Réttur ljósmæðra til að ávísa getnaðarvarnarlyfjum
Embætti landlæknis hefur á umliðnum árum ítrekað haft til umfjöllunar rétt ljósmæðra til að ávísa getnaðarvarnarlyfjum og unnið að því að fá þennan rétt viðurkenndan.
Frumvarp um ávísunarrétt ljósmæðra á getnaðarvarnarlyf mun á sínum tíma hafa verið langt á veg komið í meðförum Alþingis en af einhverjum ástæðum mun það hafa dagað uppi.
Í nágrannalöndum okkar, t.d. Svíþjóð, hafa ljósmæður þegar þennan rétt og embættinu er ekki kunnugt um neina vankanta á þessu fyrirkomulagi.
Menntun ljósmæðra hér á landi er fyllilega sambærileg við menntun ljósmæðra í nágrannalöndum okkar. Það ættu því ekki að vera neinir meinbugir á því að fylgja fordæmi þeirra.
Slíkt fyrirkomulag myndi skapa mikla hagræðingu við alla ráðgjöf varðandi getnaðarvarnir sem í dag er að verulegu leyti í höndum ljósmæðra. Auk þess yrði það til þess að létta verulegu starfi af læknum, ekki síst heimilislæknum sem í dag eru hlaðnir verkefnum.
Íslenskt heilbrigðiskerfi þarf á því að halda, nú meira en nokkru sinni fyrr, að við nýtum þekkingu annarra starfstétta en lækna til þess að koma á aukinni teymisvinnu til hagsbóta fyrir sjúklinga og íbúa landsins.
Embætti landlæknis mælir því með því að áðurnefnt lagafrumvarp verði tekið upp aftur á Alþingi og lögunum breytt á þann veg að ljósmæður fái rétt til þess að ávísa getnaðarvarnarlyfjum.
Landlæknir