RAW Randalína - Birnumolar
Það er eitthvað svo huggulegt við að eiga góða hráköku í frystinum. Í gærkvöldi fór ég með tveimur góðum vinkonum í kvöldgöngu á Úlfarsfell. Þar sem við erum allar í næringarfræði í HÍ þarf alltaf að vera eitthvað nærandi og matarkyns í okkar hittingum Til að gera langa sögu stutta þá smakkaðist þessi kaka ljómandi vel í kvöldsólinni!
Botn
- 50 g pekanhnetur
- 50 g möndlur
- 75 g ósaltaðar jarðhnetur
- 1/2 - 1 msk repjuolía (til mýkingar - prófið ykkur áfram)
- 1 msk fínt hnetusmjör
- 1 msk hunang
- 1 tsk vanilludropar
Millilag
- 100 g möndlur
- 2 msk hreint kakóduft
- 10 ferskar döðlur
- 1 lúka kókosmjöl
- 1 tsk hunang
Toppur - Döðlukaramella
- 12 ferskar döðlur
- 1/2 tsk vanilludropar
- Salt á hnífsoddi
- 2-3 msk vatn
Annað
Gott getur verið að stinga heilum jarðhnetum á milli laga og ofan á herlegheitin. Gefur smá extra bit!
Aðferð
1) Setjið pekanhnetur, möndlur og jarðhnetur í matvinnsluvél mixið vel. Bætið þá við olíu, hunangi og vanilludropum. Vinnið allt vel saman eða þar til þið eruð komin með blöndu sem auðvelt er að þrýsta í form.
2) Þrýstið öllu úr lið 1 jafnt niður í form (ég notaði 25cm hring) og geymið í frysti á meðan þið útbúið millilagið
3) Malið möndlur í matvinnsluvél og blandið kakóinu saman við. Bætið döðlum, kókosmjöli og hunangi við og vinnið allt vel saman. Takið formið úr frysti og jafnið þetta lag yfir botninn. Geymið í frysti meðan þið útbúið toppinn.
4) Sjóðið upp á döðlunum í potti. Vinnið döðlurnar í matvinnsluvél ásamt vanillu, agnarögn af salti og vatni. Dreifið þunnu laginu yfir kökuna.
5) Geymið í kæli/frysti og njótið þegar löngunin brýst fram - já eða þegar þið farið í fjallgöngur með góðum vinum.
Birt í samstarfi við