Sérfræðingur getur spáð fyrir um hjónaskilnaði með 93% öryggi: Hér eru hættumerkin fjögur að hans mati
Þegar litið er í baksýnisspegilinn geta flestir, sem hafa skilið við maka sinn, örugglega bent á eitt eða fleiri atriði sem voru greinileg hættumerki og sýndu að sambandið var komið í ógöngur en þó án þess að parið tæki eftir því.
Sálfræðingurinn John Gottman, sem sérhæfir sig í hjónabandsráðgjöf, segist geta spáð fyrir um hjónaskilnaði með 93,6 prósent öryggi.
Árið 1992 sýndi hann fram á að hann gæti spáð fyrir um skipbrot hjónabanda með 93,6 prósent öryggi. Hann gaf síðan út bókina The Seven Principles for Making Marriage Work árið 1999 en í henni skýrir hann frá fjórum hættumerkjum sem leiða til hjónaskilnaðar.
Gottman telur að þessi merki séu hindranir sem koma í veg fyrir að hægt sé að leysa úr ágreiningi fólks og því sé gott að gera sér grein fyrir þeim og gefa þeim auga. Í bók sinni segir hann að flest ágreiningsefni í hjónaböndum sé ekki hægt að leysa. Ósamkomulag sé rótfast í undirstöðum mismunandi lífsstíls fólks, persónuleika þess eða gildismati. Því sé mikilvægt að skilja þennan undirliggjandi mun sem veldur ósætti og deilum og læra hvernig er hægt að virða hvort annað.
1. Gagnrýni
Gagnrýni er í sjálfu sér góð í hjónabandi ef hún er sett fram á viðeigandi og virðingarfullan hátt. En um leið og gagnrýnin fer að snúast um að benda á einn eða fleiri galla hjá maka þínum, þá er um vandamál að ræða.
2. Varnarstaða
Þegar annar aðilinn í sambandinu fer í varnarstöðu er það vísbending um að viðkomandi sé alveg sama um hvað hinum aðilanum finnst. Ef maður vísar áhyggjum eða gagnrýni makans á bug er maður að gera lítið úr tilfinningum viðkomandi. Gottman segir að þá sé fólk í raun að segja að vandinn snúist ekki um það sjálft heldur hinn aðilann. Varnarstaðan stigmagni því deilur í stað þess að auðvelda lausn þeirra.
3. Útilokun
Útilokun í þeim skilningi að fólk dragi sig út úr samræðum eða umræðum, þrátt fyrir að vera líkamlega til staðar, er slæmt fyrir sambandið segir Gottman. Margir hafa tilhneigingu til að verða kvíðnir, reiðir og/eða svekktir og þannig geta þeir ekki tekið þátt í alvöru samræðum og þannig getur útilokun átt sér stað. Þetta eru eðlileg viðbrögð að sögn Gottman en hann segir að fólk þurfi að vera meðvitað um þetta því þetta geti komið í veg fyrir lausn á deilum.
4. Lítilsvirðing
Fyrrgreind þrjú atriði sjást oft í samböndum en fjórða atriðið er mjög mikilvægt að takast strax á við að mati Gottman. Lítilsvirðing í sambandi þýðir að annar aðilinn gerir lítið úr hinum og lætur viðkomandi finnast hann/hún vera vitlaus eða ekki í takt við viðtekið gildismat. Það að gera grín að maka sínum á illkvittinn hátt eða leiðrétta það sem makinn segir án nokkurrar ástæðu er merki um lítilsvirðingu. Gottman segir að þetta sé algjört eitur fyrir sambönd því þetta geri það að verkum að það verður svo gott sem ómögulegt að leysa vandann þegar öðrum aðilanum finnst sem hinn fyrirlíti hann.