Fara í efni

Páskafreistingar

Nú er stutt í páskahátíðina. Hjá flestum er þetta fleiri frídagar en á öðrum hátíðum og því margt um að vera. Fermingar og aðrar veislur og því margar freistingar í mat svo ekki sé talað um páskaeggin okkar sem flestir láta nú eftir sér.
Ekki borða yfir þig af súkkulaði um páskana
Ekki borða yfir þig af súkkulaði um páskana

Nú er stutt í páskahátíðina. Hjá flestum er þetta fleiri frídagar en á öðrum hátíðum og því margt um að vera. Fermingar og aðrar veislur og því margar freistingar í mat svo ekki sé talað um páskaeggin okkar sem flestir láta nú eftir sér.

Það er sjálfsagt mál að gera sér glaða daga og borða meira og annað en við erum vön alla hina daga ársins.

En allt er gott í hófi og engin þörf er á því að belgja sig út af mat alla dagana. Mörg okkar gera ráð fyrir því og finnst í lagi að þyngjast um jafnvel nokkur kíló yfir hátíðarnar þrátt fyrir að við vitum að það er alltaf mun meiri tími í að ná þeim af sér aftur heldur en að borða þau á sig. En hvernig væri að gera frekar ráð fyrir því að þyngjast ekki og reyna að halda okkur við hófið.

Við sem stundum hreyfingu eigum auðvitað að halda því áfram þrátt fyrir frídaga. Samviskan er líka betri þegar við erum að borða eftir að hafa stundað okkar venjubundnu hreyfingu. Það er ekkert sem bannar okkur að fara út að hlaupa eða ganga á föstudaginn langa eða páskadag ef lokað er í líkamsræktinni

Páskaeggin okkar eru hluti af hátíðinni en gott er samt að hugleiða hvað raunhæft sé að borða af sælgætisfylltum súkkulaðieggjum yfir páskahátíðina. Gott er að gæta hófs í páskaeggjaráti eins og öðru sælgætisáti aðra daga ársins.

Rjómasúkkulaði eins og er í súkkulaðieggjunum er mjög hitaeiningaríkt sælgæti, inniheldur um 570 hitaeiningar (kcal)í 100 grömmum. Páskaegg t.d. nr.4. er um 300-400 grömm svo kílóin eru fljót að hlaðast utan á okkur ef við gætum ekki hófs í súkkulaðiátinu. 

Heimildir: islenskt.is