæði fyrir líkama og sál.
Ertu jólabarn í þér ?
Nei og já - eftir því hvernig á það er litið.
Hver er uppáhalds staðurinn þinn á Íslandi ?
Þeir eru margir uppáhaldsstaðirnir - en vænst þykir mér um Vestfirði - Ísafjarðardjúp, og þá helst uppeldis og fæðingarstað minn Bolungavík
Myndir þú nota hjól meira til að komast á milli staða ef aðstæður leyfa?
Já! Engin spurning!
Stundar þú vetrar íþróttir, skíði og þess háttar ?
Nei, bara vetrarfjallgöngur.
Ef þú værir beðin um að gefa gott ráð til hóps af fólki,hvaða ráð væri það ?
Að vera jákvæð og hamingjusöm, það er vinna - en borgar sig!